20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (4631)

114. mál, Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu

Jónas Jónsson:

Ég get nú ekki sannfærzt af ræðu hv. 1. þm. Árn. um það, að það hefði ekki verið eðlilegt að láta álit Ólafs Sigurðssonar fylgja hér með, því að hann hefur nokkuð langa reynslu í þessum málum og hefur komið á staðinn. Og þegar hann mælir með því, að þetta verk sé framkvæmt, þá er augljóst, að hann veit það, sem þessi ungi maður, sem n. vitnar til, veit ekki, — Ólafur Sigurðsson veit, hvernig skilyrðin eru þarna við Laxá. Þess vegna er það, að álit Ólafs hefur þýðingu í þessu máli, en hins mannsins ekki, sem aldrei hefur séð þennan stað og þekkir ekki ána og veit ekkert um málið af því, sem hann þyrfti að vita, ef hans álit ætti að taka til greina að einhverju leyti. –Laxá rennur úr Mývatni og niður hjá Laxamýri, og þar er sama vatnið í henni, sem rennur í henni ofar — þannig að það þarf ekki vísindamann með 110 þús. kr. útgerðarkostnaði til þess að segja okkur, að það er sama vatnið í henni um allan farveginn, en ekki eitrað í efri hlutanum, en gagnlegt til laxauppeldis í hinum neðri hluta árinnar. Þess vegna er ekki rannsóknar þörf í þessu efni.

Hv. þm. Barð. minntist á kostnaðaratriði málsins. Ef sá hv. þm. væri nógu kunnugur á staðnum, vissi hann, að vegna þeirra mannvirkja, sem fyrirhuguð eru þarna á staðnum, auk þeirra, sem búið er að gera þar, er það skylda ríkisins, sem hefur eyðilagt möguleikann fyrir laxveginn með virkjun, að bæta úr því. Um það geta ekki orðið deildar meiningar. — Annars er ég þakklátur hv. þm. Barð. fyrir part af hans ræðu, sem laut að því, hver kostnaður virðist vera orðinn af þessum nýja manni, sem hér er kominn til starfa hjá okkur í laxveiðimálunum. Það er gert ráð fyrir því, að strax á fyrsta starfsári hans fari kostnaðurinn við útgerð hans á annað hundrað þús. kr. En ég hygg, að hann hafi farið með 40 þús. kr. í rannsókn á Lagarfljóti, sem ég veit ekki, hvernig hann hefur farið að því að eyða, þar sem hann er launaður af ríkisfé. Og ég mun væntanlega bera fram fyrirspurn á þinginu um það, hvað hafi sérstaklega hafzt upp úr þessari rannsókn og hver kostnaðurinn hafi verið við hana.

En ég vildi óska, að hv. þm. Barð. með sinni miklu fjármálaútsjón vildi skýra það með nokkrum orðum, hvað þessi ungi maður á að gera, sem ráðinn er fyrir hátt kaup til þess m.a. að rannsaka hrygningarstaði, ef hann á ekki fyrir sín föstu laun að skera úr um þessi atriði. Það gæti verið gott, að þessi ráðunautur, sem situr hér í Reykjavík, nema rétt um sumarmánuðina, fengi nú eitthvað að gera, og væri æskilegt, að hann vildi réttlæta tilveru sína með því að fara nú á þennan stað þarna í Þingeyjarsýslu og athuga Laxá, og er furðulegt, ef hann vill ekki gera það.

Það virðist augljóst, að hv. þm. Barð. sé fíkinn í að fá þennan ráðunaut til að starfa, og vildi ég því mæla með því, að hv. þm. Barð. léti hann fara um Barðastrandarsýslu — því að sennilega eru líka laxár þar — til þess að athuga árnar, og léti Barðstrendinga borga kostnaðinn.