04.12.1946
Neðri deild: 32. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (3765)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég hafði því miður ekki veitt því eftirtekt, að þetta mál var á dagskrá nú í dag, og svo tafðist ég æðistund, þegar ég var á leiðinni á fundinn, svo að ég náði aðeins að hlusta á nokkurn hluta ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Ég get vel skilið það, að það komi heldur illa við hv. 2. þm. Rang. og aðra þá, sem telja sig fulltrúa bændastéttarinnar, að þetta mál skuli nú enn bera á góma hér á Alþ. Ég sé enga ástæðu til að vísa þessu máli frá með dagskrá, enda þótt deilumál sé, og mér er ekki ljóst, að mál þau, sem verið hafa til umr. hér í d. í vetur, hafi verið það mörg og merk, að fyrir því megi ekki eyða tíma til að ræða mál eins og þetta, enda þótt nokkur skoðanamunur sé um það; og skein það mjög augljóslega út úr allri ræðu hv. 2. þm. Rang.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. Borgf., sem mælti fyrir frv. í minn stað, hafi að einhverju leyti rifjað það upp fyrir hv. d., hvernig mál þetta er til komið í fyrstu. Eins og hv. alþm. mun kunnugt, var það búnaðarþing, sem undirbjó málið, búnaðarþing, sem hv. 2. þm. Rang. (IngJ) talaði með mikilli lítilsvirðingu um sem einhverja samkundu í Reykjavík, og það svo, að ég hefði ekki búizt við að heyra slík ummæli frá manni, sem telur sig fulltrúa bændastéttar landsins. Það er hins vegar vitað, að þetta mál um stofnun búnaðarmálasjóðs hefur verið betur undirbúið heldur en flest mál, sem fyrir hv. Alþ. hafa komið. Það var mþn., kosin af búnaðarþingi, sem lagði frumdrögin að frv., og svo vel var frá þessu gengið, að það var sent til umsagnar allra búnaðarsambanda landsins, sem öll án undantekningar mæltu með, að löggjöf yrði sett á þann veg, sem upphaflega frv. var. Þar með var greinilega mörkuð sú braut, hvernig verja ætti fé úr búnaðarmálasjóði. Samkv. frv. skyldi verja því á þann hátt, að það ætti að nota það að nokkru leyti til þess að undirbúa þá hreyfingu, sem þá var að skapast um stéttarsamband bænda, þannig að sú stofnun, þegar búið væri að undirbúa hana, yrði ekki févana, þegar hún tæki til starfa, en öðrum þræði skyldi féð renna til Búnaðarfélags Íslands, til þess að unnt væri að koma upp nauðsynlegum aðseturstað fyrir félagið hér í Reykjavík. Öll búnaðarsambönd landsins féllust á þessa hugmynd og sömuleiðis, hvernig fénu skyldi varið. Ég minnist þess, hve einn af fulltrúum Búnaðarsambands Suðurlands. Páll á Ásólfsstöðum, sagði mér frá því af mikilli hrifningu, hversu auðvelt hefði verið að fá alla fulltrúa Búnaðarsambands Suðurlands til þess að samþ. að leggja þennan skatt á framleiðsluvöru bænda í þessu augnamiði, eins og frv. gerði ráð fyrir. Þannig stóð Búnaðarsamband Suðurlands einhuga um það — eins og öll hin búnaðarsambönd landsins — hvernig verja ætti þessu fé, og var það lagt í hendur búnaðarþings að ráðstafa því á þann hátt, sem ákveðið var í frv. til 1. um stofnun búnaðarmálasjóðs. En svo þegar málið kemur til hv. Alþ. með þessum undirbúningi, og þar sem aðeins er farið fram á það við hv. Alþ., að það hlutist til um með löggjöf að innheimta þetta gjald með löglegum og eðlilegum hætti, þá er hér á síðasta stigi málsins sett inn í frv. ákvæði um það, að landbrh. verði að samþ., hvernig fé þessu skuli varið. Þetta gátu bændur vitanlega ekki sætt sig við, þar sem hér var um þeirra eigið fé að ræða, fé, sem tekið var af þeirra eigin framleiðsluvöru og sem nota átti eingöngu til félagsstarfsemi þeirra sjálfra. Síðasti leikurinn í þessu máli og það, sem skeði, þegar núverandi 1. um búnaðarmálasjóð voru sett, er, þegar breytt er algerlega frá þeirri stefnu, sem búnaðarþing og búnaðarsamböndin höfðu ákveðið um það, hvernig fénu skyldi fyrir komið, og það