17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (4726)

53. mál, meðferð opinberra mála

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ræða hæstv. dómsmrh. bar það með sér að sumu leyti, að hann var fjarverandi, þegar ég flutti mestan hluta ræðu minnar. Ég hafði getið þess, að ástæðan fyrir því, að ég flutti þessa þáltill., væri tvíþætt, annars vegar, að ég taldi — og mér skilst, að allir séu mér sammála um það —, að núgildandi löggjöf um meðferð opinberra mála sé að verulegu leyti úrelt og þarfnist gagngerðrar endurskoðunar, og hins vegar, að ég tel, að endurskoðun á gildandi réttarfarsl. muni geta orðið þess valdandi, að meiri hraði og miklu meira öryggi yrði í meðferð málanna, og þess vegna hef ég bundið mig við það frv., sem samið var 1939, að í því er ákæruvaldið tekið úr höndum dómsmrn. og sett í hendur sérstaks saksóknara í því trausti, að sá háttur, sem oft hefur verið hafður á um meðferð opinberra mála, verði ekki hafður, þar sem búast má við, að meira aðhald verði, sérstaklega á dómurum, ef um sérstakan opinberan saksóknara er að ræða, heldur en ef ákæruvaldið er í höndum dómsmrn.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að meginhluti grg. þeirrar, sem fylgdi þáltill. minni, væri gagnrýni og ásakanir á vissan embættismann hér í Reykjavík. Hann sagði, að ástæða væri til að rannsaka það nánar, ef þær ásakanir reyndust réttar. Ég tel, að það, sem átt hefur sér stað í þeim málum. sem ég nefndi, sé ekki annað en það, sem átt hefur sér stað viðkomandi öðrum slíkum málum hér á landi. Ég tel varhugavert að taka þennan mann út úr í þessu sambandi. Gangur réttarfarsmála er oft svona slælegur hér á landi, og ég tel sjálft fyrirkomulagið eiga sök á því, og breyt. á fyrirkomulaginu ætti að geta orðið til bóta í þessu efni.

Eitt atriði var í ræðu hæstv. dómsmrh., sem ég sé mér ekki annað fært en mótmæla mjög harðlega. Hann sagði, að hæstiréttur hefði nýverið sett ofan í við verðlagseftirlitið fyrir vanrækslu í starfi sínu, og skildist mér á honum, að jafnvel gæti komið til greina að athuga hverjir, sem þar starfa, eigi sök á henni. Hér mun hann eiga við það, að nýlega var kveðinn upp dómur í máli G. Helgason & Melsted. Ég þykist sjá á ummælum hæstv. dómsmrh., að hann hafi ekki lesið forsendur dómsins, heldur aðeins ummæli vissra blaða um hann. Þessi blöð túlkuðu það þannig, að um vanrækslu hjá verðlagseftirlitinu væri að ræða. En í forsendum hæstaréttar var ekki orð um það efni — ekki orð. Hæstaréttardómurinn var þannig, að lækkunin á sektinni hjá þessu fyrirtæki stafaði af því, að það leið nokkur tími frá því er verðlagseftirlitinu var kunnugt um, að ef til vill mundi um brot að ræða af hálfu þessa fyrirtækis, og þangað til fyrirtækið var kært. En í forsendum hæstaréttar er ekki að finna eitt orð til ásökunar í garð verðlagsstjórans, og er þó hæstv. dómsmrh. kunnugt, að hæstiréttur er óspar á áminningar, ef málsmeðferð í undirrétti hefur ekki verið svo sem honum bezt líkar. En ástæðurnar til þess, að þessi dráttur varð á að senda nefndu fyrirtæki kæru, voru þær, að áður en send væri kæra, þurfti að fá úrskurð um, hvort hér væri um brot að ræða eða ekki, en þann úrskurð var ekki hægt að fá nema með því að fá upplýsingar úr annarri heimsálfu, og þeirra upplýsinga var aflað með aðstoð íslenzka ræðismannsins í New York. Það var ekki fyrr en þetta atriði lá fyrir, að hægt var að taka ákvörðun um að kæra fyrirtækið. Þegar þetta lá fyrir, þá var kæran send sakadómaranum í Reykjavík. Ég skal ekki véfengja réttlæti þessa dóms hæstaréttar. En þetta fyrirtæki hafði þær málsbætur, að það hafði snemma, fyrst allra fyrirtækja, sem kærð voru samtímis, játað þann verknað, sem síðar var kært fyrir, þó að þetta fyrirtæki vildi halda því fram, að þessi verknaður væri ekki saknæmur, og verðlagsráð treysti sér ekki til að halda því fram, að verknaðurinn væri saknæmur. En til þess að geta vitað, hvort hann væri saknæmur, varð að fá upplýsingar um réttarstöðu fyrirtækis í Ameríku. Þær upplýsingar var ekki hægt að fá nema með aðstoð verðlagsyfirvalda í því landi. En þegar þær upplýsingar lágu fyrir og ástæða þótti til kærunnar, þá var hún afgreidd þegar í stað. Í fyrsta lagi er það rangt hjá hæstv. dómsmrh. að hæstiréttur hafi sett ofan í við verðlagseftirlitið fyrir vanrækslu, og í öðru lagi er það rangt hjá honum, að um vanrækslu hafi verið að ræða hjá verðlagseftirlitinu. En ég get fallizt á, að það hafi verið rétt að lækka sekt þessa fyrirtækis, þar sem það hafði þegar játað að hafa framið verknaðinn, jafnvel þótt verðlagsstjóri teldi sig ekki þess umkominn að skoða hinn umrædda verknað sem brot, þar sem nægar upplýsingar voru þá ekki fyrir hendi og afla þurfti gagna, til þess að hægt væri að mynda sér skoðun. En þegar þau gögn lágu fyrir, þá var þetta fyrirtæki kært á sama hátt ásamt 12 öðrum.

Ég læt þetta svo nægja til að leiðrétta það, sem hæstv. dómsmrh. sagði. Honum virðist það eitt kunnugt, sem kom í ljós í tveimur dagblöðum, en honum virðist ekki kunnugt um efni og orðalag forsendna hæstaréttardómsins.