07.05.1947
Efri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

192. mál, fyrningarsjóður ríkisins

Frsm. (Pétur Magnússon) :

Hv. þm. hafa veitt því athygli, að útbýtt hefur verið brtt. við þetta frv. frá fjhn. í þremur liðum. Tvo liðina þarf ekki að ræða, þeir eru aðeins leiðrétting, önnur á prentvillu, hin á málfari. Um fyrsta liðinn vil ég aðeins upplýsa það, að eftir fund í gær átti ég samtal við ríkisbókara, og hann skýrði mér frá, að hugsun þeirra, sem frv. sömdu, hefði verið sú, að jarðeignir og hús á þeim féllu ekki undir ákvæði frv. Ég átti í morgun tal við aðra þá, er unnu að samningu frv., og töldu þeir svo miklum vandkvæðum bundið að afskrifa húseignir á þjóð- og kirkjujörðum eftir reglum frv., að ekki væri fært að gera það. Þeir létu þá skoðun í ljós, að ef þingið teldi, að afskriftarreglur ættu einnig að ná yfir hús- og jarðeignir ríkisins, þá væri eini kosturinn að ákveða einhverja fasta afskrift á heildarfasteignamat jarðanna sjálfra að meðtöldum húsum og það þá vitanlega sett lægra en þar, sem afskriftin nær aðeins til húseigna. Eftir að n. fékk þessar upplýsingar, varð hún sammála um, að réttast væri að svo stöddu að draga jarðeignirnar út úr. Ef síðar þætti rétt að bæta því við, þá yrði að athuga, með hvaða hundraðshluta af fasteignamati skyldi afskrifa. Hins vegar taldi n., eins og frv. er nú orðað, þá lægi næst að skilja það þannig, að afskriftirnar næðu eingöngu til húseigna á jörðum ríkissjóðs. En til þess að taka af allan vafa um þetta leggur n. til, að inn í 2. gr. verði bætt orðunum „aðrar en jarðeignir“, til þess að það komi skýrt fram, að það er ekki ætlazt til, að afskriftin nái til jarðeigna. Ég held, að eins og komið er a. m. k., sé skynsamlegast að afgreiða frv. á þennan hátt, en eins og ég segi, er auðvelt að bæta við ákvæðum um jarðirnar, ef ástæða þykir til.