23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (3569)

253. mál, embættisbústaðir dómara

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar við hér í vetur höfðum til meðferðar frv. til l. um hýsingu prestssetra, þá margbenti ég á það, að nauðsynlegt væri að gera eina allsherjar löggjöf um byggingu íbúðarhúsa opinberra starfsmanna og samræma þetta, svo að ekki verði þar hver höndin upp á móti annarri og sífelldur metingur um það og óánægja út af því, að þessi aðilinn hafi það betra en hinn, en þá vildi enginn á þetta hlusta. Frv. um hýsingu prestssetra var sett í gegnum þingið og er víst orðið að l. — og eftir því sem mér finnst, að mörgu leyti slæmum og fjarstæðum því rétta.

Nú kemur hér annað frv., sem er alveg ný skipun, um bústaði fyrir héraðsdómara, hvar sem þeir — eru á landinu. Og þeim er ætlað að búa við allt önnur kjör en prestunum. Þar eru engar reglur um það, eins og gagnvart prestunum t. d., þegar húsin verða mjög dýr, og ekkert minnzt á viðhald þeirra í því sambandi, heldur á ráðh. að setja slíkar reglur. Það má ekki fara þarna eftir venjulegum l. og reglum, sem gilda í landinu. Ég vona, að menn sjái, hvað getur komið næst á eftir. Líklega skólastjórar, og þeir eru líka komnir sumir hverjir inn í skólahúsin og það án þess, að nokkrar reglur séu þar um. Svo rekur hver stéttin aðra því þá ekki að setja eina allsherjar löggjöf um þetta. Ég býst við, að þetta frv. og l. um hýsingu prestssetra sýni mönnum, hvað þetta er vanhugsað að taka svona hverja stétt út af fyrir sig og gera l. um það. Og menn eiga áreiðanlega eftir að sjá það betur, hve kostnaðarhliðin verður miklum mun meiri fyrir ríkissjóð.

Ég mun greiða atkv. á móti þessu frv., eins og frv. um hýsing prestssetra í vetur. Þessir menn eiga í mínum augum að búa við sömu kjör allir. Þarna á ekki að skapa hverri stétt fyrir sig slík kjör og reglur sem ekkert samræmi er í, svo að menn séu alltaf að rífast um það, að þessi eða hinn hafi það betra en þeir sjálfir, eins og oft vill koma fyrir.