10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það er sennilega ekki gustuk að þjarma meir að hæstv. fjmrh., eftir það, sem að honum hefur verið saumað í dag. En það má hann eiga, að eftir því sem meir hefur að honum þrengt, því auðmýkri og kurteisari hefur hann orðið. En hann er ekki enn búinn að átta sig á því, að hann sé á lítt sæmandi hátt orðinn ráðh., þar sem hann hefur orðið að viðurkenna þá staðreynd, að fyrirtæki, sem hann á að verulegu leyti, hefur brotið landslögin rétt áður en hann sté upp í ráðherrastólinn, og þannig hefur hann í raun og veru sem sekur maður við landslög stigið í sinn ráðherrastól. Hæstv. fjmrh. hefur enn ekki lært að skammast sín fyrir þetta. En ég veit, að þjóðin mun læra að skammast sín fyrir tilkomu hans í ráðherrastólinn.