19.12.1946
Neðri deild: 42. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég á hér ásamt tveimur meðnm. mínum brtt., sem ég vildi segja um nokkur orð. Þær eru um það, að fyrir orðið „karakúlsjúkdómar“ komi: sauðfjársjúkdómar. Við lítum svo á, að enda þótt þetta orð hafi verið notað um langt skeið, þá hafi það frekar verið notað sem kerskniorð, en að það sé í rauninni þannig vaxið, að ástæða sé til þess að taka það sem nokkurt samheiti á þessum sjúkdómum, og við teljum af þessari ástæðu eðlilegra að nota það orð, sem hingað til hefur verið notað, sauðfjársjúkdómar. Þetta er líka hið sama og yfirdýralæknirinn, hv. þm. Ak., hreyfði hér við 1. umr., og taldi hann fyrst þurfa að breyta þessu. Við urðum við tilmælum hans um að breyta þessu. Þetta er aðeins mjög smávægilegt, en við teljum það fara betur í löggjöf. Að öðru leyti ætla ég ekki að bæta við þetta, þar eð hv. frsm. hefur gert grein fyrir sameiginlegu áliti okkar nm.