12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (4348)

227. mál, kola- og saltverzlun ríkisins

Hallrímur Benediktsson:

Herra forseti. — Það er náttúrlega augljóst hv. þd., hversu mikið ofurkapp hv. 4. þm. Reykv. leggur á verzlunarfyrirkomulagið og meira kapp á að kasta fram lítt athuguðum till. en athuga málin gaumgæfilega, eins og bezt sést af frv. á þskj. 679. Maður skyldi ætla, að hv. flm. hefði athugað, hvernig málum þessum var háttað í stríðinu 1914–18, en þá var landsverzlun með kol og salt og gaf ekki góða raun, því að aldrei hafa kol verið jafnslæm og jafndýr og á dögum landsverzlunarinnar. Ég mótmæli þeim ástæðum, sem hv. 4. þm. Reykv. taldi vera fyrir kolaskortinum og saltleysinu. Við lágum með saltforða í 11/2 ár og gátum nokkuð bætt úr, en ríkisstj. hafði ekki dottið í hug að gera ráðstafanir til að fá salt til landsins. Hv. flm. taldi, að kolaskorturinn væri að kenna skipulagsleysi. En hann hefði heldur átt að nefna það, að ríkisstj. leyfði ekki að kaupa kol nema í Bretlandi, þótt þau kol væru aðeins úrkast, en okkar till. voru að fá kol frá Ameríku, sem eftir þeirri „analysu“, sem við fengum, voru mun betri. En það er ekki hægt að vænta þess, að innflytjendur kaupi góða vöru, þegar hið opinbera bannar það. Ég efast um, að verzlunin gengi greiðlega, ef allt þyrfti að fara gegnum nefndir, skipaðar af ríkinu. Það eru aðrar ástæður til kolaskortsins en hv. flm. vill vera láta, t.d. skortur á skipsrúmi gegn greiðslu í sterlingspundum, og þetta vitum við hv. flm. manna bezt. Ég mótmæli alveg þeim ástæðum, sem hv. flm. telur fyrir kolaskortinum, og tel þvert á móti, að hann stafi fyrst og fremst af afskiptum ríkisvaldsins. Verzlunin er ekki eins einföld og hv. flm. telur. Aðalverðið liggur í flutningsgjöldum, og það er nauðsynlegt að hafa góð sambönd, og þeirra leita síður fyrirtæki, sem engan hafa við að keppa.