11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

147. mál, vegalög

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Ég hef nú eiginlega ekki ástæðu til að segja mikið um þetta frv. umfram það, sem ég hef áður sagt, því að ég tel, að umræður og andmæli hafi ekki gefið tilefni til þess. Sumt af því, sem hér hefur verið rætt um, er hreint hégómamál eða óviðkomandi frv. Hv. 3. landsk. tók hér til máls — ég sé, að hann er nú ekki við —, en það var alveg óþarft fyrir hann að taka upp þykkju fyrir hv. 1. þm. N-M., sem er þess vel umkominn sjálfur að svara fyrir sig, ef hann telur ástæðu til. Hv. 3. landsk. sagði, að ég teldi till. bera vott um sérgæðingshátt og mont í 16 liðum. Maður segir nú svo margt að gamni sínu, en ég gat ekki gert að því, að mér fannst þetta nokkuð drýgindalegt. En hv. 1. þm N-M. er nú svo svamvanur á bringu og baki, að engin þörf er fyrir aðra þm. að taka upp þykkju fyrir hann. Hitt skiptir máli, að þm. sagði, að ég hefði sagt, að allar till. hv. 1. þm. N-M. væru einskis virði, og allir, sem ég hefði talað við úr héraði, hefðu fullyrt það. Þetta er alrangt. Ég sagðist aðeins hafa talað við ýmsa heiman úr héraði. — ég hafði t. d. ekki talað við þennan hv. þm.,. og það er bezt, að hann hermi rétt frá —, og sumir þeirra hefðu talið þessar brtt. óþarfar. Annars viðvíkjandi því, að ég mæli á móti þessum till. af ótta við hv. Nd., þá verð ég að segja það, að ég ber ekki í brjósti neina minnimáttarkennd gagnvart henni. Ég hef aðeins minnzt á þetta, eins og það liggur fyrir, að þegar þetta frv. er svo langt komið áleiðis og nálægt afgreiðslu, þá er viðurhlutamikið að vera að senda það á milli deilda, og þó sérstaklega, þegar miklir ágreiningspóstar eru með, eins og t. d. Hvalfjarðarferjan. Ef losaður er steinn, þá er laus skriðan, það sannast alltaf. Þetta sést bezt hér í sambandi við till. hv. 1. þm. N-M. Ef þær væru samþykktar, mundi rigna hér niður fleiri nýjum og nýjum till., og er skemmst að minnast hinnar skriflegu brtt. þeirra hv. 1. þm. Reykv. og hv. 7. landsk., og ekki sá ég betur en að einn þm. hér væri áðan að skrifa upp till., sem hann mun hafa hug á að bera fram, og af öllu sést, yfir hverju þm. búa, ef losað er um stein og einhverjar brtt. samþykktar.

Ég vil ekkert þurfa að endurtaka, en viðvíkjandi þeim skriflegu brtt., sem nú er búið að lýsa, þá er hið sama um þær að segja og hugsanlegar brtt., sem ég hef ástæðu til að ætla, að bornar verði fram, og það er það, að mál þetta er nú svo langt komið, að ég sé ekki ástæðu til að leita umsagnar nm. í. samgmn. um þessa eða þessar tillögur. Þeir hafa þegar sagt skoðun sína á brtt. í heild. Ég get vel játað, að sumar brtt. eru réttmætar, eins og t. d. brtt. hv. þm. N-Þ. og sumar brtt. hv. 1. þm. N-M., þó að flestar séu þær smásmugulegar nema till. um Hvalfjarðarferju. En þrátt fyrir þetta eru þessar brtt. ekki þess verðar að fara nú að senda málið á milli deilda. Og það er sízt hvetjandi til samþykktar, er einn þm. tekur sig til í seinni d. og gerir stærri og smærri brtt. um ýmis atriði, er snerta vegagerðir víða um land, eftir að vegamálastjóri og fyrri deildin, og að nokkru leyti þessi d. eða samgmn. hennar, hafa komið sér saman um annað. Nei, mér finnst það ekki hvetjandi til samþykktar, er einn þm. tekur sig til svona seint og ber fram allar þessar brtt., og þyrfti þá að bera brýna ástæðu til.

Varðandi hina skriflegu brtt., er ég minntist á áðan, þá veit ég ekki um afstöðu meðnm. minna til hennar sérstaklega. Ég get út af fyrir sig fallizt á, að hún sé á sanngirni byggð. Þó tel ég ekki svo nauðsynlegt að samþykkja hana, að rétt sé að opna með því lögin til endursendingar, enda er það ekki hentug venja að nauðsynjalitlu. Aðrir nm. hafa ekkert um hana sagt, en um skoðun, þeirra álykta ég út frá því, sem þeir hafa sagt almennt um brtt. í nefndinni sjálfri.

