28.02.1947
Efri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 446, sem miða að því að fella burt úr frv. nokkur ákvæði varðandi innflutning sauðfjár, þau er ég tel ekki eiga heima í þessu frv. Mþn., sem samdi þetta frv., hafði í huga fjárskipti og jafnframt innflutning á erlendu fé í trausti þess, að blendingarnir yrðu síður móttækilegir fyrir sjúkdóma. Ég legg til, að síðari hluti 2. gr. falli niður, enda er síðar í frv. gert ráð fyrir að fella úr gildi öll þau lög, er snerta innflutning sauðfjár. Enn fremur legg ég til að fella niður 7. kafla, sem hvorki er fugl né fiskur, þar sem hann gerir ráð fyrir einangrunarstöð fyrir innflutt fé. Er merkilegt, að slík ákvæði skuli standa eftir í frv., um leið og bannað er að flytja inn erlent fé, og finnst mér þetta því illa samrýmast. 3. brtt. á þskj. 446 miðar að því að fella niður l. nr. 75 27. júní 1941 og l. nr. 88 9. júlí 1941, en með 48. gr., eins og hún er nú, eru öll lagaákvæði um innflutning sauðfjár niður felld. Til vara er svo brtt. um að fella niður l. nr. 45 19. júní 1933 og reglur nr. 6 20. jan. 1936. Ég vil benda á, að ef menn vilja halda síðari hluta 2. gr. og 7. kafla, þá má ekki fella niður ákvæðið um blendingsræktun, því að ef ráð er gert fyrir innflutningi fjár, má ekki fella burtu allt eftirlit með honum og sleppa blöndun fjárins lausri við hvern sem er, eftir hans eigin geðþótta.