10.12.1946
Sameinað þing: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (4968)

332. mál, lögræði

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það eru allt að 30 ár síðan l. um lögræði voru sett. Þar er gert ráð fyrir því, að hvern þann mann, sem þurfi að svipta sjálfræði og fjárráðum eða lögræði, þurfi að svipta mörgum almennum borgaralegum réttindum, þó að tilefnið sé annaðhvort andleg eða líkamleg bilun að vissu leyti, og virðast því ákvæði l., eins og þau eru nú, ekki framkvæmanleg nema með því að ráðast inn á fjöldamörg óviðkomandi svið borgaralegra réttinda. Hér er lagt til, að lögræðinu verði breytt við gagngera endurskoðun á þann veg, að frjálsræði manna verði ekki skert nema að því leyti, sem minnst verði komizt af með til þess að firra aðra hættum og vandræðum.

Landlæknir hefur tjáð mér, að það sé algengt, að svipta þurfi mann sjálfræði, vegna þess að hann gangi með smitandi sjúkdóm. Þess eru og mörg dæmi, að viðkomandi maður vill ekki sjálfur láta leggja sig á sjúkrahús. Til þess að geta komið því í framkvæmd þarf þá að svipta hann sjálfræði, en það er ekki eins auðvelt og ætla mætti. Til þess að koma þessu í kring þarf að fá úrskurð héraðsdómara um sjálfræðissviptinguna, en það er ekkert í l. um það, hver eigi að hefjast handa um sviptingu sjálfræðis. Það eru heldur engin ákvæði í l. um það, hvaða meðferð slík sjálfræðissvipting eigi að hlíta í héraði.

En afleiðingarnar af þessu eru þær, að eftir að héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um sjálfræðissviptingu, eiga stefnuvottar að birta honum úrskurðinn, enn fremur á hann að birtast í Lögbirtingablaðinu. Einnig skal innrita hann í þinglýsingarbókina og lýsa honum síðan í heyranda hljóði á varnarþingi þess, sem sjálfræði var sviptur. Enn fremur er tekið fram, að ef sá, sem lögræði er sviptur, á fasteign eða skrásett skip eða rekur atvinnu, sem getið er í verzlunarskrá, þá skuli þinglýsa úrskurðinum um lögræðissviptinguna á varnarþingi fasteignar eða skips og láta aths. um hana í verzlunarskrána. Þess vegna er það, að þó að brýn nauðsyn sé til lögræðissviptingar, þá kveinka flestir sér undan því að þurfa að gera slíkar ráðstafanir sem þessar langt út yfir það svið, sem þörf heimtar. Eins er þetta t.d. um svo forfallinn drykkjumann, að hann þykir ekki lengur fær um að fara með fjárráð fjölskyldu sinnar. Ef á að koma honum á drykkjumannahæli, honum sjálfum til heilsubótar, en hann fæst ekki til þess, þá er nauðsynlegt að svipta hann sjálfræði. En þetta eitt ætti að vera nóg, að því er þennan veikleika hans snertir, en ráðast ekki inn á önnur svið borgaralegra réttinda hans.

Í sumum l., svo sem berklavarnarl., eru sérstök ákvæði, sem heimila sjálfræðissviptingu í tilefni af sérstökum sjúkdómum. Öll slík sérstök ákvæði í einstökum l. ættu að hverfa, og ætti sjálfræðissvipting og lögræðissvipting einungis að vera heimiluð almennt vegna andlegra eða líkamlegra sjúkdóma án þess að tilnefna þá sérstaklega, því að slíkt er vitanlega meiðandi, þegar það er tekið fram í ákveðnum lögum.

Ég held það liggi í augum uppi, að þessi l. þurfa endurskoðunar, því að það eru sjálfsagt margir, sem reka sig á það, að gildandi ákvæði eru ýmist allt of víðtæk eða í flestum tilfellum of óhnitmiðuð, til þess að þau eigi við í mörgum tilfellum. L. þarf að endurskoða vandlega, og ég legg ríka áherzlu á það, að til þess séu valdir hinir færustu menn, því að þessi l. fjalla um viðkvæmt málefni, Sjálfsagt er að fá til þess t.d. landlækni og færan lögfræðing, ef til vill dómstjóra hæstaréttar, og að sjálfsögðu sérfræðing í taugasjúkdómum, því að í mörgum tilfellum er sjálfræðisskerðing framkvæmd í sambandi við slíka sjúkdóma.

Ég held, að það sé svo rétt, að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn., eins og hinu fyrra máli.