06.11.1946
Neðri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu hafa verið til að endurskoða löggjöfina um þessi mál, því að hún var miðuð við aðrar aðstæður, en nú eru. Það hafa orðið miklar breyt., síðan sú löggjöf var sett, og ýmislegt í þeirri löggjöf því að verða úrelt. En ég hef því miður ekki haft nægan tíma til þess að bera þetta frv. saman við gömlu l. og styðst því nú meir við minni, en slíkan samanburð. En við það að líta yfir frv. þetta, virðist mér, að allmargir kaflar í frv. muni vera teknir upp í það litt eða ekki breyttir frá gildandi löggjöf, og um það er vitanlega ekkert nema gott að segja og sjálfsagt að gera það, þar sem komið hefur í ljós, að ákvæði þeirra hafa reynzt vel, og ekki líkur til, að annað betra komi í staðinn.

Það, sem alveg sérstaklega hefur verið bent á og alveg réttilega sem breyt., er það fyrst og fremst, að það er tekin ákveðnari afstaða til fjárskiptanna, en áður var og gata þess greidd, að fjárskiptum verði komið á fremur, en áður var. Þetta tel ég fyrir mitt leyti til bóta. Ég hef alltaf verið því fylgjandi, að fjárskipti yrðu reynd, og hef frá upphafi talið, að það væri einasta leiðin, sem til nokkurs gagns gæti orðið fyrir okkur, eins og sakir hafa staðið undanfarið. Fyrst framan af var það að tala um slíkt eins og að tala fyrir dauðum eyrum, það vildi enginn á það hlusta. Nú hefur orðið breyt. á þessu, og hlýt ég að fagna því. En það er ýmislegt í sambandi við fjárskipti yfirleitt, eins og það er sett fram í þessu frv., sem mér finnst vera meira en litið vafasamt, og skil ég vel, að hæstv. ráðh. taldi sig, að því er mér skildist, tæplega geta gengið að því eða mælt með þeim aðferðum alls kostar óbreyttum, og var það þá sérstaklega 37. gr., sem hann drap ofurlítið á eða staldraði við. Ég furða mig ekki á því, því að sannast að segja þá fellur mér hún vægast sagt ekki, og þessi ákvæði eru þannig, að ég hygg, að þau séu í raun og veru varla frambærileg í svona löguðu frv. Það er gert ráð fyrir því, að fjárframlögin vegna fjárskiptanna miðist við skattaframtöl ársins 1946 að hálfu, en að hálfu við skattaframtal, þegar heilbrigt fé var síðast í viðkomandi hreppi.

Þegar ég fór yfir þetta, fór ég að athuga í minni eigin sveit og í nágrannasveitunum. Ég tók svo dæmi um þetta. Ég skal játa, að annað dæmið er tilbúið, en þannig, að hægt er að fá tilsvarandi dæmi hvar sem er. Ég tek bónda, sem átti 300 fjár. en á núna 100 kindur. Meðaltalið af þessu verður 200 lömb, sem hann á að fá núna fyrir þessar 100 kindur. Hann fær 100 kindum fleira, en hann átti. Svo tek ég annað dæmi, sem er raunverulegt. Það er af manni, sem ég þekki, í minni sveit. Þetta er ungur og duglegur maður, sem nýlega hefur byrjað búskap og mun hafa átt 2 eða 3 kindur, þegar hann byrjaði. Nú á hann 60 kindur. Það verða 62 og meðaltalið 31. M.ö.o. fær hann 31 lamb móti 60 kindum, sem hann leggur inn, eða 29 lömbum færra, en hann leggur inn. Í þessu tilfelli er tekið af byrjandanum til þess að bæta okkur upp, gömlu körlunum, sem áttum stærra bú, þegar veikin kom. Svona lagaðar aðferðir verð ég að segja, að ég kann ekki við. Þeir eru ekki svo margir byrjendurnir í sveitabúskap, að ástæða sé til að þröngva kosti þeirra, sem hafa ráðizt í að reisa bú á undanförnum árum, þegar fjöldi fólks yfirgefur sveitirnar.

