11.12.1946
Efri deild: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Gísli Jónsson:

Það ber að virða og þakka þá vinnu, sem meiri hl. menntmn. hefur lagt til þessa máls, þó að ég hefði hins vegar talið heppilegra, að n. hefði ekki hraðað svo mjög störfum sínum, en allir hefðu getað tekið þátt í störfum n., sem þar eiga sæti. Ég sé, að n. hefur ekki séð sér fært að breyta 4. gr. frv. við þessa umr., en nú vildi ég benda á, hvort ekki væri hægt að fá meiri hl. fyrir því að fella hana alveg niður. Eins og kunnugt er, voru þessi ákvæði sett til að tryggja það, að hægt væri að fá presta á afskekkta staði, en alls ekki í því augnamiði að byggja yfir presta, t. d. hér í Rvík.

Þá langar mig að spyrja hv. frsm., hvort þessi n., sem sett hefur verið til að athuga um skipulagningu prestssetra, sé enn starfandi, eða hvort hún sé fastanefnd, sem eigi að starfa að minnsta kosti næstu tíu ár, eins og mér skildist af ræðu þessa hv. þm., og ef svo er, hvaðan hún fái laun sín. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að nú í fjárl. er tekið upp til prestsbústaða í 20. gr. 450 þús. kr., hvar af er ætlazt til, að fari a. m. k. á annað hundrað þús. kr. til útihúsa á prestsbústöðum, og þá er ekki eftir nema 300 þús., og þá er vitanlegt, að þennan lið þarf að stórhækka og setja hann upp í 800–900 þús. kr., og það var það, sem ég benti á við 1. umr., að ég teldi afar varhugavert, að binda fyrir fram til margra ára ákveðið framlag, sem ekki væri vitað, að hægt væri að standa við. Þetta var gert á síðasta aðalþingi. Þá voru bundnar með fræðslul. stórkostlegar fjárfúlgur úr ríkissjóði, svo að nú. þarf 14 millj. kr. til að uppfylla lagafyrirmæli umbyggingar skóla, barnaskóla og gagnfræðaskóla, en hvorki fjvn. né fjmrh. hefur getað séð nokkur tök á að uppfylla það, hvað þá að bæta við út í bláinn.

Ég benti á það við síðustu umr. að nota andvirði seldra þjóðjarða til að byggja upp fyrir. Fyrst það má selja þessar jarðir, þá tel ég eðlilegt að nota andvirðið til að byggja prestsbústaði, og þá tel ég, að l. ætti að breyta þannig, að ekki sé skylt að selja jarðirnar með þeim kvöðum, sem þær eru nú seldar með, og meira að segja að selja þær á frjálsum markaði. Mér er kunnugt um, að Reykhólasókn og Gufudalssókn eru svo margar þjóðjarðir, að ef þær væru seldar á frjálsum markaði, þá mundu þær hér um bil standa undir kostnaðinum við að byggja það, sem þar þarf að byggja, en ég sé, að n. hefur ekki séð sér fært að taka það til athugunar.

