27.11.1946
Efri deild: 21. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (4397)

86. mál, landshöfn og fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Út af niðurlagi í ræðu hv. þm. N-Þ., þar sem hann mælist til þess, að ríkið fari þegar út í að kaupa lóðir á Þórshöfn og afli sér réttinda til lóða, þá er þess að geta, að ríkisstj. fór fram á það fyrir hálfu öðru ári við Alþ., að hún fengi leyfi til þess að kaupa eign Jóns Björnssonar og Jóhanns Tryggvasonar, og hefur keypt þá eign fyrir hagkvæmt verð, að ég tel.

Hins vegar vil ég segja það út af því. sem hv. 1. þm. N-M. sagði, að það bæri í hverju einu tilfelli að tryggja ríkinu lóðir, þar sem ætla mætti, að landshafnir yrðu byggðar, að það gæti orðið dálítið vafasamt, hvar ætti að bera niður, því að ýmsir hafa nefnt staði, sem þeir telja, að kæmu til greina, og ef það ætti alltaf að tryggja ríkinu lóðirnar, yrði að byrja að kaupa þær, helzt áður en landshöfn kæmi til tals. Með frv. um landshöfn í Njarðvíkum var farin önnur leið. Þar var heimild fyrir ríkisstj. til að stöðva framkvæmdir, þangað til samkomulag næðist um lóðakaup, og lóðaeigendum var tilkynnt með skírskotun til heimildarl., að ekkert yrði unnið að hafnargerðinni, fyrr en samkomulag næðist um lóðakaup. Þetta varð til þess, að lóðirnar fást nú sennilega með miklu lægra verði en upphaflega stóð til. Þvílík bremsa sem þessi þvingar þess vegna fram samkomulag betur en nokkuð annað.

Hvað því viðvíkur, sem hér er sagt um Hornafjörð, þá er það sjálfsagt rétt, en mér er líka kunnugt um það, að lóðirnar þar eru margar á leigu og að lóðaréttindi eru leigð til langs tíma, svo að lóðaleigjendur geta algerlega ráðið um meðferð þeirra, a.m.k. um næstu áratugi, svo að þess vegna yrði nauðsynlegt til þess að hagnýta það að kaupa upp þessi lóðaréttindi. Ég bendi á þetta aðeins til að sýna fram á það, að þó að þannig hagi til á Hornafirði, að ríkið eigi lóðirnar, þá er spursmálið samt fyrir hendi, ekki ósvipað því, sem er annars staðar. En ég held, að ég mundi ekki, nema eftir beinum fyrirmælum frá Alþ., hefja gagnger lóðakaup meðfram allri strandlengjunni vegna væntanlegra hafnagerða, heldur mun ég leggja til, að sami háttur verði á hafður eins og gert var með l. um landshöfn í Njarðvíkum; að heimila ríkisstj. að fresta framkvæmdum, þangað til samkomulag hefur náðst, því að það hefur gefið góða raun. Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. N–M. sagði, að ákvörðun um að byggja landshöfn í Njarðvíkum hefði orðið til þess að hækka lóðaverð, vil ég taka fram, að það er misskilningur. Lóðirnar hækkuðu vegna annarra framkvæmda, þ.e. vegna flugmálaframkvæmdanna. Þær höfðu sín áhrif um hugmyndir manna þar um lóðaverð, og það gerðist áður en það kom til mála að gera þar landshöfn.