05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (4316)

187. mál, brunatryggingar á Akureyri

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur reifað málið, og mátti vænta, að hann kæmi með upplýsingar frá stofnun sinni. Skýrslurnar sýna, hvað það kostar að brunatryggja og hvað Brunabótafélag Íslands hefur fengið í aðra hönd, og stendur þar, að um stórtap sé að ræða á rekstrinum, en samt heyrist mér á hæstv. forsrh., að hann vilji endilega halda þessum taprekstri áfram. Þetta hlýtur að vera mótsögn. Það er einkennilegt, þegar talað er um, að þetta skapi fordæmi, því að hér er sniðið eftir því fordæmi, sem þegar er skapað hér í höfuðstaðnum, sem hefur fengið heimild til að semja við önnur brunabótafélög, sem sagt þetta fordæmi hefur verið skapað fyrir 24 árum. Hæstv. forsrh. vildi fullyrða, að ekki væri unnt að fá betri kjör en hjá Brunabótafélagi Íslands, en ég held, að bæjarstjórnin óskaði ekki eftir þessu frv., nema tryggt sé að fá lægri iðgjöld. Og ég mótmæli því, að hér sé skapað fordæmi, því að það hefur verið skapað hér í Reykjavík. Mér þykir það enn fremur einkennilegt, að Brunabótafél. Ísl. taki svo sárt að missa Akureyri út úr kerfinu, ef það stórtapar á tryggingunum. Ég vona því, að málið gangi áfram.