09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (3114)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Þessu máli var vísað til sjútvn. fyrir alllöngu, og n. sendi það þá til umsagnar atvmrn. og til stjórnar síldarverksmiðja ríkisins. Nú hefur þrátt fyrir eftirgangsmuni ekki tekizt að fá fram þessi álit. Ég skal taka það fram til skýringar, hvað snertir atvmrh., að það mun hafa verið rétt áður en fyrrv. stjórn fór frá, sem þessi beiðni var send til stjórnarinnar til umsagnar, og það er þess vegna skiljanlegt, að hæstv. fyrrv. stjórn hafi ekki unnizt tími til að svara, og eins er skiljanlegt, að hæstv. stjórn, sem við tók, hafi ekki unnizt tími til að taka þetta mál til athugunar, en væntanlega getur hæstv. ráðh., sem þetta mál heyrir undir, verið búinn að athuga það fyrir 3. umr. þess.

Ég hef nokkrum sinnum gengið eftir því hjá stjórn síldarverksmiðja ríkisins að fá álit hennar, og síðast í gær fékk ég loforð um, að álit hennar skyldi sent mjög bráðlega.

Ég segi þetta til skýringar og afsökunar á því, að sjútvn. skuli ekki hafa skilað áliti í málinu enn þá. Okkur fannst það dálítið óvandvirknislegt að skila áliti án þess að hafa leitað umsagnar þessara tveggja aðila. Hins vegar skil ég, að flm. geti ekki sætt sig við, að málið fái ekki afgreiðslu, og veit, að málið er búið að liggja óhæfilega lengi hjá n. Nú, þetta er sem sagt afsökun fyrir því, að n. hefur ekki enn þá gefið út álit. En ég vil segja það sem persónulegt álit mitt, að ég sé ekki neitt á móti því, þó að málið fari til 3. umr. án þess að n. gefi út álit, með það fyrir augum, að n. taki við því aftur og að henni gefist tími til að gefa út um það álit fyrir 3. umr., en þá verða væntanlega komnar umsagnir frá þeim aðilum, sem ég nefndi.