05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég verð að segja, að mér finnst ákaflega eðlilegt, að þetta mál, sem hefur verið skýrt frá í blöðum bæjarins, um vopnainnflutning hingað til landsins, væri rætt hér á Alþ. Og ég vissi það vel, að þegar fregnin um þetta kom fyrst fyrir almennings sjónir í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum, þótti mörgum þetta dálítið einkennilegt og ekki vel viðkunnanlegt að heyra hana flutta á þennan hátt. Hv. þm. Str. sagði, að lögreglustjórinn hefði ekki gefið þessar upplýsingar, sem komu í Reykjavíkurblöðunum, fyrstur, en eins og hæstv. dómsmrh. hefur bent á, þá hygg ég, að fyrsta fregnin um þetta hafi komið frá lögreglustjóranum í Reykjavík. Hvort Morgunblaðið hefur komizt að því eftir einhverjum bæjarsögum, að hingað til landsins hefðu komið vopn, það skal ég ekki um segja, en í Morgunblaðinu sér maður fyrst fregnina um það, og lögreglustjórinn er borinn fyrir þeirri fregn, að teknar hafi verið þrjár hríðskotabyssur af dönskum mönnum, sem komu hingað til landsins, og þess einnig getið, að ekki væri loku fyrir það skotið, að fleiri slík vopn hefðu verið flutt til landsins. Mér er kunnugt um það, að önnur dagblöð í Reykjavík, sem leituðu til lögreglustjórans, gátu engar upplýsingar um það fengið, hvernig þessir vopnaflutningar hefðu verið, hvað hefði komið í ljós, eða nokkuð nánar í því sambandi. Og ég vil segja það, að mér finnst það miður, þegar farið er að segja frá þessu í blöðum, ef ekki er hægt að gefa um það nákvæmar og skýrar upplýsingar. Mér finnst það leitt, að lögreglustjórinn í Reykjavík skuli gefa einu dagblaði bæjarins upplýsingar um það, að teknar hafi verið hríðskotabyssur, sem hingað hefðu verið fluttar í óleyfi, án þess að gefa neinar frekari skýringar á því máli. Ég veit með vissu, þar sem ég hef talað um það við hæstv. samgmrh., sem nú gegnir störfum hæstv. dómsmrh., að hann vill óska eftir, að nánari upplýsingar komi fram um þetta mál. Og það er þörf á því. Mér fannst það undarlegt hjá hv. þm. Str., að hann skyldi halda því fram, að upplýsingarnar um málið væru ekki runnar frá lögreglustjóranum, heldur öðrum aðila, sem sagt hefði Morgunblaðinu frá þessu. En Morgunblaðið ber lögreglustjórann í Reykjavík einmitt fyrir fregninni. Ég vil skora á lögreglustjórann að gefa nánari upplýsingar um það, hvort fluttar hafi verið til landsins 3 hríðskotabyssur og ef til vill fleiri vopn. Og ég vil skjóta því til þess hæstv. ráðh., sem fer með dómsmálin, að hert verði á því, að glöggar og skýrar upplýsingar komi fram um þetta mál. Okkur lesendum blaðanna í Reykjavík finnst það óneitanlega stór fregn, að hingað skuli hafa verið fluttar inn byssur, sem ekki eru ætlaðar til þess eins, sem byssur eru notaðar hér á landi, til þess að deyða skepnur, heldur til þess eins ætlaðar að drepa menn. Það er því ekki vanþörf á því, að birtar verði sem fyllstar upplýsingar um þetta mál, úr því sem komið er. Lögreglustjórinn þarf að gefa um það skýrar upplýsingar, hvar þessar byssur hafi fundizt og af hverjum þær voru teknar. Það er ekki nóg að gefa þær upplýsingar, að teknar hafi verið 3 byssur í Reykjavík, sem líkur bentu til, að ekki hefðu verið inn fluttar til minja, heldur af einhverjum mönnum til þess að nota þær, er þeir teldu sig þurfa. Við þekkjum allt of mörg slík dæmi utan úr löndum til þess, að við ættum ekki að gjalda fullan varhuga við slíku. Ég óska því fullkominna upplýsinga um þetta frá aðila, sem með þetta hefur að gera, og það tel ég vera lögreglustjórann í Reykjavík.