12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (4350)

227. mál, kola- og saltverzlun ríkisins

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég bjóst ekki við, að hv. frsm. mundi hlaupa fram hjá því atriði, sem ég benti honum á, hver vandræði voru með saltverzlun fyrir nokkrum árum, og er hart að þurfa að rökræða við þennan mann, sem á að vera vel að sér í viðskiptamálum, þegar hann veit ekki, að fyrir nokkrum árum hurfu menn frá því að salta fisk. Saltverzlunin var áður um 200 þús. tonn árlega, en nú ekki nema um 30 þús. tonn. Þetta er hrein og bein bylting, og er því viðfelldnara, að þessa sé gætt, þegar um þessi mál er rætt. Hv. flm. kom ekki inn á þetta, sem er þó þungamiðjan í því öngþveiti, sem varð vegna „lagers“ einstaklinganna.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að ég hafi deilt á sendiráðin í London og Washington. Þetta eru hrein og bein ósannindi, vegna þess, að þegar um innflutning er að ræða, veltur mest á því, að til séu gömul viðskiptasambönd, þegar um það er að ræða að ná hagkvæmum samningum, viðskiptasambönd, sem leggja áherzlu á að halda viðskiptunum áfram. En hv. 4. þm. Reykv. vill halda því fram, að sendiráðin starfi mest að þessu, meir en einstaklingarnir, en ég þekki þetta svo vel, að ég get fullyrt, að þetta er alveg gripið úr lausu lofti, að ég hafi deilt á sendiráðin, heldur er hér mest byggt á verzlunarsamböndum. En um það atriði, að allt sé fengið með ríkisrekstri, þá má benda á það, að fyrir 1945 starfaði innkaupanefnd ríkisins. Ég lagði þar inn pöntun fyrir nokkrum tonnum af járni. Það járn er ekki komið enn, en hins vegar hef ég fengið það annars staðar frá, enda var því haldið fram fyrir vestan, að gegnum hið opinbera fengist ekki fljótari afgreiðsla, enda kom það og á daginn, og fleiri munu hafa sömu sögu að segja. Mörg önnur atriði mætti minnast á, t.d. að Landssamband íslenzkra útvegsmanna hafi lagt áherzlu á að taka verzlunina í sínar hendur. Það gæti nú verið, að ástæðan til þess er sú, að þeir óttist þjóðnýtingu þessarar vöru, og L.Í.Ú. hefur skipt við hina gömlu innflytjendur og verið ánægt með þau viðskipti. Þá vildi ég benda á, að ef grg. er sett fram sem hjal um hluti, sem ekki verða dregnar ályktanir af, hver sé skoðun flm., þá hefði ég álitið, að grg. þessa frv. hefði átt að vera stuttorð. En þetta lýsist allt við framhald umr. um málið. En þetta vildi ég hafa sagt á þessu stigi málsins.