Þá gaf hv. frsm. n. upplýsingar um íbúðarhúsin. Ég verð að segja, að annaðhvort skjátlast hv. frsm. eða n. hefur ekki lagt eins mikla vinnu í þetta og mér skildist á ræðu hv. frsm., því að í frv. í fyrra var þetta allt gefið upp, og mér dettur ekki í hug, að n. hafi ekki kynnt sér það. Þar er sagt, að steinhús séu 63, en nú eru þau 79. Það er þá búið að bæta við hvorki meira né minna en 16 steinhúsum. Fyrir hvaða fé hafa þau verið byggð? Ég held, að ef það hefur verið gert fyrir þá sök, að málið var ekki látið ná fram að ganga, þá sé rétt að salta það svolítið lengur. Nei, sannleikurinn er sá, að aðrar hvorar upplýsingarnar eru rangar, og ég er svo gerður, að ef ég fæ rangar upplýsingar, þá trúi ég ekki öðru, sem sagt er um það mál. Enn fremur er sagt, að timburhús hafi verið 36, en séu nú 34, og það getur verið rétt. Það getur verið, að það hafi verið rifin 2 timburhús. (HV: Það geta hafa verið byggð steinhús fyrir þau). Já, 2, en ekki 16. Þó að ég sé ekki stærðfræðikennari við gagnfræðaskólann á Ísafirði, þá veit ég, að 2 verða ekki 16. Nú er sagt, að 24 timburhús séu í sæmilegu standi, en í fyrra voru þau 11. Nú er fullyrt, að endurbyggja þurfi að öllu leyti 30–40 prestsseturshús á næstu árum, en í fyrra voru þau 29. Engar af þessum tölum passa. Það getur verið, að biskupsskrifstofan hafi þá ekki kynnt sér málið nægilega vel, en betur nú, því að ég hygg, að báðar tölurnar séu frá biskupsskrifstofunni, en þá á að gefa þeim frest til að athuga málið einu sinni enn til að sjá, hvort þeir hafi ekki misreiknað sig við síðari tölurnar.

Ég vil enn fremur leyfa mér að benda á, að ég hygg, að ákveðið hafi verið, að það fé, sem lagt verður til prestsseturshúsa 1947, fari til bygginga prestsseturshúsa í Reykjavík. En ég er ekki viss um, að þjóðkirkjan eigi nú fyrst og fremst að stuðla að því, að fólkið flytji úr sveitunum. Mér er ljóst, að það er miklu meiri þörf á að byggja prestsseturshús á þeim prestssetrum, þar sem ekki er hægt að halda presti í héraðinu vegna húsnæðisleysis og verður þess vegna að vera prestslaust á stórum svæðum, heldur en að byggja í Reykjavík, þar sem allir prestar sækja um að vera. Ég tel því, að sú stefna sé alröng að ofþyngja ríkissjóði við að leggja fram til kirkjubygginga í Reykjavík stærri fjárfúlgur en nokkurra annarra embættismanna, meðan ekki er hægt að byggja upp á jörðum ríkisins til þess að halda þar prest. Ég held, að þegar l. voru samin áður um prestsbústaði, þá hafi mjög ráðið þar um hin afskaplega lélegu laun prestanna þá. Þá var m. a. ákveðið, að prestar skyldu fá nokkurt skrifstofufé, 500–700 kr. á ári. Þetta var beint til að bæta þeirra laun. Hvort tveggja þetta hefur verið gert til að forðast að opna launal. Svona var bætt við fleiri embættismenn. En síðan búið er að ákveða með launal., að prestar skuli hafa sambærileg laun við aðra embættismenn og þar einnig ákveðið, að sá hluti launanna, sem greiddur er ekki í beinum peningum, heldur í fríðu, skuli metinn af ákveðnum aðilum og dragast frá launum þeirra, þá tel ég ekki rétt að setja inn í sérstök l., hvernig skuli reikna þessi fríðindi, eins og gert er í 16. gr. Þar rekur sig eitt á annars horn. Þess vegna vil ég mjög biðja hv. frsm. að athuga um þetta og hvort ekki er hægt að samríma þetta, svo að þessi fríðindi verði reiknuð á sama hátt og annarra embættismanna og dregin frá þeirra launum, eða þá að breyta l., að þetta gildi ekki fyrir þessa sérstöku stétt embættismanna. Skrifstofukostnaðurinn er greiddur enn, og það er síður en svo, að ég hafi á móti því. Fjvn. hefur fengið þetta sundurliðað og mælir með að láta þessa greiðslu haldast, en ég er ekki eins sammála um, að byggingarmálin séu látin verða eins og hér er lagt til.

Ég mun af því, sem ég hef bent hér á, ekki skipta mér af afgreiðslu þessara brtt., heldur sitja hjá við atkvgr., en get fylgt málinu til 3. umr., en mun svo bera fram brtt. til leiðréttingar á þessu máli, ef þess er ekki að vænta, að það komi frá n. sjálfri, því að ég tel málið ekki í því formi, sem það ætti að vera.