04.11.1946
Efri deild: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég tel sjálfsagt, að þessar aths. frá þm. Barð. verði athugaðar, þó að ég hafi ekki hugsað mér eins víðtækar breyt, á frv. og þessi hv. þm. En eins og ég tók fram, hefur frv. verið flutt óbreytt, og því alls ekki óeðlilegt, að á því þurfi að gera ýmsar breyt.

Hvað því viðvíkur, að 1,4 millj. þurfi til að byggja 4 prestsseturshús á ári, þá leyfi ég mér að efast um það. Ég veit ekki til, að neitt hús, sem byggt hefur verið, hafi kostað þá upphæð, og með þeim fjárveitingum, sem verið hafa undanfarin ár, hefur verið hægt að byggja kringum 3 hús, rúm 3 eða tæp 4,eftir því hvort veitt hefur verið 500–600 þúsund. Verðlagið hefur verið 140–150–180 þús. fyrir þau prestsseturshús, sem lokið hefur verið við og mér er kunnugt um. Ef hins vegar verðlagið hefur hækkað eins og hv. þm. vill vera láta, hrekkur það vitanlega ekki til, heldur yrði að hækka fjárveitinguna í hlutfalli við verðlagið.

Hvað viðvíkur því, sem hann sagði, að það væri hæpið, að presturinn fengi að ráða nokkru um, hvernig húsið væri byggt, þá hefur það verið svo, að ef viðkomandi maður hefur viljað gera einhverjar smábreytingar af persónulegum ástæðum, t. d. vegna barnafjölda eða þess háttar, þá hefur hann fengið að ráða slíkum breytingum.

Þá kom hann að 9. gr. og sagðist alveg vera á móti því, að bæjar- eða sveitarfélagi væri skylt að leggja til ókeypis hentuga lóð. Þetta undrar mig ákaflega. Þegar ríkissjóður leggur fram allt annað, þá sé ég ekkert óeðlilegt við, að krafa komi fram um, að hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélag leggi fram lóð undir húsið. Mörg þeirra geta það sér alveg að meinalausu og hafa þegar gert það og þakkað fyrir að fá að gera það til að fá húsið byggt.

Út af 11. gr. segir hv. þm., að æskilegt væri, að íbúðarhús væru ekki brunatryggð svo hátt, að það opinbera þyrfti ekki að leggja neitt fram tryggingarfénu til viðbótar til að endurbyggja húsið. Það er nú svo. Ég efast um, að þetta sé hægt. Sum þessara húsa eru léleg timburhús. Þegar þau eru endurbyggð, eru þau færð í nútíma horf, gerð miklu betri en áður og gengið miklu betur frá þeim, og er þá eðlilegt, að það kosti miklu meira en þá upphæð, sem gamla húsið hefur verið tryggt fyrir.

Þá er það 12. gr., sem hann hefur steytt fæti við. Hann taldi mjög varhugavert, að presturinn eigi að sjá um viðhald á húsi sínu. Það hefur verið gert ráð fyrir að fara þá leið í frv., að embættismaðurinn annist sjálfur viðhaldið og greiði þeim mun minni leigu. Um það má deila, hvor leiðin sé heppilegri. Ég tel, að í ýmsum tilfellum geti verið hægara fyrir viðkomandi mann að annast viðhaldið, og sérstaklega ætti það að vera hvöt fyrir hann að fara betur með húsið en að það opinbera sjái um viðhaldið og prestur greiði hærri leigu. Enn fremur kann það í ýmsum tilfellum að vera ódýrara með þessu móti. Ég tel því, að þessar tvær leiðir komi fullkomlega jafnt til álita.

Hv. þm. segir, að 14. gr. sé sennilega óþörf, vegna þess að ákveðið sé í öðrum l., að íbúðarhús skuli vátryggð. Það er að vísu rétt, svo langt sem það nær, en það er fleira í þessari gr. Þar er ákvæði um það, hver skuli greiða iðgjaldið, og það er rétt að taka fram, að viðkomandi embættismaður skuli greiða það.

Þá var hann mjög ósammála 16. gr. frv. Hann áleit, að samkvæmt 3. tölul. ætti viðkomandi embættismaður að greiða af upphæðinni þessar ákveðnu prósentur ásamt því vísitöluálagi, sem hann fær greidd á laun sín, og á þann hátt skyldi borga allt með fullu vísitöluálagi í krónum. Þetta þýðir ekkert annað en það, að hann skuli greiða sama vísitöluálag, þ. e. a. s. sama prósentvísálag og hann fær greitt á laun sín. Það má kannske orða þetta skýrar, en þessi er meiningin, og það er ekki hægt að lesa annað út úr gr., eins og hún er þarna orðuð. En þetta er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að hann vill slá föstu, að viðkomandi manni yrði gert að greiða fyrir notkun hússins nákvæmlega í hlutfalli við það, sem húsið kostar, ekki borga neinn styrk frá ríkinu, heldur sé húsið gert upp og viðkomandi maður látinn standa straum af öllum byggingarkostnaðinum. Við skulum athuga, hvernig þetta tekur sig út. Hann talaði um, að 4 hús yrðu byggð fyrir 1,4 millj. kr. Þá skilst mér, að hvert hús kosti 350 þús. kr. Með núverandi lánskjörum má telja, að vextir og afborganir séu 6½%. Það verða 22750 kr. Laun prests eru nú 24 þús. kr. Þá hefur hann eftir til að lifa á 1250 kr. Þannig kemur dæmið út, ef fylgt er þeirri aðferð, sem hann vill hafa, og byggt á þeim tölum, sem hann nefnir í sambandi við byggingarkostnaðinn. Ég er ekki prestvígður maður, en mig mundi ekki langa til að fara í prestsembætti og verða að borga þessa húsaleigu og hafa svo eftir 1250 kr. til að lifa á. En þetta sýnir, hvaða vandamál við höfum með höndum. Þetta sýnir, að ekki er hægt að ganga að þessu eins þráðbeint og hann vill vera láta.

Ég fer svo ekki lengra út í þetta mál. Það er margt, sem ég er ósammála og vil gjarnan, að sé athugað. Ég vil benda á, að eins og málið liggur fyrir, þá er ekki hægt að ganga frá því eins og maður skyldi ætla, að beinast lægi við. Það standa nú auð prestssetur úti um allt land, ég vil ekki segja svo að tugum skiptir, en nokkuð yfir tug, og í mörgum tilfellum er það af því, að ekki er til viðunandi húsnæði fyrir prestana, þótt þar kunni einnig að koma til greina fleiri orsakir. Ef menn vilja halda uppi þessari skipan, sem nú er um þessi mál, þá verður eitthvað að gera til að bæta úr. Ef menn vilja hverfa frá því, þá er það annað mál, og má þá taka málið á öðrum grundvelli. En eins og það horfir við, þá verður ekki hjá því komizt, að málið sé tekið til gagngerðrar endurskoðunar miðað við l. frá 1931 og fært í eitthvað svipað form því, sem hér liggur fyrir.