Hv. þm. Barð. þurfti ekki að vera að fara hér út í aðra sálma og héraðapólitík, hvort þetta eða hitt héraðið hefði fengið mikið eða lítið eða orðið afskipt um vegi. Það er gömul ræða, sem hv. þm. Barð. hefur flutt hér. Þeir vitna báðir, hann og hv. 1. þm. N-M., til hinna ágætu línurita, sem sýna vegalengdir og þjóðvegi í ýmsum héruðum landsins. Það er ekki nema ágætt að fá þessar upplýsingar. En að eiga að draga ályktun út frá því, hvað þær línur eru langar, það er annað mál, sem liggur ekki eins opið fyrir. Ég hélt, að það ætti að haga vegaframkvæmdum í þessu landi einkum út frá þeirri þekkingu, sem við höfum á nauðsyninni á vegum í landinu, miðað við það stríð, sem stendur um það að varðveita íslenzkar sveitabyggðir og koma í veg fyrir, að allir Íslendingar verði kaupstaðabúar. Það hélt ég og að þá kæmi í fyrsta flokki, að vegir væru fyrst og fremst gerðir þar, sem náttúran hefur lagt í hendur okkar bezt skilyrði til þess að rækta landið, svo að fólkið vildi vera í sveitinni. Þetta er frá mínu sjónarmiði grundvallaratriðið, og ég veit, að því víðsýnni sem forráðamenn málefna þjóðarinnar á Alþ. verða, því frekar hlýtur þetta sjónarmið að verða tekið til greina. Auðvitað vill maður ekki segja, að hin afskekktari héruð og óbyggilegri þurfi ekki vegi. Maður getur ekki fengið af sér að segja það, og ég tel það enda ekki réttmætt. En þessi sterki, sífelldi tónn, að héruðin séu afskekkt og eigi því að fá vegi án þess að taka með í reikninginn meginsjónarmiðið, sem ég hef talað um hér, það er dálítið óviðkunnanlegt að heyra hann sí og æ. Þó að eitt eða tvö eða þrjú afskekkt byggðarlög á landinu eigi duglega þm., sem koma auga á það, að þar þarf miklu meira af vegum og það hafi langt um meira verið lagt til vega annars staðar — og það er rétt —, þá verða þau sjónarmið að vera tekin til greina, að það er ólíku saman að jafna, blómlegum héruðum og þéttbýlum annars vegar, og hins vegar afskekktum byggðarlögum, sem svo er komið um, að þau rétt hanga í byggð, illu heilli. Og þar koma til greina sérstök sjónarmið um byggð nærri höfuðstað landsins, sem verður að gera sér grein fyrir. Nú vita allir, að rætt er um þetta og það gert að álitamáli, hvernig eigi að haga framtíðarræktun á þessu landi, hvort á að leggja aðaláherzluna á að hlúa að byggð, þar sem bezt skilyrði eru fyrir hendi á alla lund til atvinnu við jarðrækt, eða hvort eigi að jafna þannig í pokanum að láta nú mest af vegafé til afskekktari staða. Ég legg ekki út í að dæma um þetta. En þetta hlýtur að verða mjög gagngert tekið til umr. á nálægum tíma. Ég vil ekki láta bera mér á brýn, að ég fyrir mitt leyti vilji ekki unna afskekktum og samgöngulitlum útkjálkum samgöngubóta. En að bera þetta saman á þennan hátt, eins og hv. þm. Barð. gerir, það álít ég fjarstætt, þótt hann geti með þessu móti með miklu harðfylgi fengið nokkru framgengt í þessu efni, en það verður aldrei staðgott til lengdar. Ég hefði aldrei farið inn á þetta, ef hv. þm. Barð. hefði ekki gefið tilefni til þess, og ég hef skýrt mína afstöðu til brtt., sem fram hafa komið, til viðbótar því, sem búið var áður að samþ. Ég álít ekki ástæðu til þess að raska frv. frá því, sem er, þótt brtt. séu fram komnar við það, enda þótt sitt hvað mætti segja því til réttlætingar, að ákvæði þeirra hefðu átt að vera komin inn í frv., eða, þó fyrr hefði verið, inn í vegal. En ekki sé ég ástæðu til að hreyfa nú við frv. þeirra vegna, eins og á stendur.