19.02.1947
Neðri deild: 77. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (4251)

164. mál, skipun innflutningsmála

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Ég býst við því, að flestir þeirra, sem nokkurn kunnugleika hafa á núverandi skipun innflutningsmála þjóðarinnar, séu þeirrar skoðunar, að þeim sé mjög ábótavant. Það má segja, að á núverandi fyrirkomulagi innflutningsverzlunarinnar séu 4 höfuðgallar. Í fyrsta lagi, að þessum málum sé þann veg fyrir komið, að innflutningsverzlunin sé þjóðfélaginu allt of dýr, í öðru lagi er hún með þeim hætti, að erfitt er að beita öruggu verðlagseftirliti; í þriðja lagi eiga gjaldeyrisyfirvöldin erfitt með að fylgjast með, að gjaldeyrisl. sé hlýtt til fullnustu; og í fjórða lagi er erfitt að koma í veg fyrir, að skattal. séu sniðgengin af hálfu innflytjenda. — Skýrslur, sem fyrir hendi eru, bera þess greinilegan vott, að verzlunin yfir höfuð virðist binda óeðlilega mikinn mannafla. Manntal hefur ekki farið fram síðan 1940, en þá var tala þeirra framfærenda á öllu landinu, sem störfuðu að verzlun, 4001, en tala þeirra, sem störfuðu að sjávarútvegi, var hins vegar 7413. Séu þessar tölur bornar saman, verður ekki um það deilt, að óeðlilega mikill fjöldi manna fæst við verzlunarstörf. Ef athugaðar eru tölur skráðra verzlunarfyrirtækja, verður hið sama uppi á teningnum. Í árslok 1945 var tala skráðra heild- og umboðsverzlana í Reykjavík 172 og tala smáverzlana, að mjólkurbúðum og fiskbúðum frátöldum, 577. Þess má og geta, að innflutningsverzlanir stórkaupmanna munu vera fleiri en þarna er greint, því að vitað er, að ýmsir reka heildverzlun án þess að hafa heildsöluleyfi. — Það má fullyrða, að verzlunin bindi óeðlilega mikið fjármagn, þótt nákvæmar skýrslur liggi ekki fyrir um þessi efni. Eigendur verzlunarfyrirtækjanna bera óeðlilega mikinn hluta þjóðarteknanna úr býtum, og ef athuguð eru skattaframtöl þessara aðila, kemur í ljós, að tekjur þeirra á síðustu árum virðast mjög miklum mun hærri en ástæða er til, ef þær eru bornar saman við tekjur annarra starfsstétta, og munu þó flestir telja, að í skattaframtölum komi ekki öll kurl til grafar, en til skamms tíma hafa menn orðið að láta sér lynda að setja fram almennar staðhæfingar bæði um tekjur manna í verzlunarstéttinni og um hitt, hversu mikill verzlunarkostnaðurinn sé raunverulega. Hins vegar er hægt að færa óyggjandi rök fyrir því, að dreifingarkostnaðurinn innanlands sé óeðlilega hár. Verðlagseftirlitið gerði fyrir nokkru allýtarlega rannsókn á dreifingarkostnaðinum innanlands samkvæmt gögnum þeim, sem það fær í hendur frá innflytjendum, en þeim er skylt að senda afrit af verðreikningi (kalkulation) sérhverrar vörusendingar, sem flutt er til landsins. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna ótvírætt, að dreifingarkostnaður við að koma innfluttum vörum úr skipi til neytenda er óeðlilega hár. Heildarkaupverð þeirra vara erlendis, þ.e. fob-verð, sem skýrslan nær yfir, nam 135,5 millj. kr., en verð hennar í höfn að viðbættum tollum nam 201 millj. kr., en útsöluverð hennar hér nam hins vegar 327 millj. kr., þ.e.a.s. að kostnaðurinn við að koma vörunni, sem kostaði erlendis 135,5 millj. kr., úr skipi til neytenda, nam 126 millj. kr., þannig að litlu munar, að jafnmikið kosti að dreifa innfluttri vöru úr skipi til neytenda og það kostar að framleiða hana erlendis og koma henni um borð. Hygg ég, að ekki geti orðið ágreiningur um það, að hér sé um óeðlilegan dreifingarkostnað að ræða — kostnað, sem ætti mjög að lækka með bættu skipulagi. Þar sem ég hef látið prenta þessa skýrslu verðlagseftirlitsins sem fskj. með frv., hirði ég ekki að rekja hinar einstöku tölur hennar. Ég vil þó geta þess, að innkaupsverð innfluttrar matvöru 1945 nam 21.2 millj. kr., verð hennar í höfn hér að viðbættum tolli nam 30,9 millj. kr., en útsöluverð hins vegar 55,1 millj. kr. Kostnaður verzlunarinnar við dreifingu á þessari matvöru var því á þessu eina ári 20,4 millj. kr., eða um 850 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Hina sömu sögu er að segja um vefnaðarvöru. Kaupverð hennar erlendis (fob-verð) var 39,0 millj. kr. á þessu sama ári, en dreifingarkostnaður 34,7 millj. kr., eða 1400–1500 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Ég hirði svo ekki frekar að rekja niðurstöður þessarar skýrslu, en vænti þess, að hv. dm. kynni sér hana, þar sem hún hefur að geyma fróðleik, sem ekki hefur verið völ á til skamms tíma. Mér finnst varla geti orðið um það ágreiningur, að þennan gífurlega dreifingarkostnað þurfi að lækka.

