07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Gísli Jónsson:

Ég vildi spyrja hv. frsm. (HV) að því, hvort hann hefur haft samráð við hæstv. fjmrh. um þessa brtt. Mér þætti miður, ef' menntmn. hefði sett fram þessa brtt. án þess að gera það í samráði við hann.

Ég vil leyfa mér að benda á, að upplýst hefur verið, að lofað hefur verið að byggja a. m. k. 3 prestsbústaði hér í Rvík á þessu ári. Það hefur verið felld till. frá mér um það að byggja bústaði í sveit til þess að gera jarðirnar verðmeiri, og virðist stefnt meira að því að byggja slíka bústaði í kaupstöðum en sveitum. Það er upplýst, að byggingar í kaupstöðum kosta 1/3 meira en í sveitum. Ennfremur er það upplýst, að hver bústaður hér í Reykjavík kostar a. m. k. 300 þús. kr., svo að ef byggja á 3 slíka bústaði, þarf a. m. k. eina milljón króna. Nú eru aðeins ætlaðar til þessa 450 þús. kr., og vildi ég, að það yrði rætt við fjmrh. hvort hann vill á þessum lið bæta 450 þús. inn á fjárl., sem hann óskar daglega eftir, að séu lækkuð.

Ég skil ekki, hvert n. stefnir, því að ekki getur eitt þing tekið fjárveitingavaldið af næstu þingum. N. segir, að þetta skuli gert. Ekki verður þó byggt upp með tómum brtt. N. segir, að það skuli veitt fé á fjárl. til þessa, en það getur hún ekki gert, nema hún vilji bera fram till, um, að tekið sé lán til þess. Ef n. vildi segja, að taka skyldi lán, þá kemur allt annar blær á málið.

Ég vildi mælast til þess við hæstv. forseta, að hann gæfi fjmrh. tækifæri til þess að fylgjast með málinu og að það yrði ekki tekið til atkvgr. nema hann væri við.