07.02.1947
Neðri deild: 68. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (3372)

159. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það stendur eins á um þetta mál og það, sem var hér til umr. næst á undan (frv. til framfærslulaga). Heilbr.- og félmn. flytur það eftir beiðni hæstv. félmrh., og er það samið að tilhlutun hans af sérstakri n. Málið hefur ekki enn verið tekið til athugunar í n., og mun ég því að þessu sinni fylgja því úr hlaði með örfáum orðum. Frv. þetta er samið af sömu n. og frv. til framfærslulaga. Það er að langmestu leyti bein afleiðing af þeim breyt., sem gerðar voru á alþýðutryggingal. við setningu löggjafarinnar um almannatryggingar. Aðalviðfangsefnið við setningu þessa frv. var það, hvernig mætti tryggja meðlög til þeirra mörgu barna, sem hér hafa fæðzt, meðan erlendur her dvaldi í landinu, og erlendir menn hafa verið lýstir feður að. N. tók því inn í frv. nokkur ákvæði, sem beinlínis eru sniðin með þetta fyrir augum. Frv. gerir ráð fyrir, að í slíkum tilfellum skuli málið vera rannsakað með sama hætti og ef varnaraðili væri látinn eða farinn af landi burt og skuli valdsmanni heimilt að leyfa barnsmóður að staðfesta framburð með eiði, ef fram hafa komið þær líkur fyrir faðerninu, sem hann telur nægilegar. Þegar slíkur eiður hefur verið unninn, er valdsmanni skylt að úrskurða móður barnsins meðlag og kostnað á hendur Tryggingastofnun ríkisins. Þessa vildi ég láta getið við þessa umr. Annars vildi ég óska þess fyrir hönd hv. n., að þessu máli verði vísað til 2. umr. og n. gefi fyrirheit um að taka það til athugunar milli umr. Mun hún þá við 2. umr. flytja brtt.. ef hún æskir þess.