26.02.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (4641)

75. mál, bætt starfsskilyrði á Alþingi

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað án fyrirvara undir nál. á þskj. 432, þar sem mælt er með aðaltill., sem hér liggur fyrir. Þess vegna er það auðvitað mál, að ég tel þörf á að reyna að bæta starfsskilyrði alþm. og annarra, sem við Alþ. starfa hér í þinghúsinu, eins og till. greinir. En þær umr., sem hér hafa farið fram af hálfu hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. forsrh., finnst mér að sumu leyti dálítið utan við efni þessarar till., því að aðaltill. er ekki um annað en að bæta starfsskilyrði í alþingishúsinu, og þegar svo er komizt að orði, tel ég víst, að átt sé við það hús, sem Alþ. situr nú í, enda tel ég víst, að afla þyrfti víðtækari heimildar, ef byggja ætti nýtt þinghús. Þó að ég sé því mjög meðmæltur, að reynt sé svo sem hægt er og þegar í stað að bæta starfsskilyrði hér í þinghúsinu, vil ég mæla á móti, að gert yrði mikið umrót fyrst um sinn, og af sérstakri ástæðu, sem ég vil benda á.

Það hefur staðið til, síðan lýðveldið var stofnað, að semja nýja stjskr. fyrir hið íslenzka lýðveldi. Ég skal engu spá um það, hvernig hún verður, en vel getur komið til mála, að í henni verði skipan Alþ. breytt, þm. fækkað og þingið aðeins ein málstofa, og ef það yrði, hygg ég, að alþingishúsið, eins og það nú er, mundi fullnægja þörfum þingsins. Um þetta atriði ætla ég ekki að ræða nánar.

Ég vil þakka allshn. fyrir, að hún hefur mælt með viðbótartill., sem ég bar fram á þskj. 120, áður en ég kom í n., um að skora á stjórnina að nota heimild til þess að koma upp bústað fyrir þá þm., sem eiga heimili utan Reykjavíkur. Það er sjálfsagt svo, að aðstaða þm. hefur frá upphafi verið misjöfn, þeirra, sem áttu heimili hér í Reykjavík, og hinna, sem áttu heimili utan bæjarins, og geri ég ráð fyrir, að aðbúð utanbæjarþm. hafi verið misjöfn. Það var líka fyrir allmörgum árum viðurkennt, að jafna þyrfti kjör þm., og ætla ég, að það hafi verið árið 1933, sem þfkn. tók það upp hjá sjálfri sér að ætla utanbæjarmönnum nokkurn húsaleigustyrk. Þetta átti ekki neina stoð í l., en þó varð samkomulag um þetta. Síðan kom stríðið með öllum sínum afleiðingum, og þá uxu erfiðleikarnir á því fyrir utanbæjarþm. að fá húsnæði — ekki sízt þannig húsnæði, eins og þm. þurfa að hafa, með húsgögnum og fyrir stuttan tíma. Þá var það, að þm. báru fram á sumarþinginu 1942 áskorun til stjórnarinnar þess efnis að sjá þm. fyrir húsnæði yfir þingtímann. Stjórnin varð við þessu á þann hátt, að hún útvegaði nokkur herbergi á Hótel Borg fyrir þm., sem ekki höfðu aðstöðu til að sjá sér sjálfir fyrir húsnæði. Mér fyrir mitt leyti þótti laust um hnútana búið, og því var það, að á haustþinginu 1942 bar ég fram frv. um breyt. á l. um þingfararkaup alþm., sem varð að l. 13. febrúar 1943. Þar var ákveðið að reisa þingmannabústað og stjórninni heimilað að taka hús á leigu, á meðan ekki kæmist upp þingmannabústaður, en tíminn leið svo það ár, að ekki bólaði á neinum framkvæmdum.

Ég hygg, að það hafi verið á þingi 1944, sem ég bar svo fram brtt. við fjárl., um það, að stjórnin fengi sérstaka heimild til að taka fé úr ríkissjóði til að koma þessu húsi upp eða kaupa hús. Sú till. var samþ. mótatkvæðalaust, en alls engar framkvæmdir urðu af hendi stjórnarinnar.

Svo var það, að á þinginu, sem stóð frá hausti 1944 og alllangt fram á árið 1945, þá bar stjórnin fram lagafrv. um að fá heimild til að taka lán til húsbygginga. Það frv. var samþ., og árangurinn af því var viðbót við Arnarhvolsbygginguna. Ég bar fram brtt. við þetta frv., um, að heimildin skyldi líka gilda um lántöku til þess að koma upp þingmannabústað. Sú brtt. var samþ. Þessi l. eru nr. 59 frá 12. marz 1945. Það er því þrisvar sinnum, sem Alþ. hefur látið í ljós vilja sinn um, að bústaður fyrir utanbæjarþm. yrði reistur, en framkvæmdir hafa ekki fengizt enn þá.

Nú er þessi brtt., sem ég hef borið fram og allshn. hefur fallizt á, um það, að minna stjórnina á þessa heimild í fjórða sinn, bæði almennu heimildina og lántökuheimildina í l. síðar, og hygg ég það sízt vanþörf.

Ég er upphafsmaður að þessu, og kann að vera, að þingbræðrum mínum finnist þetta bera vott um, að ég sé að vinna fyrir sjálfan mig ásamt öðrum, en ef reikna má með eitthvað svipuðum hraða á þessu framvegis eins og hefur verið hingað til og með tilliti til aldurs míns, þá eru ekki miklar líkur til þess, að slíkur bústaður komi mér að notum persónulega, enda er það ekki af þeim sökum, sem ég hef barizt fyrir þessu máli, heldur af því, að mér finnst það fullkomin nauðsyn. Þegar ég kom fyrst á þing, var tiltölulega auðvelt að fá herbergi úti í bæ yfir þingtímann og með sæmilegum húsgögnum. Nú vita það allir, að þetta er ekki hægt lengur, nema þá með því að halda þeim allt árið, og þá að sjálfsögðu án húsgagna. Þetta úrræði, sem af hæstv. fyrrv. ríkisstj. hefur verið gripið til, að leigja herbergi handa alþm. á Hótel Borg, held ég, að geti ekki verið nema bráðabirgðaúrræði. Skal ég ekki lasta það hótel. En það er bara mín skoðun, að þó að hótel geti verið gott til þess að gista þar og búa í eina viku eða svo, þegar menn eru á ferð, þá sé hótel, hvaða hótel sem er, með öllu óhæfilegt fyrir menn til þess að búa þar hálft árið, hafa eitt herbergi þar sem eins konar heimili sitt og eiga að starfa þar. Það finnst mér, að ég geti fullyrt án þess að lasta þetta sérstaka hótel á nokkurn minnsta hátt. Það er mér því sérstök ánægja, að öll allshn. hefur séð sér fært að mæla með till. minni, og ég vona, að sama eindrægnin um hana ráði hér á Alþ., og það hljóti þá að róta eitthvað við ríkisstj. Það er þriðja stjórnin, sem fær slíkar áminningar, og væri vel, ef hún reyndist betur í þessu efni en hinar tvær.