11.03.1947
Sameinað þing: 35. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (4678)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það hefur verið ljóst nú um skeið, að mikil þörf er fyrir eflingu atvinnuvega í Stykkishólmi, og þó sérstaklega sjávarútveg, vegna aðgerða, sem þeir hafa með höndum þar, einkum vatnsveitu, rafmagnsveitu og hafnarmannvirkja. Hreppsfélagið sótti á sínum tíma um einn af hinum nýju togurum, en fékk engan. Var þá leitað fyrir sér um kaup á öðrum togara. Eftir töluverðar eftirgrennslanir voru fest kaup á eldri togara, Viðey, fyrir 1200,000,00 kr. Er talið, að hér sé um góð kaup að ræða. En til þess að úr þessum kaupum geti orðið, þarf ríkissjóður að ábyrgjast lán, allt að 1 millj. kr., til þess að hægt verði að koma þeim í framkvæmd. Það hafa verið bollaleggingar í Stykkishólmi um, hvernig togarinn verði gerður út, hvort togarinn verði gerður út af hreppsfélaginu sjálfu eða af hlutafélagi. Það er óskað eftir því, að það verði heldur hlutafélag, og hefur í því skyni verið stofnað hlutafélag í Stykkishólmi, þar sem hreppsfélagið er stærsti hluthafinn. En ég hef orðið þess var hér í hv. Alþ., að sumir hv. þm. telja ekki fært að veita ríkisábyrgð slíku félagi, jafnvel þó að hreppsfélagið sé stærsti hluthafinn. En eins og hv. þm. sjá, hef ég haldið báðum þessum leiðum opnum, og mun fjvn. taka ákvörðun um það, hvora leiðina skal fara. Það er ekki skilyrði, að það verði hlutafélag, en þeir mundu missa eitthvað af fjármagni, ef sú leið yrði ekki farin.

Ég vil svo leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn., og vænti þess, að hún afgreiði málið, svo fljótt sem kostur er.