05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (4960)

331. mál, verbúðir

Flm. (Pétur Ottesen):

Það er á það drepið í grg., sem fylgir þessari þáltill., að það hefur komið í ljós nú, þegar þurfti að fara að ráðstafa bátaflotanum fyrir þá vertíð, sem hefst upp úr næstu áramótum, að það skortir mjög á um það, að séð hafi verið fyrir því, að sú aðstaða væri fyrir hendi í verstöðvunum, að hægt væri að fá húsrúm fyrir allar þær skipshafnir, sem þar þurfa að dveljast. Og sízt af öllu er þar rúm til þess að salta þar afla, ef til þess þarf að taka að nota þá verkunaraðferð. En svo framarlega að ekki rætist úr um fisksölu á enskum markaði, eru miklar líkur til þess, að salta verði það af fiskaflanum, sem á land berst, sem ekki er hægt að verka í hraðfrystihúsunum, sem fyrir eru. En í flestum þeim húsum er þannig ástatt, að ekki er hægt að verka nærri allan fiskinn, sem á land berst, þar sem þau eru, með því að hraðfrysta hann.

Þetta mál er komið í ákaflega mikinn eindaga, því að nú er komið nokkuð fram í desembermánuð, en vetrarvertíð hér við Faxaflóa hefst nú um áramótin, og sama gildir um vetrarvertíð í öðrum vetrarvertíðarstöðvum. Þess vegna þarf hér skjótra aðgerða við, því að annars verður nokkur hluti af bátaflotanum af þessum ástæðum útilokaður frá því að geta stundað veiðar á komandi vertíð.

Þáltill. þessi er fyrst og fremst miðuð við það, að ríkisstj. greiði fyrir einstaklingum, þ.e.a.s. útgerðarmönnum og sjómönnum, í því, að úr þessu vandræðaástandi verði bætt á þeim örskamma tíma, sem nú er eftir, þangað til vetrarvertíð hefst. Hefur mér dottið í hug, að með því einu móti væri hægt að bæta úr þessu til þess að auka húsakostinn, ef hægt væri að nota braggabyggingar, sem til eru enn þá. Það er fljótlegt að rífa þessar byggingar og koma þeim upp aftur. Þess er og að vænta, þar sem þessar byggingar hafa verið í höndum n., sem ríkisstj. hefur skipað til þess að hafa meðgerð með þær, að ríkisstj, hafi aðstöðu til þess að greiða fyrir um slíka framkvæmd málsins. Þáltill. er sem sagt fyrst og fremst miðuð við það, að ríkisstj. greiði úr þessum vanda á þennan hátt. Hins vegar er í þáltill. að því vikið, að ef það sýndist óhjákvæmilegt, að ríkisstj. hefði á einhverjum stað beinar framkvæmdir í þessu máli, þá sé ríkisstj. heimilt að koma slíkum byggingum upp fyrir fé ríkissjóðs.

Það er vitað, að allmikill hluti bátaflotans stundar þorskveiðar á þessum árstíma hér við Faxaflóa, og hingað sækja útgerðarmenn með báta sína frá ýmsum öðrum verstöðvum umhverfis landið. Af þessum ástæðum hafa ekki nærri allir bátaútvegsmenn getað fengið aðstöðu til þorskveiða á vetrarvertíðinni hér við Faxaflóa. Mér er sagt, að þetta gildi um allar verstöðvar hér — og þar á meðal Reykjavík og Hafnarfjörð, þar sem miklar slíkar byggingar eru þó —, að það sé miklum vandkvæðum bundið, að bátar geti fengið hér inni til veiða, einmitt af þessum ástæðum, sem tilgreindar eru í grg. þáltill. Á Akranesi er mér kunnugt um það, að þar hefur verið leitazt fyrir hjá tveimur útvegsmönnum, sem eru stærstu útgerðarmenn staðarins, um viðlegupláss fyrir allmarga báta, sem þeir hafa ekki getað sinnt. Hefur það einkum stafað af þessum vandkvæðum, sem ég hef minnzt á, því að nú skortir ekki á Akranesi aðra aðstöðu. Þar mundi vera hægt að leggja með nokkurn veginn öruggum hætti upp afla af fleiri bátum en þeim, sem þar eru heima fyrir. Svipað hefur það einnig verið í Reykjavík og Hafnarfirði, að þar hafa verið gerðar hafnir og lendingarbætur, en samt ekki hægt að bæta við fleiri bátum. Ég hef þess vegna, með tilliti til þess, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, vakið athygli á þessu efni á þingi með því að flytja þessa till., ef ástæða þætti til, að stjórnin gripi hér inn í.

Hér væri um nokkurt fjárhagsmál að ræða, og þess vegna á till. að sjálfsögðu að fara til fjvn. Ég vænti, að fjvn. muni afgreiða þessa till. fljótt frá sér, svo að ekki þurfi á henni að standa. Ég geri það að till. minni, að málinu verði að umr. lokinni vísað til fjvn.