12.02.1947
Neðri deild: 72. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (2962)

165. mál, fóðurvörur

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem landbn. flytur, er flutt samkvæmt beiðni fyrrv., landbrh., og er það að ýmsu leyti samið af þeim manni við landbúnaðardeild atvinnudeildar háskólans, er hefur fóðurrannsóknir með höndum, hr. tilraunastjóra, Pétri Gunnarssyni. Þá skal þess og getið í upphafi, að mál þetta hefur verið alllengi á döfinni: Hefur það verið til umr. á búnaðarþingi, og voru þar gerðar till. um nýja löggjöf í þessum efnum. — Það eru fá ár síðan sett var á stofn embætti við landbúnaðardeild atvinnudeildarinnar viðvíkjandi fóðurrannsóknum og öðru snertandi þessi mál, og má segja, að sú reynsla, sem fengizt hefur á þessum tíma, eða ávöxtur af þessu starfi komi nú fram í frv. því, er hér liggur fyrir. Það liggur í hlutarins eðli, að eftir því sem neyzla aðkeypts kornfóðurs handa búfé eykst, því þýðingarmeira og nauðsynlegra er, að strangt eftirlit sé haft með allri verzlun og tilbúningi á slíkri vöru, ef um fóðurblöndu er að ræða. Í flestum menningarlöndum eru mjög ströng ákvæði og fyrirmæli sett um þessi efni, er fyrst og fremst eiga að stuðla að því að tryggja kaupendum góða og ósvikna vöru handa búfé þeirra, og sömuleiðis eru þau trygging fyrir seljendurna að því leyti, að þau firmu eða félög, sem eru orðin þekkt að því að framleiða aðeins góða og ósvikna vöru, hafa miklu meiri afsetningu en hin, sem áfátt er í þessum efnum. Þess vegna hefur það farið í vöxt, að hin viðurkenndu fyrirtæki erlendis eru beinlínis þakklát fyrir þetta fyrirkomulag og eru fús til að greiða ærið fé til þess að vera stöðugt undir opinberu eftirliti með sínar fóðurvörur. — Kjarnfóðursnotkun hefur farið mjög í vöxt undanfarin ár hér á landi, og má gera ráð fyrir, að hún færist í enn meiri vöxt í framtíðinni. Nær þetta bæði til innfluttra fóðurblöndutegunda, svo sem maís, hveitiklíðs og fleiri korntegunda, svo og til okkar innlendu kjarnfóðurtegunda, sérstaklega síldarmjöls, en þó einnig fiskimjöls og nokkurra fleiri tegunda, sem til greina geta komið að vissu leyti sem kjarnfóður.

L. um þessi efni eru frá 1921, og var þeim dálítið breytt 1939, en segja má, að þessi löggjöf hafi verið mjög ófullkomin að öllu leyti, og í öðru lagi hefur ekki verið farið eftir þeim ákvæðum, sem í þeirri löggjöf fólust, nema að nokkru leyti. Það er því enginn vafi á því, að brýn nauðsyn er á, endurskoðun þessarar löggjafar og að tekið sé upp strangara eftirlit í þessum efnum en verið hefur áður. Eins og áður er sagt, er það eitt af verkefnum landbúnaðardeildar atvinnudeildar háskólans að sjá um fóðurrannsóknir, og heyrir því það starf, sem hér er um að ræða, tvímælalaust undir þá deild. Er nauðsynlegt að setja löggjöf, sem tryggi, að slík störf geti komið að tilætluðum notum. Sé ég ekki ástæðu til að halda langan fyrirlestur um nauðsyn löggjafar í þessum efnum, þótt ég hafi nefnt þessi fáu almennu atriði um nauðsyn þess, að þetta verði gert nú, m. a. vegna þess, hversu miklar breytingar eiga sér nú stað, hvað fóður búpenings snertir, þar sem meira er hægt að fá af aðkeyptu fóðri en hingað til hefur þekkzt. Ég ætla ekki að ræða hin einstöku atriði frv., en vil aðeins geta þeirra helztu.

1. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að tilraunaráð búfjárræktar skuli hafa eftirlit og yfirumsjón með þessu starfi, en það ráð skipa helztu sérfræðingar á sviði búfjárræktarinnar og þ. á m. sá fóðurfræðingur, sem starfar við landbúnaðardeildina.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir, að landbúnaðardeild atvinnudeildar háskólans annist efnarannsóknir í sambandi við eftirlitið, og er það í fullu samræmi við það, að þarna starfar nú maður, sem fyrst og fremst á að sjá um hluti eins og þessa.

Í 3. gr. er ætlazt til þess, að hver sá, er framleiði til sölu eða flytji inn fóðurblöndur, skuli fá til þess leyfi landbrh., en samkvæmt frv. er ætlazt til, að þeir, sem hafa fengið slík leyfi, skuli greiða ákveðið eftirlitsgjald, er renni í sérstakan sjóð, sem nefnist eftirlitssjóður fóðurvara. Skal sjóðurinn síðan greiða kostnað við eftirlitið, og er þetta í samræmi við það, sem tíðkast erlendis, þar sem þetta skipulag ríkir. — Þetta eru þau aðalatriði, sem ég vildi nefna varðandi þann kafla frv., sem fjallar um verzlun með fóðurblöndur.

Síðari kafli frv. fjallar um verzlun með innlendar fóðurvörur, þ. e. síldarmjöl og fiskimjöl. Skal ég ekki á þessu stigi málsins koma sérstaklega inn á það atriði, en vil geta þess eins, að aðalatriði þess kafla er það, að gert er ráð fyrir, að sá aðili, er hafi með höndum eftirlit með innlendum fóðurvörum, þ. e. tilraunaráð búfjárræktar, geti haft trúnaðarmenn starfandi við síldarverksmiðjur ríkisins um síldveiðitímann, sem hafi vald til þess að taka frá það mjöl, sem þeir telja sérstaklega vel fallið fyrir innlendan markað.

Þegar þeir, sem kaupa síldarmjöl, kvarta um að fá slæmt mjöl, þá er oft mjög erfitt að fá úr því skorið, hver sökina eigi, en ef umboðsmaður hefur tekið sýnishorn, þá er verksmiðjan laus við alla frekari rekistefnu um þetta efni. Ég mun að þessu sinni ekki fara frekar inn á efni frv. eða einstök ákvæði.

Þó að það sé ekki tekið fram í grg., þá áskilja einstakir nm. sér rétt til að flytja brtt., eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma, en n. mun taka frv. til nákvæmrar athugunar milli umr., og er mér vel ljóst, að það þarf að gera á því ýmsar smábreytingar, áður en það er endanlega afgr., og n. er mjög fús að eiga viðræður við alla um hugsanlegar breyt. á frv. Og ég vil sérstaklega taka það fram, að þar sem nú er annar landbrh. en þegar frv. var samið, mun n. sérstaklega óska eftir að eiga tal við hann um þetta mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að þessu sinni, en vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr.