25.02.1947
Efri deild: 80. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (3821)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki misnota athugasemdatíma minn. Hv. þm. Str. breiddi sig yfir íhaldssemi mína. Það hefur nú kannske ekki reynt á það, en ég held, að fræðslukerfið sé nú betra heldur en það, sem hann vill nú koma upp, og ég vil hugga hv. þm. með því, að ég mun láta sannfæringuna ráða í þessu efni sem öðrum, og vona ég, að enginn geti vænt mig um einræðiskennd né nazisma í þessum efnum né öðrum, og vona, að ég verði laus við slíkar aðdróttanir, er ég hverf út úr þjóðmálabaráttunni. Hv. þm. segir, að núverandi fyrirkomulag á iðnfræðslu sé steinrunnið afturhald og að slíkt þekkist ekki á Norðurlöndum. Þetta er talað af mikilli vanþekkingu. Okkar iðnlöggjöf er byggð á sams konar löggjöf á Norðurlöndum, og hef ég það að sönnu eftir formanni iðnaðarsambandsins. — Við hv. þm. N.Þ. vil ég segja örlítið. Hann varð undrandi yfir því, að ég skyldi fullyrða, að ef þessi skóli yrði byggður á einum stað á landinu, þá mundu fleiri héruð koma á eftir og heimta sams konar skóla. Það er staðreynd, sem reynslan hefur sýnt, að menn sætta sig ekki við að sækja skóla langar leiðir. En það er alrangt að blanda saman því að byggja skóla og fræðslunni sjálfri. Ég er á móti kákfræðslu, ég er á móti slíku. Þá vil ég svara hv. þm. varðandi kjör nemenda, sem hv. 3. landsk. þurfti nú endilega að brengla, en það er ákveðið í því dæmi, sem ég nefndi, að

1. árið fá nemendur 25% af launum sveins

2. — - — 30% - — —

3. — . — 40% - — —

4. — - — 45% - — —

Ég tortryggi ekki þessar tölur, þar sem það var einn merkur flokksbróðir minn, er lét mér þessar tölur í té. Aðrir iðnfulltrúar staðfesta þetta líka, og eru nemendum greiddar 300–450 krónur á viku, og er það sambærilegt í byggingariðnaðinum. Hv. þm. getur rengt þetta, en ég flyt hér mál trúverðugra manna. Í járniðnaðinum skal ég ekki fullyrða um reglurnar.

Þá fór hv. þm. út í þá sálma, að til vandræða horfði vegna fólksfækkunar í sveitum landsins, og er rétt að svara honum hér að nokkru. Atvinnan getur minnkað fyrr en nokkurn grunar. Þetta ástand, sem nú ríkir, getur staðið eitt ár enn. Við vitum ekki, hvað framtíðin ber í skauti sínu. En að því hlýtur að koma, að hægt sé að metta þörf bæjanna í þessu efni, og þá kemur röðin að sveitunum. Þessir menn eru þá til taks til þess að byggja þar. Og það hafa farið menn úr bæjunum til þess að standa fyrir byggingum og það jafnvel til þeirra framkvæmda, sem ekki teljast til hins opinbera. Ég mun nú fara að ljúka þessu, þar sem ég hafði lofað að vera ekki langorður. Hv. 3. landsk. fór svo með heimildir áðan sem hans er vandinn. Það virðist vera hans sérstaka list að rangfæra ummæli manna, enda gerði hann það áðan, þegar hann vitnaði í ummæli mín. Hann sagði t. d., að fyrir mér vekti sérstaklega að berjast fyrir sjónarmiði meistaranna. (HV: Það er engin rangfærsla.). Jú, það er rangfærsla, því að skipulagið, sem nú er í iðnaðarmálunum, er ekki verk meistaranna. Það, sem er höfuðatriðið fyrir mér, er málstaður sveinanna og nemendanna. Þeir vilja aðeins láta endurbæta það skipulag, sem nú ríkir, en telja skipulagið gott að öðru leyti. Það er þetta sjónarmið mitt, sem hv. þm. Str. viðurkenndi í gær, að væri sjónarmið sveinanna og nemendanna. Og það er það. (HermJ: Ég held bara, að hv. þm. hafi versnað síðan í gær.) Það á víst að skilja þetta sem svo, að hv. þm. taki það aftur, sem hann sagði í gær. Það er ekkert nýtt, þótt þessi hv. þm. dragi það aftur í land, sem hann hélt fram í gær (HermJ: Ég er ekkert að draga í land varðandi það.) Varðandi námstímann, sem hv. 3. landsk. var að breiða sig út yfir, þá sagði ég það í ræðu minni, að það væri á vitorði iðnnema og annarra, að námstíminn væri of langur í ýmsum iðngreinum og það væri iðnráð, sem ætti að gera fyrstu till. um það, hvað námstíminn ætti að vera langur. Það eru mörg rök, sem hníga að því að stytta námstímann í mörgum iðngreinum, en ég er ekki að segja, að svo skuli vera með byggingariðnaðinn. Um það get ég ekki dæmt. Ég sagði, að sú löggjöf, sem nú færi gegnum þingið, yrði að tryggja, að námið yrði virkilegt nám, en ekki káknám. Um kjör nemendanna ætla ég ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði áðan.

Ég hef svarað hv. þm. N-Þ. Ég hygg, að þau kjör, sem nemendur búa nú við, séu þannig, að þeir telji sig ekki vanhaldna. En hvernig þau eru vestur á Ísafirði, þekkir hv. 3. landsk. betur en ég, en þá er það hans að endurbæta það. (HermJ: Þeir eru áreiðanlega vanhaldnir. Ég þekki marga pilta, sem lifa á víxlum.) Ég þekki þetta líka. En það bætir hv. þm. ekki með því að koma upp iðnskóla í sveitum, því að kjörin, sem iðnnemendur eiga að hafa þar, eru ekki til fyrirmyndar. Þar kemur einræðið fram undan úlfshárunum. (HermJ: Er nú málshátturinn orðinn þannig?)

Mál þetta er orðið útrætt. Ég hygg, að búið sé að draga það fram í því, sem hægt er að draga fram. Að lokum vil ég segja það, að ég held, að ef breyta skal um fræðslukerfi í landinu, þá eigi ekki að gera það á þann veg, sem hv. þm. Str. leggur til. Það á að hugsast af mþn., á hvern hátt hægt sé að gera framtíðarskipulagið hagkvæmast og ódýrast. Slíkt verður ekki bezt gert með því að fleygja inn í þingið frv., sem eru vanhugsuð og stefna að því að draga úr þeirri iðnfræðslu, sem reynt er að halda uppi í landinu. En að þessu stefnir frv. hv. þm. Str. Ef menn eygja möguleika á því að koma á betra skipulagi í þessum efnum, ber að undirbúa það mál sem bezt og gera það í samvinnu við hinar vinnandi stéttir, en ekki í andstöðu við þær.