02.12.1946
Efri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (3924)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Nú undanfarið hafa íslenzkir útgerðarmenn og fiskimenn fengið eða tryggt sér að fá mikinn nýjan skipastól. Til þessa hefur verið varið miklu fé á okkar mælikvarða. Þess vegna ríður okkur nú á því frekar en öllu öðru að nota og nýta þennan skipastól okkar eins vel og mögulegt er.

Eitt mikilsverðasta skrefið í þá átt hlýtur að verða að reisa nógu öflug og stór fiskiðjuver, þar sem bezt hentar og þörfin er brýnust, eins fljótt og verða má. Nú fyrir fáum dögum, er rætt var um frv. hv. 8. landsk. þm. o.fl. um landshöfn og fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði, þá kom fram nokkur ótti hjá hæstv. samgmrh. um, að fleiri frv. mundu koma á eftir um svipað efni. Það getur vel verið, að svo fari, og er ekki nema eðlilegt, enda ekki um það að sakast, ef þess er gætt að hafa við afgreiðslu þeirra frv., er fram kunna að koma, það sjónarmið, og það sjónarmið eitt, að fyrst beri að reisa fiskiðjuver þar, sem það kemur að mestum notum fyrir þjóðarheildina, þar sem þörfin á því er brýnust fyrir útveginn, þar sem það liggur bezt við fiskveiðunum, þar sem líkur eru til, að starfstími þess sé lengstur á hverju ári. Það hlýtur t.d. að vera auðsætt, að heppilegra og arðvænlegra er að reisa iðjuver þar, sem það getur haft nægilegt verkefni til að vinna allt árið, heldur en þar, sem vart er um verkefni að ræða fyrir það nema 3–4 mánuði á ári. Við megum því ekki láta okkur henda það í þessu efni, sem þótt hefur brenna við hjá okkur, t.d. í vegamálum, að leggja alldýra vegspotta út um allt, sem stundum hafa síðar verið árum saman fáum eða engum til verulegs gagns.

Nei, við verðum heldur að einbeita allri orku okkar að því að reisa fyrst þau mannvirki, sem eru mest aðkallandi og eru líklegust til að færa okkur mestar og fjölbreyttastar afurðir á skemmstum tíma, miðað við það, sem til þeirra er kostað. Ennfremur ber þess að gæta að öðru jöfnu að reisa fiskiðjuver ríkisins frekar þar, sem sýnt er, að ekki er unnt að koma á fót fiskiðjuveri með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í lögum um stofnlánadeild sjávarútvegsins, en í grg. með þessu frv. er einmitt getið um þær ástæður, sem valda því, að það er ekki hægt á Ísafirði. Nefnilega í stuttu máli þar, að Ísfirðingar hafa lagt hart að sér til að leggja fram nauðsynlegt fé til að tryggja það, að 1 togari og 5 Svíþjóðarbátar gætu bætzt við bátaflotann í bænum. Ísfirðingum var hins vegar svo ljós nauðsyn fiskiðjuversins, að þeir voru reiðubúnir s.l. vor þrátt fyrir örðugleika útgerðarinnar að leggja fram allan þann hagnað, sem vonir stóðu til, að hið háa síldarverð s.l. sumar gæti fært þeim, ef sæmilega aflaðist. — Öllum er kunnugt, hvernig fór um þær vonir, og skal ég ekki rekja það lengra.

Við flm. þessa frv. höfum talið eðlilegra að flytja um það sérstakt frv. heldur en blanda því saman við hafnargerðir eða lendingarbætur, þótt hvort tveggja eigi að koma útveginum að notum og þurfi sums staðar að haldast í hendur. Hvað viðvíkur kostnaði, þá þykir mér rétt að taka það fram, að fullnaðaráætlun um hann liggur ekki fyrir enn, enda tæpast hægt að fá nokkurn mann til að leggja vinnu í að gera slíka áætlun, fyrr en meiri vissa er um, að úr framkvæmdum verði. Hins vegar hefur þetta mál verið rætt allýtarlega við sérfræðinga í þessum málum, og er upphæðin, sem nefnd er í frv., það, sem næst verður komizt, eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja. Enda tók ég eftir því, að í frv. hv. 8. landsk. þm. o.fl. um landshöfn og fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði er nefnd tilsvarandi upphæð, miðað við stærð eða afköst fyrirtækisins.

Að ekki er nánar farið út í að sundurgreina þá vinnslu, sem gert er ráð fyrir, að þarna fari fram, stafar af því, að það er frekar framkvæmdaatriði, sem að mestu verður falið þeim sérfræðingum, sem sjá um framkvæmdir með væntanlegri stjórn fyrirtækisins.

Þó má geta þess, að ætla má, að fiskiðjuverið leysi af hendi hvers konar vinnslu úr fiski, þar á meðal er t.d. talin vinnsla á karfalýsi, þar sem gert er ráð fyrir, að karfinn verði fyrst flakaður og hraðfrystur, en lýsi unnið úr lifrinni og úrganginum, en karfalýsi er, sem kunnugt er, mjög verðmæt og eftirsótt vara, og einhver beztu karfamið, sem þekkt eru, eru skammt undan Vestf jörðum. Nú eru togararnir á veiðum úti fyrir Vestfjörðum, og verða þeir þeirra, sem afla í salt, að fleygja karfanum og reyndar fleiri í fisktegundum.

Hins vegar leita skipin, einnig þau þeirra, sem ekki leggja fiskinn upp fyrir vestan, flest hafnar þar til að leggja upp lýsi, áður en þau halda hingað suður, og væri þá lafhægt að leggja um leið á land karfa og annan fisk, sem hentugur væri til flökunar, ef skilyrði væru til að vinna hann í landi, a.m.k. það af slíkum fiski, sem aflaðist síðustu dagana í hverri veiðiför.

Auk þessa er nú á döfinni að hefja selveiðar í norðurhöfum frá Ísafirði nú í vetur með 2–3 skipum, og verður þá aðkallandi að bræða spikið og gera það að sem beztri vöru, en verkað selalýsi er ágæt útflutningsvara. Þá er og líklegt vegna þess, hvað selveiðisvæðið er tiltölulega nálægt Ísafirði, að hægt verði að flytja heim eitthvað af selkjöti, a.m.k. á stærstu skipunum, ef hægt er að selja það eða vinna úr því seljanlega vöru. Hefur komið fyrir, að norskir selveiðimenn, sem oft leita hafnar á Ísafirði, hafa selt þar selkjöt.

Að lokum vil ég geta þess, að nú þegar hefur farið fram verulegur undirbúningur að því að reisa fiskiðjuver á Ísafirði. Því hefur verið valinn staður á bezta stað við höfnina, og enn fremur hefur verið gerður uppdráttur að aðalbyggingu fyrirtækisins. Að ekki er byrjað á byggingunni, stafar af því, að í ljós hefur komið, að ekki eru tiltök að afla á Ísafirði svo mikils fjár, að hægt sé að reisa fyrirtækið, þó lán fengist úr stofnlánadeild sjávarútvegsins. En bygging fiskiðjuversins er svo áríðandi og aðkallandi, að enga bið þolir.

Vænti ég svo, að hv. d. sjái sér fært að samþ. frv., sem verður væntanlega vísað til hv. sjútvn.