Það má líka benda á það í þessu sambandi, sem hæstv. ráðh. kom alveg réttilega inn á, að í heilum héruðum og mörgum sveitum er öllum vitanlegt, að bændur hafa stórfækkað fé sínu viljandi, þegar þeir sáu, að hverju fór, og komið sér upp kúabúum í staðinn fyrir fjárbú. Þetta er hlutur, sem allir þekkja og vita. Nú skulum við segja, að maður, sem ætti 300 kindur fullorðnar, þegar þetta tímatakmark væri, sem l. ákveða, væri gamall bóndi, sem væri að hætta að búa og ekki hirti um að hafa fleira fé. Hann fær þá hundrað kindum fleira, en hann mundi hirða um að eiga. Við getum líka hugsað okkur mann, sem væri búinn að koma upp stóru kúabúi og ætlaði sér aldrei að koma upp svipuðu fjárbúi og hann áður hafði, en hann fengi þarna fjárstofn. Svo kemur það, sem mér þykir hæpnast og þykir benda til, að n. hafi ekki hugsað svo ýtarlega sem skyldi um málið. Ég sé ekki annað, en að menn gætu tekið þessi dýru lömb, slátrað þeim og étið þau eða selt þau með því verði, sem þeim sýndist, og tekið þann hagnað. Ég get ekki fundið nokkur ákvæði um, hvernig skuli fara með þetta. Þetta sýnist mér, að sé svo snöggsoðið af n. hálfu, að varla sé frambærilegt. Mér sýnist ekkert samræmi vera milli þeirrar tölu fjár, sem slátrað er, og þess, sem ríkissjóður á að inna af hendi. Í 37. gr. segir, að bændur skuli fá lömb eftir þessu meðaltali, sem ég hef nefnt áður, en í 38. gr. segir, að framlög ríkissjóðs greiðist á þann hátt, að fyrir hverja fullorðna kind og gemling fái bændur haustlamb. Það er m.ö.o. miðað við, að menn fái lömb, en þó ég láti meginið af mínu vænsta fé og kaupi 2. og 3. fl. í staðinn, þá sé ég ekki annað, en mæðiveikin standi berskjölduð gagnvart svona löguðu framferði. því að það er ekkert sagt um það, hvenær sauðfjársjúkdóman. og ríkið verður eigandi að þessu. því fær ríkið ekki nema það, sem lagt er inn, og á það undir geðþótta manna, hvað þeir vilja láta ríkissjóð hafa. Þetta tel ég líka vanta í þetta frv. Eins og menn skilja af þessu, tel ég, að ef þetta eiga að skoðast sem bætur, komi það svo ranglátlega niður, að ekki sé viðunandi, og það gladdi mig, að mér skildist, að fjmrh. hafi veitt þessu athygli, þótt ekki væri bót á því ráðin, áður en frv. var flutt. Ég ætla þá ekki að ræða um þetta. Ég tei, að þetta eins og annað standi til bóta, og verð að telja, að það muni verða lagfært.

En það er annað atriði. sem ég vildi minnast hér á og hefur verið rætt hér í d., en það er um innflutning fjár. Ég hef þá sérstöðu, að ég var sá eini, sem greiddi atkv. gegn þessum innflutningi í landbn. nú fyrir stuttu. Mín afstaða er sú, að ég hef verið á móti þessum innflutningi sauðfjár frá upphafi, og sú afstaða er óbreytt. Ég vil ekki láta ómótmælt því, sem hv. þm. S–Þ. vildi halda fram, að þessi innflutningur stangist ekki að neinu leyti á við það, sem hann vildi telja aðaltilgang frv. Að vísu skal ég játa, að það veltur á dálitlu, hvernig á þessum málum er haldið, en eins og haldið hefur verið á þeim hingað til og eins og búast má við, að á þeim verði haldið eftirleiðis líka, virðist mér auðsætt mál, að það myndist tveir andstæðir flokkar bænda um þessi mál. Ef eitthvað er til í því, að þessi kynblöndun gefi ekki árangur í 1–2–3 liði, þá er nokkur von, að það mætti verða til þess, að menn tryðu á þetta, því að í nauðum taka menn í hálmstráið. Þetta gæti orðið til þess, að menn, sem eru með fjárskiptum, vildu bíða, halda veikinni við hjá sér og sjá, hvað setur, en það, að fjárskipti stöðvist og veikinni sé haldið við, er það lakasta. Það er eins og nýtt hnefahögg framan í þá, sem búnir eru að hafa fjárskipti og vilja verja fé sitt. Ég er viss um það, að þeim mönnum, sem búnir eru að gera fjárskipti, er ekki hægt að gera öllu meiri óleik, en með þessari aðferð. Fyrir þessu gerði ég grein. Auk þess er það sannfæring mín, að við eigum að gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að viðhalda okkar íslenzka fjárkyni. Ég er alveg viss um, að það er ekkert fé, sem á jafnvel við okkar íslenzku staðhætti. Það er uppalið hér í þúsund ár við þau skilyrði, sem hér eru, og það hefur mikla möguleika til þess að taka auknum þroska með bættri meðferð og kynblöndun. Þetta er mín sannfæring, og þess vegna er það mitt áhugamál að varðveita okkar góða sauðfjárstofn og káka ekki við annað, ef okkur mætti takast að útrýma veikinni. Ég skal játa með hv. þm. S-Þ., að veikin er erfið viðfangs og við erum komnir í öngþveiti, án þess að markinu sé náð, en það er svo, að það hefur enginn það, sem hann ekki vogar, og vogun vinnur og vogun tapar, og ég er tilbúinn að hætta á þetta, og mér er kunnugt um, að hv. þm. S-Þ. er það líka og einnig hv. þm. A-Húnv., sem mér er kunnugt um, að stendur mér mjög nærri, þótt hann hafi, að því er mér finnst, farið inn á villigötur hvað snertir leyfi fyrir innflutningi á útlendu fé.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en skal lýsa ánægju minni yfir 9. kafla frv. Ég tel hann til mjög verulegra bóta, og hefði slík sóttvarnarstöð átt að vera komin fyrr. Ef til hefði verið slík stöð, hefði ef til vill getað farið öðruvísi en fór. Ég tel þess vegna þann kafla í alla staði réttlátan og gott, að hann er með.