Undanfarið hefur mikið verið rætt um nýsköpun atvinnuveganna. Var þetta eitt af höfuðverkefnum fyrrv. ríkisstj., og vann hún með því margt gott verk. Þar var hins vegar lögð mest áherzla á aukna framleiðslu atvinnutækja innanlands. Hinu má þó ekki gleyma, að nauðsyn getur verið á nýsköpun á fleiri sviðum, og virðist mér niðurstöðurnar við rannsókn verðlagseftirlitsins benda til þess, að engu siður sé þörf á nýsköpun á sviði verzlunarinnar en sjávarútvegsins og landbúnaðarins. En hvað er inntak nýsköpunarinnar, ef það er ekki að auka afköst þeirra tækja og mannafla, sem við atvinnuvegina starfa, eða halda óbreyttum afköstum atvinnugreinanna, en komast þá af með minni mannafla og færri tæki. Vissulega er hún fólgin í þessu, og þessar tölur, sem ég gat um, virðast ótvírætt benda til þess, að hægt ætti að vera að inna þessa þjónustu af hendi, sem þeir aðilar, er innflutningsverzlun annast, hafa með höndum, með mun minni mannafla, tækjum og fjármagni en nú á sér stað. Virðist ekki lengur mega við svo búið standa, að þessum málum sé ekki sinnt, en svo sem kunnugt er, var það ekki gert á valdatímabili fyrrv. ríkisstj. Það er þess vegna eitt af höfuðverkefnum þessa frv. að koma á nýrri skipan á innflutningsverzlunina, sem jafngildir nýsköpun á því sviði. Læt ég þetta nægja til þess að færa rök að þeirri staðhæfingu minni, að núverandi skipun innflutningsmálanna sé of kostnaðarsöm.

