20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (3080)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Landbn. hefur samkv. loforði mínu við 2. umr. komið saman og athugað þetta frv., og hlýtur hún að játa, að það fer betur á og er skilmerkilegra að draga saman 8. gr. og fella niður sum atriðin, sem eru villandi, og er sammála að breyta gr. svo, að hún verði samkv. þskj. 895. Í raun og veru er ekki um verulega breyt. að ræða, heldur er óljóst orðalag fellt niður.

Við 9. gr. eru svo felld niður í fyrri málsgr. þessi orð: „Ef stofnfé hrekkur ekki til lánveitinga.“ Það atriði töldum við ekkert vafamál að fella úr, jafnvel þó að það yrði til þess, að frv. yrði aftur að fara til hv. Nd. og jafnvel að komast í hættu, sem ég vona nú samt, að ekki komi til, þó að þessi breyt. verði gerð hér. Og efnisbreytingu er í raun og veru ekki verið að gera á frv. með þessari brtt.

Ég hef svo ekki meira að segja í þessu máli, en vil óska þess, að hv. þdm. fylgi n. í því að hafa frv. skýrara og ljósara og greiði atkv. með henni og samþykki þessa brtt.