17.12.1946
Neðri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (4193)

110. mál, landshöfn og fiskiðjuver á Rifi

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hæstv. samgmrh. Ég á nú bágt með að fallast á, að ég sé að taka fram fyrir hendurnar á honum, þótt ég hafi flutt þetta frv. Ég flyt það ekki sem ráðh., heldur sem þm. og samkvæmt beiðni áhugamanna á Snæfellsnesi. Það er samið í samráði við þá. Ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. hafi ýmislega þekkingu á þessu máli og sé mér að því leyti fremri. En það er búið að rannsaka hafnarskilyrði á Rifi, og virðast þar vera góð hafnarskilyrði. Annars hefur verið deilt um það, hvar gera ætti framtíðarhöfn á Snæfellsnesi, og hefur verið talað um Sand, Ólafsvík og Grundarfjörð auk Rifs. En ég býst nú við, að menn almennt á Sandi, og jafnvel í Ólafsvík, hafi nú áttað sig á því, að sennilega sé æskilegast og auðveldast að gera höfn á Rif í allra þeirra staða, sem um er að ræða á þessu svæði. Því eru menn nú almennt á Sandi og að miklu leyti í Ólafsvík orðnir sammála um að einbeita sér að því, að höfnin verði á Rifi. Ýmislegt yrði náttúrlega að rannsaka þar betur, og það yrði sjálfsagt gert. En ég er þeirrar skoðunar, að rannsókn hafi dregizt óhóflega lengi hjá hæstv. samgmrh., og býst ég við, að það sé álit manna á Snæfellsnesi, að þeir lifi ekki af því, sem hann hefur í hyggju að gera. Ég gekkst í þetta mál sökum þess, að hæstv. ráðh. hefur dregið rannsóknina úr hömlu, og fyrir hönd þeirra manna þar vestra, er telja Rif geta orðið góða höfn og útgerðarstað með tiltölulega litlum tilkostnaði. Ég vil einmitt benda á í þessu sambandi, að hæstv. samgmrh. lofaði því sérstaklega á fundi fyrir kosningar í vor, að nú skyldi rannsókn verða hraðað, en það loforð var ekki efnt fyrr en síðast í haust, og sýnir það vel áhugann á málinu. Hæstv. ráðh. sagði, að athuga þyrfti og rannsaka, hvor staðurinn væri hagkvæmari, Rif eða Ólafsvík. Mér virðist þá, að segja ætti, að rannsaka þyrfti, hvaða staður væri heppilegastur, en binda sig ekki endilega við annan hvorn þessara staða, það væri rökréttara. Að velja Ólafsvík er sama og leggja Sand niður. Ég er ekki að segja, að Ólafsvík sé útilokuð, og ef skilyrði reyndust þar betri en á Rifi, er sjálfsagt að taka tillit til þess. En í Ólafsvík hagar nú þannig til, að hafnarmannvirkin eru á þurru landi, eins og stendur, og tilraunir til dýpkunar hafnarinnar hafa reynzt óforsvaranlega dýrar og ekki komið að fullum notum. Það er álit almennings þar, að ekki þýði að halda þeim tilraunum áfram og að hafnarmannvirkin séu lítils virði. Á Sandi eru hafnarmannvirkin ónothæf, eins og er. Þar er útfiri mikið og útgerð leggst þar niður, ef ekki er úr bætt.

Þá sagði hæstv. samgmrh., að það mundi ef til vill kosta milljónir að gera veg milli Ólafsvíkur og Rifs. Ég fór vestur þangað í sumar og hitti vegamálastjóra, er var að athuga veg milli Sands og Ólafsvíkur, og hann sagði, að um Ennisdal að Hliði, eða Sandi, væri um 11 km leið og engin sérstök torfæra á milli Ólafsvíkur og Rifs. Enn fremur sagði hann, að vegagerð á þessari leið væri ekkert sérstakt vandamál, nema vegurinn væri lagður yfir Ennið eða undir Enni. En ekki kvað hann þess þurfa, heldur væru fullkomnir möguleikar á því að leggja hann um Ennisdal, og taldi hann ekki á því nein sérstök tormerki. Og það er sérstaklega með tilliti til þessa álits vegamálastjóra, er hann lét í ljós við fleiri en mig þar vestra, að ég hef ekki fyrr gert neina sérstaka grein fyrir vegamálunum í þessu sambandi.

Varðandi aðrar hafnir þarna á nesinu tel ég, að Rifsós ætti engan veginn að koma í staðinn fyrir þær allar að öllu leyti. Höfnin þar væri að sjálfsögðu fyrst og fremst fyrir Sand, en Ólafsvíkingar gætu raunar einnig notað hana, og væri hún þannig fyrir bæði þorpin. Grundarfjörður hefði vitanlega sína sjálfstæðu höfn, og haldið væri áfram með hafnargerð þar, en þó gætu bátar þaðan einnig haft afnot af höfn á Rifi sem öruggari höfn. Það er engan veginn ætlunin, að landshöfn á Rifi kæmi fyrir eða útilokaði aðrar hafnir á nesinu, en þó ætti hún að geta orðið mikils virði fyrir Ólafsvík, ef það kæmi í ljós, að ekki væru tiltök að gera góða höfn þar. Úr því mun reynslan skera. Alþ. á. ekki að kveða upp dauðadóm yfir nokkru þorpi, þó að reynslan eða lega þorpanna sjálfra geti stundum gert það.