16.12.1946
Efri deild: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef lagt fram rökst. dagskrá í þessu máli, en ef svo færi, að hún yrði ekki samþ., vildi ég benda á nokkur atriði, sem breytinga þurfa við.

Í fyrsta lagi á þessi n., sem hv. 1. þm. Eyf. talaði um, að vera n., sem kosin er af Alþ. og ákveðin í lögum frá Alþ. Raunverulega vantar því ákvæði um það í frv., hvernig hún skuli kosin, og annað þar að lútandi.

Í öðru lagi er ákveðið, og það í fyrsta skipti, sem ég hef séð það, að húsaleigan skuli ákveðin eftir verðlagsvísitölu. En 16. gr. má misskilja, því að það eru til margar vísitölur. Það er til vísitala kauplagsnefndar, það er til vísitala húsaleigu, og það er til vísitala landbúnaðarafurða. Það mætti búast við, að átt væri við húsaleiguvísitölu, en ekki hægt að sjá það, eins og nú er, en þarfnast skýringar. (HV: Það er tekið fram í till. n.). Nú, ég bið afsökunar, ef það hefur farið fram hjá mér. Já, það er við 3. lið, en ekki við enda gr.

Þá vildi ég benda á það, að ef ég hef heyrt rétt, þá ætti andvirði seldra þjóðjarða að ganga til endurbyggingar prestssetra og svo andvirði seldra kirkjujarða. Það hefur verið svo með kirkjujarðirnar, og þarf því engu að breyta, en ég vildi benda á, að hvað sem líður kirkjujörðunum, þá hefur aldrei verið talað um, að þjóðjarðirnar skuli renna undir kirkjuna, og er það í fyrsta-skipti, sem ég heyrði það áðan hjá hv. þm. Barð., en ég hef heyrt það um kirkjujarðirnar.

Það er margt fleira í þessu frv., sem ástæða væri til að ræða um, ef þetta á að verða að lögum. Ég gæti bent á fleiri atriði, sem líkt er um og þau, sem ég hef nefnt, en ég treysti því, að hv. þm. sjái, að ekki er ástæða til að samþykkja þessi lög. Það þarf að sjá um fleiri embættismannabústaði en prestanna, t. d. sýslumannanna og læknanna. Um þetta er allt á reiki og ruglingi og fullkomlega reglulaust. Ea þetta þarfnast allt lausnar, og er engin ástæða til þess að vera að skilja þetta sundur. Ég vil því mælast til þess, að dagskrártill. mín verði samþ. og ríkisstj. falið að koma með ákveðnar reglur í þessu atriði. Það kemur svo til athugunar, hvar á að reisa þessa bústaði, og ég vil benda á, að húsaleiga er einmitt geysilega misjöfn. Sumir læknar eru látnir hafa afnot af húsnæði fyrir lítið eða ekkert, en sumum er reiknað það með allt að Reykjavíkurverði á húsnæði. Hvernig á að samræma það, og hvernig á að gera það? En það vil ég láta gera, og þess vegna vil ég, að málið fari til ríkisstj. og hún undirbúi það betur en gert hefur verið. En ef ekki á að gera það, þá á málið ekki að fara til einhverrar n., sem ráðh. þóknast að skipa, en maður hefur aldrei heyrt talað um fyrr, heldur á það að fara til n., sem Alþ. kýs.