17.03.1947
Efri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (2759)

197. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hafði búizt við því, að hæstv. atvmrh. mælti nokkur orð fyrir þessu frv., en mér skilst, að hann sé bundinn við önnur störf í hv. Nd. Hæstv. atvmrh. hefur sent sjútvn. þetta frv. og óskað eftir, að það yrði flutt fyrir hönd ríkisstj.

Frv. hefur verið tekið fyrir á fundi sjútvn., en hún hefur hins vegar ekki getað orðið sammála um að flytja það óskipt. Meiri hl. n. hefur því tekið að sér flutninginn eftir beiðni atvmrh.

Frv. fer ekki fram á annað en að breyta 3. gr. l. um síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins, en þar er svo ákveðið, að ráðh. skipi þriggja manna stjórn til þriggja ára í senn, er hafi með höndum stjórn síldarniðursuðuverksmiðjunnar. Með frv. er hins vegar ætlazt til, að l. verði breytt þannig, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins annist byggingu síldarniðursuðuverksmiðjunnar og allan rekstur hennar. Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta atriði og leyfi mér í því sambandi að vísa til grg. á þskj. 521 fyrir frv. Það er engin ástæða til að vísa frv. aftur til sjútvn., og vil ég leyfa mér að óska þess, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr.