10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég þarf að mæla nokkur orð til að svara ræðum tveggja hæstv. ráðh., fjmrh. og menntmrh. Í raun og veru má segja, að hæstv. fjmrh. hafi tekið af mér mikið ómak í deilum við hann út af þessu frv., er hér liggur fyrir. þar sem hann lýsir því sjálfur þannig, að þetta væri bráðabirgðaúrræði, vandræðaúrræði og örþrifaráð. Ég ætla, að hæstv. fjmrh. hafi þarna lýst þeirri hringavitleysu, sem hér er um að ræða, á tæmandi hátt, svo að litlu þarf við að bæta. Með eigin orðum kallaði hann þetta bráðabirgðaúrræði, vandræðaúrræði og örþrifaráð. Ég skal nú víkja beint að ræðu hæstv. ráðh.

Hann hóf mál sitt á því að víkja að mér með nokkrum orðum persónulega á þá lund, að ég væri þekktur að illu innræti, klámhöggum, að því að ganga með rýtinginn í erminni og öðru slíku. Nú mun ég ekki leggja mig niður við að deila við hæstv. ráðh. um mitt innræti eða hans. Hans innræti er ekki til umr. hér. Aftur á móti eru hér til umr. verk hans, skoðanir og till. Og það er ekki einasta réttur minn, heldur skylda sem þm. að gagnrýna þau verk, er hann fremur og þær till., sem hann flytur, og þær skoðanir, er hann túlkar. Tilefni þess, að hæstv. ráðh. færðist svo mjög úr jafnvægi, er hann hóf ræðu sina, var það, að ég hafði lýst því í ræðu, að hent hefði ákveðið fyrirtæki hér í bæ að vera staðið að því að brjóta gjaldeyrisl. S. Árnason og Co. er sem sé að því staðið að hafa farið fram á það við viðskiptavini sína erlendis, að þeir legðu umboðsþóknun, er firmað fékk, inn á reikning firmans erlendis. En allir vita, að það er brot á gjaldeyrisl. Slíkt er að draga sér gjaldeyri gegn lögum. slíkt er auðgunartilraun, sem varðar við l. Það var af gefnu tilefni frá hæstv. ráðh., að á þetta var minnzt. Nú kemur að því, sem vert er að veita mikla athygli. Hvernig svaraði hæstv. ráðh. þessu? Hann svaraði orðrétt svona: „Það er ekki nýlunda, að verzlanir leggi umboðslaun, sem þær fá, á sérstakan reikning erlendis. Þetta hefur verið liðið, þegar réttir menn hafa átt í hlut.“ Og svo bætir hann við: „Ég ber því létta byrði út af þessu máli. Það, sem framið hefur verið, brýtur hvorki í bága við l. né velsæmi erlendis.“ Hæstv. fjmrh. verður að virða mér það til vorkunnar, þótt ég telji það til fádæma, að maður í hans stöðu skuli standa upp og lýsa yfir hér, að ekkert sé að athuga við brot á landsl., og það í þeim tilgangi að auðgast persónulega, og lýsa rólega yfir því, að þetta hafi viðgengizt og hafi verið liðið, þegar réttir aðilar hafi átt í hlut og ekkert sé við þetta að athuga, vegna þess að þetta brjóti ekki í bága við l. annarra ríkja. Hér er ég að lýsa verknaði, skoðunum og till. hæstv. ráðh. Skoðanir hans eru þær, að ekkert sé við það að athuga, þótt heil stétt manna sé sumpart að því staðin og sumpart um hana vitað, að hún brjóti landsl. til persónulegs framdráttar. Og hæstv. ráðh. segir meira að segja, að þetta sé liðið, ef réttir menn eigi í hlut. Nú hefur hæstv. ráðh. verið spurður að því af öðrum hv. þm. en mér, hverjir þessir réttu aðilar séu og hverjir það séu, sem á þennan hátt líði lögbrot. Svar hæstv. ráðh. við þessum spurningum var ekki sérstaklega skorinort. Það var eitthvað á þá leið, að það væri almenn skoðun. að Viðskiptaráð hefði nokkuð breytilegar aðferðir gegn innflytjendum eftir því, hverjir í hlut ættu. Og ráðh. bætti því við, að það væri nokkuð almennt álitið, að Viðskiptaráð mismunaði mönnum á ýmsan hátt. Og hann tók sérstaklega fram, að hans eigið firma, S. Árnason & Co., væri ekki innundir hjá þessu ráði. Ég geri ráð fyrir því, að Viðskiptaráð muni á einhverjum vettvangi svara fyrir sig, og ég geri ráð fyrir, að það sé óvenjulegt fyrir opinbera stofnun eins og Viðskiptaráð að mega búast við því, að sá ráðh., sem það þjónar undir, standi upp á Alþ. og fari með dylgjur án rökstuðnings um starf þessarar stofnunar. (Fjmrh.: Stofnunin heyrir ekki undir fjmrh.) Ég bið hæstv. ráðh. afsökunar. Það mun rétt vera, að Viðskiptaráð heyri ekki undir hann. En það ber þá víst að skilja það svo. að þess vegna sé honum leyfilegt að fara með þessar getsakir. Sérhver ríkisstofnun, sem heyrir undir aðra ráðh., má þá sennilega eiga þess von frá hæstv. ráðh., að hann drótti því að henni, að hún líði, að landsl. séu brotin og mismuni mönnum eftir því, hver í hlut eigi. Mér er spurn: Hvar stöndum við, þegar við heyrum því mælt bót úr ráðherrastól, þegar landsl. eru brotin? Ég skal ekki tala um innræti hæstv. ráðh. Hann um sitt innræti og um sina skoðun á mínu innræti. Ég lýsi aðeins skoðunum hans og sumpart verkum. En það verð ég að segja, að væri persónulega á hann ráðizt, þá væri hann af engum barinn nema af sínum eigin verkum og skoðunum.

