16.12.1946
Efri deild: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er nú ljóst af ræðu hv. 2. þm. Árn. (EE), að hv. frsm. hefur farið rangt með, þegar hann skýrði frá því fyrir hv. d., að þetta hefði verið skoðun hv. menntmn., er hann fór orðum um, og furðar mig mjög á því, a,ð hann skuli leyfa sér að skýra frá því, að hv. menntmn. hafi lagt svona og svona til, eftir að einn hv. nm. hefur áður gefið út yfirlýsingu um, að hann sé á móti frv. og hefur nú skýrt frá, að hann muni greiða atkv. með rökst. dagskránni. Þykir mér málfærsla hv. frsm. mjög merkileg.

Mun ég svo fara nokkrum orðum um þau rök, sem hv. frsm. færði fyrir því, að mínar till, ættu ekki að samþykkjast. — Hann sagði um 1. brtt., að nú þegar væri búið að byggja nokkur prestssetur, og mundi efni till. því skapa misræmi. Ég veit ekki, hvort á að skilja þessi ummæli þannig, að hv. n. eða sá hluti hennar, sem hann talar fyrir, væri í raun og veru fylgjandi till., ef þessi aðstaða eða staðreynd væri ekki fyrir hendi, og er það þá vægast sagt ófyrirgefanlegt að drepa till. af þeim ástæðum. — Hann sagði um 2. brtt., að ef hún yrði samþykkt, yrðu þau réttindi, sem nú eru í l., rýrð. Sannleikurinn er hins vegar sá, að þessi réttindi eru ekki að fullu í l., fyrr en búið er að samþykkja, að veita skuli fé til þessara hluta, því að þá verður hér aðeins um loforð að ræða, sem ekki verða uppfyllt, ef fjvn. veitir ekki nægilegt fé til þess að byggja þessa bústaði. Sú eðlilega og þingræðislega leið er að setja skilyrði í l. um, að fé verði veitt til þessara framkvæmda af fjárl. Hv. þm. mun vera kunnugt um það, að það er nú búið að samþykk ja önnur l., sem í eru ákvæði um, að svo og svo mikið skuli byggt af skólahúsum, en ég get upplýst hann um það, að til þess að uppfylla þau loforð þarf að taka inn í fjárl. 15 millj. kr. til skólahúsabygginga, og það verður ekki gert, og þannig þarf að halda áfram í næstu 10 ár, og það verður ekki heldur gert. Þegar maður er búinn að reka sig á, að búið er að hlaða á fjárl. alls konar loforðum um framkvæmdir, sem ekki er hægt að uppfylla, þá ættu menn að hafa manndóm í sér til að viðurkenna það. Ef það er ekki gert, tel ég það ábyrgðarleysi og svik við kirkjuna að setja þetta ákvæði inn í l., eins og hv. menntmn. leggur til, að 5. gr. verði, sem vitað er, að ekki verður einu sinni hægt að taka upp á fjárl. næsta árs. Hæstv. ráðh. hefur ekki lagt til að taka upp í fjárlfrv. nema 450 þús. til þessara hluta, þótt herra biskupinn óski eftir að miða upphæðina við 700 þús. Það er því til að blekkja sjálfan sig og því meir til að blekkja þá menn, sem hér ætlast til að tryggja einhverjum mönnum réttindi, auk þess sem það er frámunalega óþingræðislegt, ef till. hv. menntmn. verður samþ. um þetta efni.

Hv. frsm. sagði, að hann gæti raunverulega fallizt á b-lið 2, brtt. minnar, um að bygging prestsseturshúsa á jörðum ríkisins skuli ganga fyrir byggingu annarra prestsbústaða, en bar fram þá afsökun gegn samþykkt hennar, að búið væri að lofa prestum hér í Reykjavík að byggja yfir þá á árinu 1947. Hver hefur lofað þessu? Ekki hv. Alþ. Það getur verið, að hæstv. kirkjumrh. hafi lofað því, en ef svo er, þá hefur hann lofað upp í ermina á sér, því að sannarlega liggur fjárveitingarvaldið ekki hjá honum einum. Til þess að uppfylla það loforð þarf samþykki hv. Alþ. um að veita nægilegt fé til þeirra framkvæmda. Ég er ekki alveg viss um, að næstkomandi fjmrh. eða kirkjumrh. telji sig bundna af þeim loforðum, sem hv. frsm. fullyrti, að hefðu verið gefin, þannig að þessi rök hans eru algerlega einskis virði í sambandi við að samþykkja mína till. um þetta efni. Brtt. mínar eru bornar fram vegna þess, að ekki er hægt að fá presta í þær byggðir, þar sem ekkert er til af húsum, en hins vegar er hægt að fá hvaða prest sem er utan af landi til þess að flytjast til Reykjavíkur, þótt þar hafi ekki verið byggt yfir þá, því að það hafa umsóknir þeirra sannað, er efnt hefur verið til prestskosninga í Reykjavík.

