09.05.1947
Efri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (4534)

242. mál, söngskóli þjóðkirkjunar

Páll Zóphóníasson:

Á þessu stigi málsins skal ég ekki segja mikið um þetta mál. Þó vildi ég mælast til þess við hv. menntmn., að hún athugaði um það, að hér í bænum hefur verið og er starfandi svo kallaður tónlistarskóli, þar sem mönnum er kennt að spila á ýmiss konar hljóðfæri. Þegar hann var stofnaður, var hugsað, að á þessum skóla væri mönnum líka kenndur söngur. Þessi skóli hefur stundum notið styrks frá ríkinu og stundum ekki, en aðallega frá bænum. Mér hefði fundizt, að þegar farið er að kenna mönnum söng — að því er mér skilst hér til þess að syngja í tómum kirkjum —, þá væri ástæða til að athuga, hvort ekki er hægt að sameina þetta tvennt, söngskólann, sem hér er talað um, og tónlistarskólann, ef þess er þá þörf að stofna þennan söngskóla.

Annars kemur mér dálítið skrítilega fyrir sjónir, að hér í grg. frv. er talað um, að tilvonandi skólastjóri við þennan skóla, Sigurður Birkis, geti nú ekki vel annað kennslu nægilega, m.a. vegna þess, að hann hafi orðið að fara ýmsar ferðir að vetrinum til þess að heimsækja hina dreifðu söfnuði landsins til að kenna söng og stofna kirkjukóra, en að hinu leytinu er ætlazt til þess, að hann geti kennt sex mánuði á þessum nýja skóla. Ég get ekki skilið, að hann geti fremur annað því en a$ kenna fáum mönnum söng. Geti hann vegna ferðalaga nú ekki annað söngkennslu, hvernig getur hann það þá frekar, þó að skóli sé stofnaður? Eða eiga ferðalögin til kirkjukóranna að leggjast niður?