Þá gat hæstv. fjmrh. þess, að sér fyndist það löðurmannlegt að hlaupa upp hér á Alþ. og ræða um mál fyrirtækis, sem að vísu hefði verið kært, en ekki enn fengið dóm. Ég vil geta þess, að hér liggur fyrir meira en dómur, hér liggur fyrir játning frá hæstv. ráðh. Hann hefur ekki aðeins játað, að þessu fé hafi verið skotið undan, eins og kært hefur verið, heldur sé vitað um sama verknað hjá öðrum fyrirtækjum í landinu. Þetta er meira en lítill dómur. Og ég verð að segja, að þegar við ræðum verzlunarmál á Alþ. og skattamál, hvernig má það þá vera, að slíkar reginmisfellur séu ekki ræddar? Misfellur eins og þær, að gjaldeyrisl. séu fótum troðin og einstaklingar fái til þess aðstoð að safna erlendum gjaldeyri svo að milljónatugum skipti.

Ráðh. talaði um svartan markað og kvaðst ekki skilja það, að ef svarti markaðurinn væri ljótur verknaður, þá væri það eðlilegt, að ríkið færi inn á þá braut. Ekki veit ég, hvað svona tal á að þýða hjá vitibornum manni og það hæstv. ráðh. Hver hefur talað um, að ríkið færi inn á þá braut? (Fjmrh.: Flokksmaður hv. þm. talaði um það í ræðu). Mætti ég heyra, hvaða ummæli það voru. Ég skal bíða á meðan. (Fjmrh.: Ég endurtek það, að hv. 2. þm. Reykv. sagði skýrum orðum, að það væri rétt, að ríkið sæti að þessum svarta markaði. — Forseti: Þess er óskað, að samtal fari ekki fram). Það er ekki um það að ræða, að ríkið eigi að fara inn á þennan svarta markað. En hitt er það, sem um er að ræða, að ríkið á að taka verzlunina í sínar hendur og útiloka svarta markaðinn á þeim sviðum, sem hann fer fram.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um, að ekki væri allt svo tandurhreint í kringum mig eða annars staðar, sem ég kæmi nálægt, og mætti sjá það á því, hversu almennur ótti væri við seðlainnköllun. Það má vel vera, að almennur ótti sé við slíkt. Og það má hver sem er bera þann ótta í brjósti mín vegna, í hvaða flokki sem hann er. Þeir, sem hafa svikið skatt, mega gjarnan vera staðnir að því. En þetta afsakar ekkert þá, sem staðnir eru að því að hafa farið með fé út úr landinu. Ég er ekki að halda fram hreinleika neins sérstaks flokks eða fullyrða, að vissir flokkar manna séu sérstaklega syndugir. Ég vil aðeins segja það, að hver sá, sem hefur framið ólöglegt athæfi, á að fá refsingu, en ekki ráðherrastól, eins og hæstv. fjmrh. fékk. Hæstv. ráðh. vék að því, að vel mætti vera, að of margt fólk væri komið í verzlunina. En hann spurði: „Hvað á að gera við því? Hér er atvinnufrelsi. Við getum ekki fordæmt þessa stétt, þótt hún sé of fjölmenn.“ Það er misskilningur, ef menn álíta, að við sósíalistar séum að fordæma fólk, sem vinnur að verzlun. Hitt tók ég skýrt fram í minni fyrstu ræðu, að ég teldi þjóðinni ekki gagn að því, að fleiri menn önnuðust vörudreifingu, en frekast væri unnt að komast af með. Ég tók það fram, að þessir menn ættu að njóta góðra kjara eins og aðrir, en það ætti að koma í veg fyrir, að of mikill fjöldi safnaðist í þessa stétt. Og svo er það nú athafna- og verzlunarfrelsið. Hv. 2. þm. Reykv. hefur gert því allgóð skil. En ég veit ekki betur, en í raun og veru sé allur innflutningur og gjaldeyrir í höndum fámenns hóps, Innflytjendasambandsins annars vegar og S.Í.S. hins vegar. Og sannleikurinn er sá, að ekki er um að ræða atvinnufrelsi í þessari atvinnugrein. Svo vil ég benda á, að hæstv. ráðh. hefur verið með í að flytja í Alþ. frv. til l., þar sem gert er ráð fyrir því, að það þurfi sérstakt leyfi til þess að fara inn í nýja atvinnugrein. En jafnhliða þessu öllu segir svo hæstv. ráðh., að hér sé atvinnufrelsi og ekkert sé við því að segja, þótt of margt fólk hrúgist inn í verzlunarstéttina. Þetta er allt í góðu samræmi, eða hitt þó heldur.

