12.12.1946
Neðri deild: 36. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (3783)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það eru nú liðnir nokkrir dagar, síðan þetta frv. var hér síðast til umr. Ég kvaddi mér hljóðs aðallega út af einu atriði, sem sé því, að hv. þm. Borgf. kom með þau furðulegu ósannindi, að ég hefði sagt, að meiri hluti allra búnaðarsambanda landsins hafi verið með l., eins og þau voru í fyrra. Þetta hef ég aldrei sagt, svo að ummæli hv. þm. um þetta eru út í hött.

Varðandi ræðu hv. þm. Mýr. hef ég ekki miklu til að svara. Hv. þm. komst svo að orði, að fordæmi fyrir þessum l. fyndist hvergi nema í löndum nazista og kommúnista og öðrum einræðislöndum. (BÁ: Nazista og fasista sagði ég.) Jæja, nazista og fasista. Þetta eru furðuleg ummæli, og virðist hv. þm. hafa gleymzt, að bændur eiga sjálfir að skipta því fé, sem þeir fá til framkvæmda. Og sannleikurinn er sá, að málið er vinsælt meðal bænda. Fulltrúar Framsóknar ætluðu að reyna að slá sér upp á því í mínu kjördæmi í vor, en þeir gáfust upp við það, er þeir fundu hug bænda.

Búnaðarsamböndin hafa meiri þörf á fjárhagslegri aðstoð til þess að koma framförum í framkvæmd, og til þess þurfa búnaðarsamböndin að hafa fasta starfsmenn, enda er vaxandi vilji fyrir því innan búnaðarsambandanna, og því virðist ekki úr lagi að verja þessu fé til þess. Það gefst svo vonandi tækifæri til að ræða þessi mál nánar síðar í riti, en ekki hér á hinu háa Alþ.