12.05.1947
Efri deild: 130. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (4552)

248. mál, bifreiðasala innanlands

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. — Það er ekki af því, að ég telji þetta mál neitt hégómamál, að ég ætla að vera fáorður um það, heldur eingöngu vegna þess, að ég tel, að öllum hv. alþm. sé ljóst, að hér er um mál að ræða, sem fyllilega er ástæða til að setja löggjöf um, ef það mætti verða til þess að lagfæra það ófremdarástand, sem ríkir um okur og prang á svörtum markaði með bifreiðar.

Það mun flestum kunnugt, að það hefur þráfaldlega gerzt, að menn hafa fengið gjaldeyrisleyfi fyrir bifreið og selt jafnvel leyfið áður en bifreiðin er komin fyrir margfalt það verð, sem ný bifreið fæst fyrir. Þá hafa aðrir farið þannig að, að þeir hafa fengið bifreiðar, oft og tíðum út á sérstaka aðstöðu í þjóðfélaginu að áliti opinberra aðila, og þeir hafa selt slíkar bifreiðar tvöföldu, þreföldu og jafnvel fjórföldu verði og tekið þannig fyrirhafnarlaust allt upp í 2–3 ára tekjur verkamanns, sem vinnur hvern einasta virkan dag ársins.

Mér finnst, að ríkisvaldið geti ekki látið svona verzlunarhætti viðgangast, fyrst og fremst af því, að það er enginn siðferðilegur grundvöllur undir svona okri í þjóðfélaginu, og í öðru lagi af því, að þeir, sem verða að sætta sig við að kaupa bifreið, oft og tíðum á svörtum markaði fyrir 50 og jafnvel 70 þús. kr., eru oft menn, sem stunda akstur sem atvinnu og verða því að láta þetta háa verð koma niður á almenningi í óþarflega háum ökugjöldum. Ég hef fyrir satt, að þess séu dæmi, að embættismenn ríkisins hafi fengið út á sína sérstöðu og sérstaka atvinnuþörf, eins og læknar, ekki aðeins einu sinni, heldur tvisvar eða þrisvar innflutningsleyfi fyrir bifreið og misnotað aðstöðu sína á þann hátt að selja leyfið eða bifreiðina margföldu verði. Slíkt þarf að fyrirbyggja að áliti okkar flm. frv., og hefur okkur dottið í hug, að einna einfaldast sé til að fyrirbyggja þetta að fara þá leið, að hér eftir verði sérhvert gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir bifreið bundið því skilyrði, að ríkið skuli ávallt eiga forkaupsrétt að bifreið, ef eigandinn vill skrá hana á annað nafn eða selja hana. Þá teljum við rétt, að verð slíkra bifreiða, sem ríkið eignast, sé innkaupsverð að frádreginni hæfilegri upphæð fyrir sliti, og verði það ákveðið af trúnaðarmönnum ríkisins, sem sé bifreiðaeftirlitinu á hverjum stað. Við teljum ekki rétt að setja upp sérstaka stofnun fyrst um sinn, heldur verði því hagað þannig, að sá, sem veitir innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir bifreið á hverjum tíma, skuli einnig sjá um úthlutun þeirra. Ef ástæða þætti til að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessara l., þá teljum við rétt, að það sé gert með reglugerð.

Að síðustu teljum við, að svo brýna nauðsyn beri til að setja nú löggjöf, sem fyrirbyggi svartan markað og okur með bifreiðar, að sjálfsagt sé, að l. um þetta öðlist þegar gildi.

Ég sagði í upphafi máls míns, að ég teldi málið svo kunnugt hv. alþm., að það þyrfti ekki ýtarlegrar útlistunar við, og læt ég því máli mínu lokið.