Þá er það atriði í ræðu hæstv. ráðh., að þegar báðir aðilar fórni, þá fórni hvorugur neinu. Það er búið að gera skil þessu fórnarmáli ráðh. Það á sem sé að hækka tolla á vörum, sem allur almenningur notar. En það hefur verið spurt, og ég spyr enn: Hverju hefur eigna- og gróðastéttin fórnað? Hún hefur engu fórnað. Það er eins og ég hef sagt áður, að stj. ver hagsmuni ákveðinnar stéttar, auðstéttarinnar í þjóðfélaginu. Og stefna hennar er að láta þá, sem minnstan auðinn eiga, fórna.

Ég kem svo að mjög mikilsverðu atriði í ræðu ráðh. Hæstv. ráðh. sagði fullum fetum í sinni fyrstu ræðu, að hann teldi það eitt mesta óhappaverk í íslenzkum stjórnmálum, að gerðardómsl. frá 1942 hefðu verið felld með skæruhernaði. Þegar ég las ummæli gerðardómsl., sem kveða skýrt á um það, að dóminum beri að fylgja þeirri reglu, að kaupgjald haldist óbreytt frá því, sem það var 1941, en þá væri það kr. 1,45 hjá Dagsbrúnarverkamanni í stað kr. 2,65,— þegar ég var búinn að gera ráðh. það ljóst, að þessu var hann að halda fram, sem sagt því, að stærsta óhappaverkið væri, að launastéttirnar hefðu fengið launahækkun, þá fór hæstv. ráðh. að tala um gerðardóm á þá lund, að vinnudeilur ætti að leysa með gerð, en ekki skæruhernaði. Og hann bætti því við, að ef gerðin væri leiðarljós þjóðarinnar, þá væri betur. En með þessu er ráðh. kominn inn á allt annað, sem sé þá almennu reglu, að það ætti að útkljá deilur vinnuveitenda og verkamanna með gerðardómi, en er um leið fallin frá því, er hann sagði, að hefði verið ónýtt með miklu óhappaverki, gerðardómnum frá 1942, er tók samningsréttinn af verkalýðsfélögunum og bannaði allar kauphækkanir. En hvers vegna í ósköpunum er verið að kalla á þessa gerð nú? Hvar er nú hinn mikli boðberi frjálsræðisins, athafnafrelsisins o.s.frv.? Er hann ekki ásáttur um, að vinnuveitendur og verkamenn semji um sin eigin mál án gerðar? Nei, hann er ekki ásáttur um það. Hann vill gerð, en vill hins vegar klóra yfir fyrri ummæli sin með því að tala um gerð almennt. Hæstv. ráðh. vill nú ekki vera staðinn að því að hafa sagt, að hið mikla óhappaverk hafi verið að fella gerðardómsl. frá 1942.

Ég æski svo ekki að eyða fleiri orðum við þennan hæstv. ráðh. Ég hef rætt um verk hans, skoðanir og till., og ég mun tala um þau framvegis, hvað svo sem hann álitur um innræti mitt.

