11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Frsm. meiri hl. (Hallgrímur Benediktsson):

Herra forseti. Í því, sem ég segi hér um frv., sem fyrir liggur, get ég ekki látið hjá líða að víkja með örfáum orðum að ræðu hv. þm. V-Húnv. Honum taldist svo til, að heildsalastéttin hefði haft óþarflega mikinn gróða á þessum undanförnu árum. Þegar ég hef minnzt hér á verzlunarstéttina, þá hef ég ekki gert mikinn greinarmun á innflytjendum í því sambandi. En hinn allra stærsti heildsali landsins er Samband íslenzkra samvinnufélaga. Ég vildi aðeins á þessu stigi benda hv. þm. á það, sem hann talaði um mjög skýrlega viðkomandi tollal. og að nauðsyn bæri til að endurskoða fyrirkomulagið um það jafnvægi, sem þyrfti að vera viðkomandi athafnafrelsi manna í þessu landi, til frjálsræðis og réttlætis fyrir neytendur í landinu. En á öllu þessu tímabili. sem hv. þm. talaði um, hygg ég, að kaupfélög hafi haft mjög álíka verð í innkaupi og heildsalar. Og ég get tekið það fram, að ég álit, að heildsalar eigi alls ekki rétt á því að hafa neina tilveru, ef þeir eru ekki samkeppnisfærir um vöruverð í sínu framboði á vörum. En ég vil hins vegar benda á, að þrátt fyrir aukna skatta, þá er það þó svo nú, að samvinnufélögin njóta alveg sérstakra hlunninda fram yfir það, sem slík félög njóta í nágrannalöndunum. Ég vil því vona, að þeir sömu hagfræðingar og fróðu menn sem hv. þm. vildi láta gera sínar athuganir, taki þessa hlið jafnhliða upp, því að við erum víst sammála um það, hv. þm. V-Húnv. og ég, að það þurfi að rækja sem bezt þessa þjónustu fyrir alla neytendur í landinu.

Ég vil vona, að samvinna þessara greina innan innflutningsverzlunarstéttarinnar megi í framtíðinni verða byggð á sem mestum skilningi og réttlæti. Vona ég, að hinir sömu hagfræðingar, sem athuga kynnu það, sem hv. þm. V-Húnv. vill vera láta, athugi einnig að gera í sambandi við skattfríðindi samanburð á þessum tvennum innflytjendum, kaupfélögum og heildsölum.

Þá vildi ég aðeins, herra forseti, mega lýsa brtt. við 6. gr. frv. frá meiri hl. fjhn. Hún er svo hljóðandi. með leyfi hæstv. forseta: „Við 6. gr. Greinin orðist svo: Ekki er heimilt að hækka álagningu verzlana á vörur vegna tollhækkana samkvæmt lögum þessum, og er verðlagseftirlitinu skylt að sjá um, að svo verði ekki gert, annaðhvort með því að banna álagningu á tollhækkunina eða með því að breyta verðlagsákvæðum þannig, að álagningin hækki ekki í krónutölu vegna tollhækkunarinnar frá því, sem er við gildistöku laga þessara.“ — Ég vildi fyrir hönd meiri hl. fjhn. mega afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt.