04.12.1946
Neðri deild: 32. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (3768)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þá er hv. þm. Borgf. setztur í sæti sitt. Hann hefur nú talað alllengi, og kemur það sér vel, að ritstjóri Tímans skuli vera viðstaddur til þess að skrifa niður. Þótt hann þykist hér tala fyrir hönd bænda, þá get ég fullyrt, að hann talar hér ekki nema fyrir hönd lítils hluta þeirra, en hann hefur hér talað rækilega máli framsóknarmanna, enda ekki í fyrsta sinn, sem framsóknarmenn beita þessum hv. þm. fyrir sig. Hann talaði einnig máli framsóknarmanna á Selfossfundinum í fyrra, þegar hann kom austur með fríðri fylkingu með þá till. upp á vasann að fá samþ. vantraust á þá menn, er vildu hafa fyrirkomulag búnaðarmálasjóðs, sem nú er. En hvað varð um þessa fylkingu? Hún var hrakin úr einu víginu í annað, og þá var það, að þessi hv. þm. bjargaði framsóknarmönnum frá algerri smán, þótt þeir yrðu undir í málinu, því að ef hv. þm. Borgf. er vel upplagður, getur hann haldið býsna góðar ræður. En svo hart var hann leikinn eftir fundinn, að hann var þegjandi hás daginn eftir. (JPálm: Alveg mállaus. — PO: Hv. þm. A-Húnv. hefði víst oft óskað, að ég væri mállaus.) Svo hart var fylkingin leikin, að till. þeirra félaga voru aldrei bornar upp, og bændurnir á Selfossfundinum voru með búnaðarmálasjóðsl., eins og þau nú eru. Það getur satt verið, að heyrzt hafi háværar raddir um að breyta þessum 1., því að vitað er, að fáeinir bændur hafa aðrar skoðanir í þessu máli. En ég veit, að meginþorri vill hafa l. eins og þau eru nú, og þegar bændurnir hafa fengið að kynnast framkvæmd 1. og fengið féð í samböndin, þá ætla ég þá verða fáa eða enga, sem vilja breyta 1. Þó að hv. þm. Borgf. þykist helzt einn geta hér talað fyrir hönd bænda, að minnsta kosti sjálfstæðismanna, þá má hann vita, að svigurmæli og dylgjur að minnsta kosti eru ekki fyrir hönd bænda töluð. Slíkt dugir lítt við afgreiðslu mála. Hann talar um fíflslega till., ofstæki og þröngsýni og svo, að ég hafi þó líklega ekki átt upptökin að þessu. Ég hef heyrt svona málflutning hjá framsóknarmönnum, en ég hélt, að þessi gamli og reyndi sjálfstæðisþingmaður vissi, að það tíðkast ekki hjá sjálfstæðismönnum að láta menn gera hitt og þetta móti vilja þeirra. Þessi hv. þm. taldi óviðkunnanlegt að vísa máli frá við 1. umr., en þegar um er að ræða mál, sem þrautrætt hefur verið hér á þingi á þessu ári, sé ég ekki, að á umr. sé bætandi. Það væri vissulega óviðkunnanlegt að vísa nýju máli frá við 1. umr., en þetta mál hefur verið þrautrætt hér og leyst eins og bezt var og happasælast fyrir bændur. Þarf því ekki meira um það að ræða, og er því eina rétta leiðin að vísa því frá, þó að hætt sé við, að hv. þm. Borgf. skipti um ham og ærist. Hv. 1. þm. Skagf. var hógværari, en rök hafði hann ekki að mæla, þau er ég heyrði. Hann taldi eðlilegt, að ég vildi forðast umræður um málið. Ég veit ekki af hverju. Fyrri ræða mín gaf ekki tilefni til slíks álits. En ég tel það óviturlegt að þrátta dögum saman um mál, sem þegar er leyst, sérstaklega þar sem mörg önnur verkefni bíða úrlausnar. Má t. d. nefna, að fjárl. eru enn óafgreidd, þótt komið sé fram undir jól. Hv. 1. þm. Skagf. taldi þetta mál bezt undirbúið allra mála, og hefðu bændur verið því samþ. í þess upphaflegu mynd, en bændur voru aldrei spurðir um, hvort þeir vildu ekki heldur hafa það eins og það nú er, enda hafa bændur ekki verið á móti núverandi fyrirkomulagi. En þegar búnaðarþing ákvað að reisa hótel, risu bændurnir upp gegn því og vildu heldur leggja féð í jarðrækt en hótelbyggingu í Reykjavík. En er forsvarsmenn hótelbyggingarinnar urðu varir við vilja bænda, urðu þeir að sveigja af og ætluðu þá að verja aðeins helmingi fjárins í hótelið og síðan á undanhaldinu jafnvel aðeins ¼. Ofar jarðræktarframkvæmdum hafa búnaðarþing og stjórn Búnaðarfélags Íslands sett hótelbyggingu fyrir 100 gesti, en til þess að það megi takast, þarf allan búnaðarmálasjóðinn í mörg ár. Framsóknarmenn vilja nú fá hálfan búnaðarmálasjóðinn til handa Stéttarsambandi bænda, og þetta vilja þeir fá lögfest. Þeir treysta bændum ekki til að greiða árgjöld til félagsskaparins af fúsum vilja. Þetta er móðgun við bændastéttina af verstu tegund.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það væri að vega í sama knérunn, að búnaðarmálasjóðsgjaldið sé lagt á bændur og heimila félagsgjöld að auki. Ég veit ekki, hvað á að gera við fé búnaðarmálasjóðs, ef bændur eiga ekki að fá það aftur beint eða óbeint með því að ráðstafa fénu vel. Ég tel, að með breyt. hv. flm. yrði vegið í sama knérunn, því nái þær fram að ganga, er hagnaður bænda mjög vafasamur.