Ég þarf að koma nokkrum orðum til hæstv. menntmrh. Hæstv. ráðh. hóf um það alllöng ræðuhöld, hvernig afstaða mín hefði verið til fyrrv. ríkisstj. og hvað það væri, sem hún hefði gert og látið ógert. Það er nú svo, að tveir hv. þm. hafa svarað þessari ræðu hæstv. ráðh. En þó eru í henni nokkur atriði. sem ég vil drepa á. Hann talaði um það, að Sósfl. hefði ekki komið fram þeirri stefnu í samvinnu sinni um fyrrv. ríkisstj. að leggja byrðarnar á þá auðugu eða skattleggja eyðsluna. Þetta er rétt. Þeirri stefnu kom Sósfl. ekki fram í því samstarfi. Og ég skal aldrei draga dul á það, að hann kom því ekki fram, illu heilli. En hitt er rétt, að í samstarfinu um þá ríkisstj. var hægt að koma fram svo stórfelldum framkvæmdamálum, að engin dæmi eru til slíks áður á Íslandi. En svo var það, að þeir tímar komu, að augljóst var, að það þurfti að því að snúa að taka spón úr aski þeirra efnuðu. Þá kom til verulegra árekstra milli þeirra flokka, sem að stj. stóðu. Og það var ljóst af hálfu Sósfl., að hann gat ekki staðið að neinni stj. nema tryggt væri framhald nýsköpunarinnar. Og það var ljóst, að það framhald var ekki tryggt, nema tekin væru föstum tökum verzlunarmálin í heild, skattamálin og ýmis fleiri mál, sem hæstv. menntmrh. drap hér á. En það kom bara í ljós, að Sjálfstfl. var ekki á flæðiskeri staddur. Þegar það var ljóst, að samstarfið við okkur gat ekki haldið áfram nema inn á þessa braut væri farið, þá stóð hæstv. menntmrh. (EystJ) með faðminn útbreiddan og bauð þessum mönnum að koma til sin. Hann væri fús til að velta þessari byrði á herðar alþýðumannanna og gerði engar kröfur á móti.

Þá drap hæstv. menntmrh. (EystJ) á það, að það væri of seint að iðrast eftir dauðann. Það væri of seint að fara að tala um það núna að skattleggja eyðsluna. Það er mesti misskilningur. Hér hefur enginn dauði farið fram. Ég veit ekki, hvernig það er með hæstv. menntmrh. (EystJ), hvort hann hefur dáið pólitískum og andlegum dauða, en hitt er ljóst, að á þessu hausti og þessum vetri hefur alltaf verið tækifæri til þess að taka verzlunarmálin þeim tökum, sem þarf, og höfum við sósíalistar alltaf verið tilbúnir til þess að skattleggja þá eyðslu og einnig þá eyðslu, sem nú er mest af í óþarflega stórum einkaíbúðum, bílum og þess háttar, og endurtek ég það, að ekki skal standa á mér og mínum flokki í fjármálapólitík, sem færi í þessa átt, ef hæstv. menntmrh. er eins reiðubúinn og ætla mætti af ræðu hans.

Hv. 3. þm. Reykv. ætla ég ekki að svara. Mér fannst ekki ræða hans gefa tilefni til þess. Hann segir, að það sé gaman að tala við sig. Það er nú svo. Ræða hans er of ómerkileg til þess, að hægt sé að tala við hann.

En aftur kvaddi sér hljóðs hæstv. menntmrh. (EystJ) og fór að tala um veltuskatt. Hann vísaði í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl) og sagði, að skatturinn hefði komið hart niður á öllum almenningi. Einmitt þetta tók hv. 2. þm. Reykv. (EOl) fram. Það var alveg ljóst, að veltuskatturinn fór beint á herðar almennings að svo miklu leyti, sem hann var lagður á atvinnufyrirtækin. Þetta hefur ætið verið mín skoðun og ég hef aldrei dregið dul á hana. En hitt er víst, að verulegur hluti af skattinum fór á bak heildsalastéttarinnar, og henni átti ekki að vera auðvelt að velta honum af sér. Auðvitað var það hægt með lögbrotum, og kæmi mér ekki á óvart, þótt það hefði verið gert þannig, eftir því sem hæstv. menntmrh. (EystJ) segir, að sú stétt stundi lögbrot.

Nú hefur hæstv. menntmrh. (EystJ) talað um, að auðvelt væri að slá um sig með l. eins og þeim að leggja 15% á nýbyggingarreikning. Sósfl. taldi þessi l. nauðsynleg og hann lýsti yfir því, að hann væri reiðubúinn að taka upp skömmtun og draga úr eyðslunni. en þetta fékkst ekki framkvæmt, vegna þess að Sjálfstfl. stóð á móti því. Hann vildi ekki skammta gjaldeyrinn, sem heildsalastéttin fengi til að leika sér með, og sama sinnis eru þessir menn enn í dag. Það má kannske virða hæstv. menntmrh. (EystJ) það til vorkunnar, að hann situr við hlið þessara manna og verður að horfa upp á gagnleg l. verða að pappírsgagni. En hvers vegna situr hann þar? Það er ekki af því, að hann eigi ekki kost á að reka aðra pólitík, heldur af því, að honum líkar það, að nýtileg l. verði að pappírsgögnum og heildsalarnir fái að fara með allt eins og þeir vilja.

Ég skal svo ekki reyna meira á þolinmæði hæstv. forseta og læt máli mínu lokið.