28.04.1947
Efri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (4514)

206. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það er mesti misskilningur hjá þm. Barð., að hér séu tvær sóttvarnarstöðvar, því að á Hesti er aðeins einhæf tilraunastöð. Þm. Barð. veit það vel, að þessi stefna í málinu á miklu fylgi að fagna í þinginu, enda þótt málið sé ekki nógu vel undirbúið. Og 1. þm. Reykv., fyrrv. landbrh., bað okkur að athuga þetta. Þm. Barð. veit líka, að mþn., sem hafði þetta til meðferðar og í áttu sæti tveir alþm. og Árni Eylands fulltrúi, lagði til, að horfið yrði að þessu ráði. Það er alveg rétt hjá þm. Barð., að lítið vit væri að kaupa Engey, ef ekkert væri flutt inn af dýrum, nema hundar og hænsni. En hins vegar getur verið heppilegt að hafa þar tilraunastöð og hafa dýrin þar fyrstu 16 vikurnar, sem gert er ráð fyrir, að ekki megi sleppa þeim saman við önnur innlend dýr, en það mun vera lengri tími en nokkurs staðar annars staðar.

Ekki mun búnaðarþing hafa gert neina kostnaðaráætlun um þetta, en ætli sú stjórnskipaða n., sem haft hefur þetta mál til meðferðar, hafi ekki athugað þá hlið? Það var í hennar verkahring. En hvað sem því líður, þá er hér gert mögulegt að flytja inn búfé, og ég tel rétt að bremsa ekki alveg fyrir það, ef nægilega vel er um það búið. Ég sé til dæmis enga hættu í því að flytja inn svín, sem síðan eru höfð einangruð í 16 vikur og eftir það ekki sleppt nema inn í svínastíu ákveðins manns, en það gegnir að sjálfsögðu allt öðru máli með sauðfé, sem gengur svo mikið saman í haga. Mér finnst þurfa að haga seglum eftir vindi í þessu máli og útiloka ekki alveg innflutning, en búa hins vegar þannig um, að ekki komi að sök.