Auk þess hefur það verið viðurkennt hér í hv. d., að hægt er að byggja fyrir miklu minna fé úti í sveitunum en hægt er í kaupstöðunum. Af þessum ástæðum furðar mig mjög á því, að hv. frsm. skuli ekki geta fallizt á þessa till. mína. Ég virði ekki þau loforð, sem sagt er, að hér standi á bak við, vegna þess að ef þau hafa verið gefin, hefur það farið fram á annan hátt en mér er kunnugt um og vissulega ekki með samþykki hv. Alþ.

Í andmælum hv. frsm. gegn c-lið 2. brtt. minnar kom fram hjá honum greinileg hugsunarvilla, því að þetta kemur ekkert öðrum l. við, og skil ég ekki fjandskap hans gegn því, að ekki megi tryggja kirkjunni andvirði þeirra jarða, sem þar um ræðir, þannig að því verði varið til endurbóta á prestsseturshúsum í þeirri sókn, sem jarðirnar eru í, en að hann vilji heldur, að það fari í eyðslufé.

Verð ég að láta það álit mitt í ljós, að ef hv. frsm. og hv. menntmn. í heild hefur ekki brotið meir til mergjar brtt. en virtist koma fram í ræðu hans, þá hefði n. eins getað látið vera að halda fund um þær, og mótmæli ég því, að till. sé borin fram af því, að slíkar jarðir séu til í mínu kjördæmi.

Ég skil ekki, hvað mælir á móti því, að andvirði þjóðjarða og kirkjujarða gangi einmitt til þess að halda við bústöðum presta.

Hv. 3. landsk. sagði, að prestar hefðu haft fría bústaði í 1000 ár. Mér er það ókunnugt, en ég held, að það standi í lögum, að þeir skuli greiða leigu eftir sína bústaði, svo að þau rök hv. þm. eru ekki mikils virði, svo að ekki er ástæða til að samþ. ekki rökst. dagskrána fyrir það atriði eitt.

N. hefur lagt til að fela framkvæmdina nefnd, sem hvergi er til. Það sama, sem hér er lagt til, stendur í lögunum um prestsbústaði, nema ákvæði um 2 bústaði að auki, svo að engu er við það tapað, þó að frv. yrði vísað frá, þá standa þau lög eftir sem áður, en falla, ef þetta frv. verður samþ.

Ég vil benda hv. 3. landsk. á það, að hann við fyrri umr, þessa máls hér í þessari hv. d. sagði, að ég sem form. fjvn. hefði rekið rembihnútinn á að fá bústað handa rektor. Þetta er ósatt, en sýnir vel málflutning hv. þm. og hve mikið hann leggur upp úr rökum. Ég lagðist gegn því að taka íbúð á leigu fyrir hann, en var því samþykkur að taka þetta gegn því, að eigandanum væri lánað fé. Ég vil aðeins benda á þetta, því að þetta lýsir vel málaflutningi hv. þm.

Ég vil svo enn benda á það, hvernig allar þær tölur, sem nú eru gefnar upp, rekast á þær, sem upp voru gefnar í fyrra, og svo segir form. n., að bústaður í Reykjavík muni ekki kosta nema 180 þús. kr. Ég hef það beint eftir skrifstofu húsameistara, að það kosti a. m. k. 300 til 350 þús. kr. Hv. þm. getur sagt það öðrum en Reykvíkingum, að það kosti ekki nema 180 þús. að byggja 700 rúmmetra. Fulltrúinn hjá húsameistara hefur sagt mér, að það kosti a. m. k. 70 þús. kr. að gera upp lóðina, en þetta skal upplýst áður en máli þessu er lokið hér í d. og það bréflega, hvernig þessi mál liggja. En ég veit ekki til þess, að hægt sé að byggja 700 kúbikmetra íbúð fyrir 180 þús. kr. Biskup hefur sjálfur sagt, að til þessara tveggja bústaða þurfi a. m. k. 450 þús., svo að þær tölur stemma ekki frekar en aðrar, svo að þær eru bornar fram vísvitandi til að blekkja þm. til að samþykkja frv. í því trausti, að hægt sé að knýja út meira fé, þegar samþykktin er fengin. — Mér var ekki kunnugt um, að byggja ætti yfir nema einn prest hér í Reykjavík, Jakob Jónsson, en hvort á svo að bæta hinum tveimur við, veit ég ekki, en ég vil taka það fram enn einu sinni, að höfuðnauðsyn er á að byggja fyrst yfir presta úti á landi.

Ég mun svo fylgja dagskrártill. minni samkv. því, sem ég áður hef sagt, en ef hún verður ekki samþ., vona ég, að hv. d. samþ. brtt. mína á þskj. 206.