tekið frá Búnaðarfélagi Íslands, úr umsjá búnaðarþings, og í stað þess er ákveðið, að féð skuli renna til búnaðarsambandanna í nákvæmlega sama hlutfalli eins og það hefði runnið í búnaðarmálasjóð frá búnaðarsamböndunum áður. Þetta er náttúrlega sú fáránlegasta aðferð, sem hægt er að hugsa sér í þessu skyni. Til hvers er verið að sópa þessu fé saman úr öllum búnaðarsamböndunum, ef síðan á að telja það nákvæmlega í sama hlutfalli aftur til búnaðarsambandanna? En það, sem hér gerðist, var vitanlega það eitt, sem hv. þm. Rang. mun mjög vel vita, að með því að taka þetta fé þannig frá Búnaðarfélagi Íslands og frá Stéttarsambandi bænda, þá átti að kyrkja þessi félagssamtök fjárhagslega. Það gat ekki annar tilgangur verið með þessu en einn. Það vita allir, sem þekkja til um félagsstarfsemi bænda, að brýn nauðsyn er á, að fé til búnaðarsambandanna verði aukið frá því, sem nú er, og að þau fái meiri fjárráð á einn eða annan hátt, og þetta er tilgangur okkar flm. með þessu frv., sem við flytjum hér nú, en það er ekki hægt á þann hátt, sem hér hefur verið gert. Félagssamtök bænda höfðu komið sér saman um, hvernig með þetta mál skyldi farið, en hv. Alþ. hefur leyft sér að ómerkja þessi stéttarsamtök bænda með því að synja þeim um að ráðstafa sínu eigin fé eins og þau álitu réttast vera. Þetta atriði gerir það að verkum, að aldrei verður hljótt um þetta mál, fyrr en hv. Alþ. hefur leiðrétt það, sem það hefur gert í málinu áður. Þar sem nú situr nýkosið Alþ., sem að nokkru leyti er skipað öðrum fulltrúum heldur en voru hér, þegar 1. þau, sem hér um ræðir, voru sett í fyrra, þá töldu flm. þessa frv. sjálfsagt að leita eftir því, hvort nú væri ekki annar vilji ríkjandi hér á hv. Alþ. heldur en þá var um meðferð þessa máls. Ég tel, að um afgreiðslu málsins í fyrra hafi miklu meira ráðið ofstæki þeirra flokka, sem að þessu stóðu, heldur en róleg íhugun, og ég veit með vissu, að ýmsir þeirra, sem þá fylgdu málinu, voru í rauninni ekki ánægðir með afgreiðslu þess og fundu, að hér var verið að níðast á heilli stétt landsmanna, stétt, sem aðeins óskaði eftir aðstoð hv. Alþ., til þess að hægt yrði á löglegan hátt að innheimta þetta gjald af framleiðsluvöru sinni, sem var þannig fé, sem aðeins var tekið af bændum sjálfum. — Hv. 2. þm. Rang. talaði um það hér áðan, að auðvelt væri að útvega stéttarsambandi bænda fé með frjálsum framlögum bænda, en ekki þyrfti að sækja framlög í búnaðarmálasjóð, eins og upphaflega frv. gerði ráð fyrir. Þessi gjöld eru hliðstæð víð það, þegar verkamenn greiða gjöld til sinna stéttarsamtaka, en hér er aðeins farin önnur leið, sem ég tel miklu réttmætari, því að hitt er nefskattur. Við skulum segja, að ef sú leið væri farin, þá greiddi hver bóndi 100 krónur til þessara samtaka á ári hverju, og væri þá lagt nákvæmlega jafnmikið á ríka bændur sem fátæka. En með þeirri tilhögun, sem hér er viðhöfð, er gjaldið tekið eftir framleiðslumagni hvers bónda, og tel ég réttmætast og eðlilegast, að sú leið sé farin, og í beztu samræmi við þessi mál. En ef gjaldið er lagt á í hlutfalli við framleiðslumagn hvers bónda er ekki hægt að innheimta það á annan hátt en eins og hér er gert ráð fyrir. Það kann vel að vera, að hv. 2. þm. Rang. hafi nægilegt fylgi hér í hv. d. nú, til þess að málinu verði vísað frá, og er þá sjálfsagt að beygja sig fyrir því, eins og hlýtur að verða. En ég vil aðeins segja það, að það er þá hans slæma samvizka um það, sem gerzt hefur áður í þessu máli, sem orsakar það, að hann er svo áfjáður í það nú, að það sæti hér ekki þinglegri meðferð, og ég skoða það sem ofbeldi af hv. d., ef það kemur fyrir, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, sem fá eða ekkert fordæmi á í þingsögunni um mál, sem hefur fengið slíkan undirbúning sem það, sem hér um ræðir.