Ég sagði, að annar gallinn á fyrirkomulagi þessara mála væri sá, að erfitt væri að framkvæma haldgott verðlagseftirlit og stundum óframkvæmanlegt. Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að tiltölulega lítið kveði að því, að smákaupmenn gerist brotlegir við verðlagsákvæðin, en hitt verða menn að gera sér ljóst, að það hlýtur að vera mjög torvelt fyrir verðlagseftirlitið að ganga úr skugga um það, hvort verð það, sem erlendir seljendur tilgreina á reikningum þeim, sem innflytjendur leggja fram, er rétt eða ekki, því að við verðið geta bætzt umboðslaun eða afsláttur, sem hinn erlendi seljandi veitir hinum íslenzka kaupanda, eða að samkomulag geti verið milli hins erlenda seljanda og hins íslenzka kaupanda að tilgreina verðið hærra en það raunverulega er, og er mismunurinn þá færður til tekna á reikning hins íslenzka kaupanda erlendis. Af því, sem nú hefur sagt verið, má sjá, að vandkvæði eru á því, að verðlagsyfirvöldunum sé kleift að gegna þeirri skyldu, sem þeim er lögð á herðar af löggjafanum. Má gera ráð fyrir, að hefði slík fullyrðing verið fram sett fyrir nokkrum árum, mundi því fljótlega hafa verið til svarað, að slíkt væru getsakir einar og mjög fjarri því, að nokkuð slíkt gæti átt sér stað. Starfsemi verðlagseftirlitsins síðustu ár hefur hins vegar leitt í ljós, að talsvert hefur kveðið að öllu því, sem ég áðan gat um. Innflytjendur hafa samið við útlendinga, er þeir kaupa af, að setja hærra verð á vörureikninga en það hefur verið í raun og veru. Í mörgum tilfellum hafa þeir og fengið afslætti og umboðslaun, sem ekki hafa komið fram og verðlagseftirlitið hefur ekki getað náð til. Allt þetta hefur sannazt í mjög víðtækum málarekstri, einkum heildsalamálunum, og berst verðlagseftirlitinu alltaf öðru hverju vitneskja um slíkar aðferðir. Ég held, að allir þeir, sem kynna sér þessi mál, hljóti að sjá, hve geysierfitt það er að koma í veg fyrir, að l. séu brotin. Má því segja, að allt verðlagseftirlit sé meira og minna út í bláinn, ef ekki er hægt að reisa rönd við aðferðum, sem ég lýsti hér áður. Algengt er, að innflytjendur hafi frá 5–10% umboðslaun, og verður þá álagningin mun hærri en til er ætlazt af verðlagseftirlitinu. Meðan ekki er hægt að hafa öruggt eftirlit með þessum málum, má því segja, að verðlagseftirlitið sé langt frá því að koma að því gagni, sem ætlað er, og úr þessum erfiðleikum verður aldrei bætt, meðan innflutningurinn er á hendi einstaklinga, ekki fyrr en sett hefur verið á stofn opinber innkaupastofnun, og jafnvel þó að svo sé, er fullt öryggi ekki fengið, svo erfið eru þessi mál. Ég held, að ekki sé hægt að deila um það, að þessir erfiðleikar verði þó smámunir einir, ef allur innflutningur verður á opinberri hendi, en meðan sú leið er ekki fyrir, þá er ekki nema um eina aðra leið að ræða til að bæta verðlagseftirlitið, en það er að fækka innflytjendum að mun, því að það, sem mest torveldar eftirlitið nú, er sá mikli fjöldi, sem hefur innflutninginn á hendi, eða á 4. hundrað aðilar. En auk þess sem eftirlitið verður auðveldara, ef innflutningsaðilar verða færri, má búast við því, að þeir, sem eftir verði og verða að sama skapi stærri og bera mun þyngri ábyrgð, hafi minni tilhneigingu til þess að sniðganga l. og reglur vegna þeirrar geysimiklu ábyrgðar, er á þeim hvílir. — Þriðja meginatriðið, er ég gat um áðan, er það, hve erfitt það er að koma í veg fyrir, að gjaldeyrislögin séu sniðgengin. Má t.d. nefna, þegar menn fá umboðslaun og leggja þau inn í erlenda banka, en það er brot bæði á verðlagsl. og gjaldeyrisl., enn fremur, þegar gjaldeyrisleyfi eru misnotuð þannig, að hærri upphæðir eru yfirfærðar en vörur eru keyptar fyrir. Mjög erfitt er að hafa eftirlit með þessu, þó að nokkuð hafi ástandið í þessum efnum batnað, eftir að gjaldeyriseftirlit bankanna var hafið. Mun á allra vitorði sá fjárflótti, sem hér hefur verið lýst, þótt erfitt sé að segja, í hve stórum stíl hann kann að vera, og í veg fyrir þennan fjárflótta er ekki hægt að koma, fyrr en innkaupastofnunin hefur verið sett upp. En þangað til er eina lausnin að fækka innflutningsaðilunum. Hér er um engar fullyrðingar að ræða, sem kalla megi getsakir, þetta er sannað mál, og slík atvik koma alltaf fyrir öðru hverju. Fjórða atriðið, er ég gat um áðan, að innflytjendur sniðgengju skattal., er aðeins bein afleiðing af framan sögðu, því að ef innflytjendur brjóta gjaldeyris- og verðlagsl., brjóta þeir skattal. um leið.

