20.11.1946
Neðri deild: 20. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (4076)

61. mál, orlofsheimili verkalýðsfélaga og samkomuhús í sveitum

Flm. (Sigurður Guðnason):

Mál svipað þessu var hér á síðasta þingi, en kom aldrei úr n. En okkur flm. er þetta mikið áhugamál, og flytjum við það nú á ný í breyttri mynd í þeim tilgangi að ráða nokkra bót á brýnum þörfum þeirra félagasamtaka, sem hér er um að ræða, til að koma upp nauðsynlegum heimilum til starfsemi sinnar. Eins og kunnugt er, hefur það farið mjög í vöxt á síðari árum, að bæjarbúar vilja nota tómstundir sínar til þess að ferðast um sveitir landsins og dveljast á fögrum stöðum sér til hressingar. En þá hefur verið tilfinnanlegur skortur á gististöðum, sem hefur hindrað mjög ferðalög þessa fólks. Þær eina stofnanir, sem hægt hefur verið að nota í þessum tilgangi, eru heimavistarskólar sveitanna, enda hafa þeir ekki líkt því getað annað öllum, sem þangað hafa leitað. Þegar orlofslögin tóku gildi 1943, varð þörfin fyrir þessi heimili enn þá meir aðkallandi, þar sem ákveðið er, að hver launþegi skuli hafa 12 daga orlof á ári.

Ég vil nú fara nokkrum orðum um þær breyt., sem við hófum gert á frv., frá því að það var flutt í fyrstu. Mér er það minnisstætt, að hérna fyrir löngu, þegar skólabyggingar til sveita komu til sögunnar. að þá var álitið, að samkomuhúsaþörf sveitanna væri fullnægt, um leið og þessar skólabyggingar kæmust upp. En reyndin hefur orðið öll önnur. Viðvíkjandi þessum byggingum datt okkur í hug — og finnst raunar sjálfsagt —, að með þessu sé hægt að leysa tvö vandamál í einu, vegna þess að verklýðsfélögin þurfa ekki að nota þetta húsnæði nema um sumartímann, meðan orlofstíminn stendur yfir, en starfsemi ungmennafélaganna í sveitum fer hér um bil öll fram á öðrum tímum árs, þegar þau ættu þá að geta notað þetta sama húsnæði. Það virðist því einmitt á þessu sviði, að vel mætti leysa húsnæðisþörf beggja þessara aðila, svo að báðir mættu vel við una. Ég geri að vísu ráð fyrir því, að byggingarkostnaður þessara heimila verði nokkru meiri, ef á að miða þau við starfsemi þessara tveggja aðila, því að á henni er dálítill mismunur. Starfsemi verklýðsfélaganna krefst á þessum heimilum margra smáherbergja, en ungmennafélög sveitanna þurfa á samkomu- og fundarsölum að halda. Hins vegar er vafalaust, að fjárhagslega séð væri sparnaður að því að miða þessar byggingar við hvora tveggja þessa starfsemi, og í öðru lagi ættu þær að geta orðið fullkomnari með þessu fyrirkomulagi.

Ég vil vænta þess, að hv. þm. og sú n., er fær þetta mál til meðferðar, sýni því skilning. en um þörf þess og réttlætiskröfur þarf ekki að fjölyrða, og vil ég mælast til þess, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjhn.