18.11.1946
Sameinað þing: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (4561)

65. mál, húsnæði handa rektor Menntaskólans í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti Þáltill. á þskj. nr. 93, um heimild fyrir ríkisstj. til kaupa á húsnæði handa rektor Menntaskólans í Reykjavík, var vísað til fjvn., og hefur n. tekið málið fyrir og rætt það ýtarlega á þremur fundum. N. fól auk þess form. n. að ræða við og fá upplýsingar frá hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh, og rektor menntaskólans. Og svo hef ég rætt málið við biskup.

N. hefur klofnað um málið, og minni hl. n. gefur út sérstakt nál. á þskj. nr. 109 og mun að sjálfsögðu gera grein fyrir afstöðu sinni.

Í grg. þáltill. er þess getið, að haustið 1942, þegar rektor hafði flutzt í íbúðina í menntaskólahúsinu, hafði honum verið heitið af þáverandi ríkisstj., að honum skyldi séð fyrir öðru húsnæði á næsta ári. Ég geri ráð fyrir, að þetta loforð hafi honum verið gefið vegna þess, að eftir þá gildandi l. bar ríkinu skylda til að sjá rektornum fyrir húsnæði. Það var þá ákvæði um það í l. nr. 71 frá 1919, um laun embættismanna. En í II. kafla þeirra l. er ákveðið, að jafnframt því sem rektor hafi föst laun hjá ríkissjóði, skuli hann hafa fría íbúð í menntaskólahúsinu. En þegar l. eru sett árið 1945, er varða m. a. laun og kjör rektors menntaskólans, er þetta ákvæði um skyldu ríkisins viðkomandi því að sjá rektornum fyrir húsnæði fellt niður. Þannig er nú ekkert lagaákvæði til um þá skyldu hins opinbera. — Ég vildi láta þetta koma fram hér, ef hv. alþm. hefur ekki öllum verið kunnugt um þetta.

Þá kemur það til álita, hvort það sé siðferðisleg skylda ríkisins að sjá rektor Menntaskólans í Reykjavík fyrir húsnæði. Fer álit hæstv. Alþ. um það eftir því, hve hátt alþm. vilja meta nauðsynina á því, að rektorinn hafi húsnæði nálægt skólanum til þess að geta haft eftirlit með nemendum sínum, ekki aðeins í kennslustundum, heldur sem allra næst öllum stundum, sem nemendur eru í skólanum og við skólann, ekki aðeins við nám, heldur einnig fundahöld og samkomur, lestur eða annað. Ég fyrir mitt leyti tel þetta svo veigamikið atriði, að sjálfsagt sé að taka það til alvarlegrar athugunar, hvort ríkið eigi ekki, alveg sérstaklega af þessum ástæðum, að telja sér skylt að sjá rektor Menntaskólans í Reykjavík fyrir íbúð og þá nálægt skólanum, til þess að hann geti sem bezt rækt þetta eftirlit. Það má einnig segja, að það sé siðferðisleg skylda ríkisins að sjá rektornum fyrir íbúð, með tilvísun til þess, að það hefur alltaf verið venja og hefð að láta íbúð fyrir rektorinn fylgja Menntaskólanum í Reykjavík, sem lengi var eini menntaskóli landsins.

Að vísu má segja, að svo vel sé búið að rektor Menntaskólans í Reykjavík í launagreiðslum og að samkv. nýju launal. hafi honum verið svo bætt launin, að honum væri fært að annast það sjálfum þess vegna að sjá sér fyrir íbúð. En ekki ber því að gleyma, að fyrir þessa venju, sem ríkt hefur, að rektorar þessa skóla hafa allt frá fyrstu tíð haft íbúð í menntaskólahúsinu og ekki var fyrirsjáanleg nein breyt. á því, einmitt þess vegna hefur rektorinn, sem nú er búinn að starfa í því embætti við skólann í 16 ár, ekki haft hug á því að útvega sér íbúð, af því að hann áleit þá skyldu hvíla á ríkissjóði að sjá rektornum fyrir húsnæði. Og mér skilst eftir viðtali við hann, að honum hafi verið ókunnugt um, að lagaleg skylda til þessa hafi verið felld niður, þegar l. voru samþ. síðast um launakjör hans. Og þegar þess er gætt, að viðkomandi öðrum skólum ríkisins er það skylda ríkisins að byggja yfir skólastjórann, og jafnvel yfir kennara, þá er ekki óeðlilegt, að það sama gildi um rektor Menntaskólans í Reykjavík, að sjá eigi honum fyrir íbúð. Og þá væri réttast að hafa ákvæði um þetta í l., eins og áður var, til þess að þurfa ekki að vera að deila um það, hvort skyldur af ríkisins hálfu séu fyrir hendi í þessu efni eða ekki.