Þótt menn séu sammála um, að núverandi ástand í verzlunarmálunum sé óþolandi, þá getur menn greint á um leiðirnar til úrbóta. Það hefur verið stefna Alþfl., að þjóðnýta bæri innflutninginn sem og aðrar atvinnugreinar. Hins vegar mun ekki verða deilt um, að eins og stjórnmálaástandið er nú í landinu, kemur þjóðnýting innflutningsins ekki til greina. Fyrir henni er ekki pólitískt fylgi með þjóðinni. Það væri og tæpast rétt að reyna að koma á þjóðnýtingu, þegar meiri hl. ríkisstj. og þeirra, sem að henni standa, er henni mótfallinn. En jafnvel þó að svo sé ekki, má gera svo gagngerar endurbætur í skipulagningarátt, að innflutningsverzlunin verði mun hagkvæmar rekin en nú er. Það er mjög mikil bót, að ríkið hafi einkasölu á sumum vörum, og eru það þá fyrst og fremst þær vörur, sem nú er einkasala á og ríkið hefur mikinn ágóða af, enn fremur áburður og viðtæki, þar sem t.d. áburðinn þarf að kaupa inn í mjög stórum stíl og auðveldara verður að fá varahluti í viðtæki, ef á þeim er einkasala. Auk þess ætti að vera ríkiseinkasala á öllum þeim vörutegundum, sem hagkvæmt er að kaupa inn í sem stærstum stíl, svo sem á kolum, olíu, benzíni og salti. Innkaup annarra vörutegunda, svo sem matvöru og byggingarefnis, voru svo sumpart á höndum ríkisins og sumpart á vegum samvinnuhreyfingarinnar, sem komið hefur upp miklu verzlunarbákni og hefur fengið mikla reynslu í þeim efnum, og gæti komið til mála að leyfa samvinnuhreyfingunni að afla byggingarefnis og matvöru handa félögum sínum, en ríkið birgði svo þá, sem utan þeirra félagssamtaka standa, upp að þeim vörum. Innflutningur annarra vörutegunda gæti svo verið á hendi nokkurra stórra aðila, sem störfuðu með samkeppni innbyrðis, en undir mjög ströngu eftirliti hins opinbera, og er gert ráð fyrir öllu þessu í því frv., er ég hér flyt. Ríkisstj. ákveður, hverjum leyfa skuli innflutning, og segir í frv., að löggilda megi sem innflytjendur ríkisfyrirtæki og opinberar stofnanir, samvinnufyrirtæki og samvinnusambönd, innkaupafélög framleiðenda, innkaupafélög smásöluverzlana, framleiðendur, smásöluverzlanir, heildsala og umboðsverzlanir. Gert er ráð fyrir, að innkaupafélög framleiðenda flytji aðeins inn til eigin þarfa og smásöluverzlanir selji aðeins í eigin sölubúð, enn fremur, að innkaupafélög smásöluverzlana og heild- og umboðsverzlanir svo og samvinnusambönd skuli hafa aðsetur í kaupstað. Innflutningur hverrar vörugreinar skal fyrst og fremst vera í höndum ríkisins, síðan hjá samvinnusamböndum, þá innkaupafélögum smásala og heildsala, þó ekki fleiri en þriggja í hverri grein. Innkaupafélög smásala og framleiðenda, heildverzlanir og umboðsverzlanir skulu fá staðfestingu ríkisins, og hafi hið opinbera náið eftirlit með þeim og skipi endurskoðendur til að fara yfir reikninga þeirra, er þeim ber að senda hinu opinbera. Þetta eru meginatriðin, sem gert er ráð fyrir í frv., að í fyrsta lagi annist ríkið verzlunina, að öðru leyti verði hún í höndum fárra, en stórra aðila, til þess að reksturinn verði sem hagkvæmastur, en á hinn bóginn verði haft með þeim náið eftirlit.

Höfuðkostir þessa fyrirkomulags eru, að í fyrsta lagi eru innkaupasambönd framleiðenda og smásala efld, en það er fullkomið réttlætismál að bæta úr skilyrðum þeirra aðila til innflutnings. Í öðru lagi, og það er höfuðkosturinn, verði tekinn upp stórrekstur á innflutningnum, stórrekstur einvörðungu. Það er fjarstæða að láta á 4. hundrað aðila annast innflutning fyrir 130 þús. menn. Þó að ein stofnun taki að sér allan innflutninginn, yrði það ekki stórt fyrirtæki á alþjóðamælikvarða. Í þriðja lagi yrði hægt að koma fram eftirliti, sem nú er mjög torvelt. Í fjórða lagi eru eftir sem áður skilyrði til heilbrigðrar samkeppni, þó að nokkrir aðilar njóti sérréttinda. Ég játa, að þessi skipan er þó ekki gallalaus. Það getur verið hæpið að veita sérréttindi og löggilda vissa aðila, en þetta er gert á fjölmörgum sviðum, þar sem skipulagning er nauðsynleg. Þeir aðilar, er réttindin hljóta, eiga og að vera undir nánu eftirliti, og hefur þannig skipan verið höfð á samgöngumálunum innanlands og gefizt vel. En á það verð ég að leggja sérstaka áherzlu, að á móti sérréttindunum kemur aukið eftirlit, en ástandið er nú svo slæmt, að þessi skipan hlýtur að verða til stórra bóta. Eins og nú standa sakir eru um 300 heildsalar raunverulega löggiltir innflytjendur, þar sem mjög erfitt er fyrir nýja aðila að komast þar að. Löggildingartill. er því í rauninni ekki ný, aðeins till. um að fækka stórlega þeim löggiltu aðilum, er hafa innflutninginn á hendi.