Ég er sannfærður um, að bændur vilja borga sín félagsgjöld af fúsum vilja, ef sambandið verður þeim til gagns. Þeir munu styðja bæði það samband og þá menn, sem fyrir því standa, ef þeir treysta þeim. Ég er sannfærður um, að það er óverðskulduð árás á bændur að vantreysta þeim til að byggja upp sín félagssambönd á frjálsum grundvelli. Flm. þessa frv. eru því beinir árásarmenn á bændur. Í fyrsta lagi vantreysta þeir þeim til að borga sín félagsgjöld, og er það hin ósvífnasta árás og lítilsvirðing í garð bænda, og þessir menn ættu að spara sér orð eins og þau, að ég o. fl. viljum níðast á bændum, eins og hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Borgf. sögðu. (PO: Það er réttmætt.) Nei, það eru rakaleysur, og þessi frammígrip hv. þm. sýna, að samvizkan er ekki góð. Ég þekki hann það vel og veit, að skapið er ekki gott, og karlmennskan brýzt svona fram, að hann þolir ekki að verða undir og kýs sér þá heldur þann auma kost að fylgja röngu máli.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að þm. reyndu að kyrkja samtök bænda í fæðingu með þeirri breyt., sem gerð var á búnaðarmálasjóðsl. Þetta segja þeir, sem vantreysta bændum til að greiða félagsgjöld í stéttarsambandið af frjálsum vilja, aðrir ekki. Við, sem stóðum að þeirri breyt., sem gerð var á frv., ætluðumst alls ekki til að kyrkja Stéttarsamband bænda í fæðingunni eða þvinga upp á bændur neinum skatti vegna þess. Við vissum, að það þyrfti ekki nein lög til að bændur borguðu sín félagsgjöld, þeir mundu gera það af frjálsum vilja, og við viljum ekki lítilsvirða þá með því að lögbjóða neitt þar um.

Ég verð að segja, að bændur hafa ekki enn þá þakkað þessum hv. þm. á verðskuldaðan hátt fyrir þá lítilsvirðingu, sem þeir hafa sýnt þeim með því að segja, að lögfesta verði þessi gjöld, ef þau eiga að nást.

Bændur eru á mun lægra þroskastigi en verkamenn að áliti þessara manna, því að ekki láta foringjar verkamanna sér detta í hug að fara fram á slíkt fyrir þeirra hönd.

Það er réttmætt að afgr. þetta mál nú strax við 1. umr., því þetta er aðeins til að vekja óþarfa deilur, og er af fylgismönnum þess reynt að hampa grýlu framan í þm. til þess að reyna að blekkja þá til fylgis við málið. Með fleiri en hv. þm. Borgf. er það svo, að þeir þola ekki að bíða ósigur og vilja heldur vinna það til að flytja rangt mál að nýju, ef tækist að blekkja þm. til fylgis við það. Ég sagði, að ræða hv. þm. Borgf. hefði verið fullyrðingar og rakaleysur, og ég held, að aðrir þm. séu mér sammála um það.

Ég þarf svo ekki að orðlengja þetta meira. Ég hef þegar svarað hv. 1. þm. Skagf. eftir þörf og get því farið að stytta mál mitt.

Ég býst við, að þeir hv. þm., sem töluðu áðan, muni standa upp aftur og vita, hvort ekki tekst betur. Ég sé, að hv. þm. Borgf. er kominn í sama skap og á Selfossi. Hann var þá aðalhjálparhella Framsóknar, og svo mun enn verða. Væri illt, ef hann missti málið eins og þá, ef umr. lengdust í marga daga.

Óþarfi er að endurtaka það, að dagskrártill. mín er eðlileg og ekki fíflsleg nema að áliti hv. þm. Borgf. og stuðningsmanna hans. Allir telja það eðlilegast að afgreiða málið nú þegar við 1. umr.