Samkv. upplýsingum og grg. frá hæstv. menntmrh., þá hefur hann vísað til þess, að hús fáist keypt, sem mun vera húseignin nr. 39 við Garðastræti, og hefur hæstv. menntmrh. óskað eftir heimild handa ríkisstj. til þess að verja allt að 650 þús. kr. úr ríkissjóði til kaupa á því húsi. — Fjvn. hefur fengið upplýsingar um þetta hús frá skrifstofu húsameistara ríkisins, sem mælir með því, að þessi eign verði keypt, og telur, að húsið sé á ágætum stað og hafi verið mjög vel vandað, þegar það var byggt. Hús þetta er nokkuð stórt, kjallari, tvær hæðir og ris, og er í grg. þáltill. talið, að nægilegt sé fyrir rektorinn að hafa til afnota til íbúðar efri hæðina og risið, en síðan megi leigja hitt út. Af þeim tilboðum, sem fyrir liggja, er talið, að þetta sé hagkvæmast að kaupa. En húsið á að kosta 650 þús. kr. Mér er kunnugt um það, að í raun og veru hefur enginn nm. áhuga á því, að greitt verði fyrir þetta hús 650 þús. kr., en þó hygg ég, að sumir nm. mundu vilja, að ríkið keypti húsið fyrir það, ef ekki væri um önnur úrræði að ræða í þessu máli. Ég fyrir mitt leyti er á móti því, að þetta hús verði keypt fyrir 650 þús. kr. Ég tel, að ef það væri keypt, mundi þurfa að borga 100 þús. kr. í aukakostnað, áður en hægt væri að nota húsið sem rektorsbústað, svo að vel væri. Ég tel ekki, að ríkið hafi þær skyldur að inna af hendi við rektorinn, að það ætti að leggja í slíkt. Geri ég ekki ráð fyrir að ræða það atriði meira strax, en býst við, að hv. minni hl. fjvn. ræði það frekar.

Það, sem meiri hl. fjvn. leggur til, er, að ríkisstj. sé falið að útvega rektor menntaskólans íbúð svo fljótt sem verða má í nágrenni við skólann og að ríkisstj. sé falið að reyna að ná samkomulagi við biskup um, að rektorinn geti fengið húsið „Gimli“ til afnota. Með því mundi verða uppfyllt það skilyrði, sem ég tel mestu varða í þessu máli, að rektorinn geti haft íbúð nálægt skólanum til þess að geta haft sem bezta aðstöðu til að hafa daglegt eftirlit með þeim hópi ungs fólks, sem honum er trúað fyrir að uppfræða. Auk þess mundi með því móti fást, eftir því sem rektorinn sjálfur upplýsir, ein stofa í þessu húsi, sem hægt væri að hafa til kennslu og til fundarhalda fyrir nemendur, sem hafa ekkert athvarf fyrir félagsstarfsemi sína. Það væri hagur fyrir þá að hafa hús svona nálægt skólanum til þessa. Þetta eru allt saman meginatriði fyrir mér. — Ég viðurkenni, að það er ekki sársaukalaust að biðja biskupinn að fara út úr þessu húsi. Ég hef rætt um þetta mál við hann. Hann hefur bent á, að hann sé nýfluttur þangað. En ég geri ráð fyrir, að hann taki vel í þetta mál, þegar honum er bent á, hve mikils virði þetta er fyrir uppvaxandi kynslóðina. — En við leggjum til í meiri hl. n., að biskupi verði samtímis séð fyrir íbúð annars staðar í bænum, er samboðin sé biskupi landsins, svo að á engan hátt verði gengið á hans rétt. — Ég vil upplýsa það jafnframt því, sem ég hef fram tekið, að samkv. l. hefur ríkisstj. ekki heldur neinar skyldur gagnvart biskupi landsins um að útvega honum húsnæði. Hins vegar virðist, að þar sem samkv. l. hvílir skylda á ríkinu til að byggja yfir presta landsins, þá sé eðlilegt, að þróunin verði sú, að skylda komi á herðar ríkisins um að sjá æðsta manni kirkjunnar fyrir íbúð. Einnig má benda á það í þessu sambandi, að ríkinu ber skylda til að byggja yfir margra lækna og héraðsdómara, þó að það yrði náttúrlega kostnaðarsamt, ef ríkið ætti að byggja yfir flesta eða alla starfsmenn ríkisins.

Meiri hl. fjvn. leggur því til, að þáltill. á þskj. nr. 93 verði samþ. með þeim breyt., sem fram koma á þskj. nr. 110, þ.e. að tillgr. orðist um, eins og þar hermir, svo og, að fyrirsögn till. verði umorðuð, eins og kemur fram í 2. tölul. í brtt. meiri hl. n. á þskj. nr. 110.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar, en vil aðeins taka það fram, að það, sem fyrir mér og meiri hl. n. vakir, er fyrst og fremst að tryggja umsjón rektorsins yfir nemendunum í svo víðtækum mæli sem frekast er unnt, og við teljum, að ekki sé önnur leið heppilegri til þess en hér er farið fram á í brtt. meiri hl. n. Vænti ég þess, að brtt. meiri hl. nefndarinnar á þskj. nr. 110 verði samþ.