Ég geri ráð fyrir því, að af forsvarsmönnum innflytjenda og þeirra, sem hægra megin eru við Alþfl., muni verða sagt, að þessi skipan sé andstæð frjálsri verzlun, en hér hefur ekki verið frjáls verzlun síðan 1931. Ef tala á um frjálsa verzlun, þá verður að taka af öll innflutnings- og gjaldeyrishöft. Hér hefur verið skipulögð verzlun undanfarið, en hún hefur aðeins verið illa skipulögð. Spurningin er því, hvort hér á að vera vel eða illa skipulögð verzlun. Frjáls verzlun kemur ekki til greina, og mundi mig undra, ef nokkur mælti með henni. Í öðru lagi munu þeir segja, að hér sé um stóraukin ríkisafskipti að ræða. Það er rétt. En skoðanir manna á ríkiseftirliti virðast hafa breytzt mikið á síðustu árum. Ég minnist þess vel, að þegar ákvæðin um gjaldeyris- og innflutningshöft voru sett, þótti sumum það óverjandi. Síðar sannfærðust menn um, að þetta fyrirkomulag var ekki óskynsamlegt, heldur hreint og beint, nauðsynlegt. Munu því sárafáir nú mæla með því, að þeim ríkisafskiptum yrði af létt. En af hálfu þeirra manna, sem mest mótmæla ríkisafskiptum, mæta slíkar ráðstafanir þó ekki alltaf sömu óvild. Einmitt þeir, sem mest hafa barizt gegn þeim, voru skeleggustu formælendur þess, að ríkið tæki ábyrgð á framleiðslu heils atvinnuvegar. Þeim finnst ágætt, að ríkið tryggi afkomu atvinnurekenda, en ef þeim dettur í hug, að ríkisafskipti geti eitthvað skert hag þeirra, þá eru þau óhugsanleg. Ber því ekki að taka slíka gagnrýni alvarlega. Ég veit ekki, hvort einhverjum kann að þykja þetta frv. ekki ganga nóg í róttæka átt. Ég get viðurkennt, að sú skipan, sem hér er gert ráð fyrir, er ekki sú, sem mér þætti æskilegust. En þetta er sú skipan, sem hugsanlegt er að koma á nú þegar og yrði til stórra bóta frá því, sem nú er, svo stórra, að ekki er hikandi við að reyna að koma henni á. Af hálfu samvinnuhreyfingarinnar og forsvarsmanna hennar get ég ekki búizt við andstöðu, þar sem samvinnusamböndum er ætlað fullt rúm og rýmra en nú er, auk þess sem innkaupasambönd smásala og framleiðenda eru efld, en það er í samræmi við stefnu samvinnuhreyfingarinnar. Í málefnasamningi núverandi stj. er lögð áherzla á að gera verzlunarkostnaðinn sem minnstan og leyfa þeim innflutning, er hagstæðustu kaupin gera, að innkaupastofnun verði sett á fót og að fjárhagsráð hafi eftirlit með verzluninni. Þessar endurbótatill. í frv. mínu eru því í samræmi við anda stjórnarsamningsins, þótt lengra sé gengið en þar segir beint. En það er mín skoðun, að ein bezta leiðin, sem fær er til þess að lagfæra innkaup og vöruverð, sé að fækka innflytjendunum.

Þetta frv. er ekki flutt sem mál Alþfl., heldur ber ég það fram einn sem þm., en það er í nánu samræmi við stefnuyfirlýsingu flokksins. En flokkurinn hefur ekki tekið beina afstöðu til þess. En það, sem hv. þdm. kann að þykja að frv. og rökstuðningi þess, er við mig að eiga, en á herðum flokksins á það ekki að lenda.

Ég leyfi mér svo að æskja þess við hæstv. forseta, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til n., og virðist mér helzt, að það mundi koma undir fjhn., en ég mun taka ábendingum um aðra n. frá hæstv. forseta, ef það þætti eðlilegra.