18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (4207)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram nein efnisleg atkvgr. um þetta mál í menntmn., en eins og tekið er fram í grg., þá hefur meiri hl. n. að svo stöddu ekki séð sér fært að taka þátt í flutningi frv. Það er að vísu alllangt síðan menntmn. barst bréf frá hæstv. menntmrh. með tilmælum um flutning þessa máls, en það kom til orða innan n. að doka við með flutninginn, þangað til búið væri að ræða það innan flokkanna og kynna sér nokkuð, hvernig viðhorfið mundi vera um aðalefni þess meðal hv. þm. almennt. Nú hefur því ekki orðið ágengt, a.m.k. milli stjórnmálafl., að þetta frv. væri rætt efnislega, svo að ég og fleiri meðnm. töldum rétt að doka nokkuð við með flutning þess, eins og tekið er fram í grg. og svo sem frsm. réttilega skýrði frá. Hins vegar mun nú þessi dráttur orðinn nægilega langur og vildi hv. frsm. því hrinda því af stað og koma því inn á hv. Alþ. Út af þessu vil ég bæta því við, að það er ekki ástæða til að ræða þetta mál nú efnislega, og finnst mér, að hv. þm. V-Sk. hefði getað sparað sér það, þar sem kunnugt er, að menntmn. mun að sjálfsögðu taka þetta mál til rækilegrar íhugunar í samráði við þá flokka, sem nm. skipa, og má þá vænta þess, að góð lausn fáist á þessu máli í heild.

Á hinn bóginn er það rétt, að það atriði, sem var mér a.m.k. mestur þyrnir í augum, eða það, sem mestrar aðgæzlu þarf við, er það, sem fram kemur í 3. gr. frv., er mælir svo fyrir, að Landsbanka Íslands skuli skylt að kaupa öll skuldabréf, sem bæjar- eða sveitarfélög gefa út í því skyni, sem um ræðir í 1. og 2. gr., án þess að nokkuð sé til tekið um þá heildarupphæð, sem þar gæti verið um að ræða. Vitanlega er hér um framkvæmdir að ræða, sem kosta mikið fé, og getur því orðið um allháa upphæð að ræða, sem landsbankinn verður skyldaður til að veita lán til, jafnvel hvernig sem sakir stæðu að öðru leyti.

Þessi orð vildi ég láta falla um málið, en mun ekki ræða um það efnislega, eins og það liggur fyrir nú, því að ég vænti, að tími og tækifæri gefist til að íhuga það nánar í n.