05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeim undirtektum, sem þessi fyrirspurn hefur fengið, og þeirri kröfu, að þetta mál verði rannsakað og birt þingheimi. Það hefur komið fram í umr., að það er sýnilegt, að alltaf er mánuður síðan um þetta mál hefur vitnazt, og það hlýtur þá að hafa verið á vitund dómsmrh. Ég er ekki að ásaka þann, sem nú fer með dómsmálin. En eftir þessu að dæma eru mánuðir, síðan mál þetta kom á döfina, og enn er ekkert farið að gera í því. Rannsóknarlögreglan hefur ekki einu sinni fengið málið í hendurnar. Allir vita, hvað þetta er alvarlegt mál, en samt er ekki farið eftir eðlilegustu leiðum um rannsókn málsins. Blað dómsmrh. notar málið til óviðeigandi dylgna, en hefur samt dregið, svo mánuðum skiptir, að láta rannsaka það.

Ég vil svo vita þá óviðeigandi málsmeðferð, sem þetta mál hefur hlotið, og óska eftir upplýsingum um það, hvernig þessu alvarlega máli er háttað.