30.10.1946
Efri deild: 6. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

24. mál, tekjuskattsviðauki 1947

Gísli Jónsson:

Ég bendi aðeins á, að samkv. því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, þarf 10 millj. til að fá hallalaus fjárlög. Auk þess er gert ráð fyrir 22 millj. króna óhagstæðum greiðslujöfnuði. Nú geri ég þá fyrirspurn til ráðh. og form. fjhn., hvort ekki væri rétt að láta málið bíða, þar til séð er, hvort ríkissjóður þarf á þessu fé að halda. Enda verður það ef til vill eitt af verkefnum þessa þings að umsteypa öllum skattalögunum. Hér er nú starfandi ráðh., sem hefur fengið lausn, og vitum við ekki, hver eftirmaður hans verður, og vil ég því stöðva þetta mál, þar til fjáröflunarmál ríkisins yrðu tekin fyrir í heild, enda er frv. upphaflega aðeins til bráðabirgða.