27.02.1947
Efri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

24. mál, tekjuskattsviðauki 1947

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með þessu frv., en mun greiða atkv. á móti því. Með því vil ég undirstrika þá skoðun mína, sem ég hef látið hér í ljós við tvær umr. málsins. Hæstv. fjmrh. talaði um, að ekki væri hættulegt að afgreiða málið héðan, þar sem hægt væri að stöðva það í Nd., ef réttara þætti. En ef það hefði nú ekki áður verið stöðvað hér, væri það orðið að l. Við þessu væri ekkert að segja, ef nægilegra tekna væri aflað fyrir ríkið. En það er nú ekki, og því þarf hér að breyta skattalögunum meira og á margvíslegan hátt, og ég er á móti þessu frv., eins og það er. Samkv. þessu fær t.d. maður, sem hefur 30 þús. kr. tekjur, mjög lítinn skatt, því að hann fær sínar tekjur umreiknaðar, svo að hann borgar raunverulega ekki skatt nema af 8–9 þús. kr. En sá, sem hefur 31 þús. kr. í tekjur, fær sínar tekjur ekki umreiknaðar, en verður að greiða skatt af allri upphæðinni, en þetta er ranglæti. Ef menn hér eru hins vegar búnir að koma sér saman um að afgreiða þetta mál, þá má eflaust gera það á einum eða tveimur dögum. En ég greiði atkv. gegn því á þessum fundi, ef á að afgreiða það út úr d.