22.01.1947
Sameinað þing: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (4997)

275. mál, ljóskastarar á skipum

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Í sambandi við það, að síðasti ræðumaður var að tala um fund Landssambands íslenzkra útgerðarmanna og fund hjá Slysavarnafélagi Íslands, vil ég geta þess, að þessi till. mín er hér fram komin 9. þ.m., eða áður en þessir fundir voru haldnir. Mér finnst þetta atriði að vísu ekki skipta neinu máli, en get þess þó að gefnu tilefni.

Það gætti sama skilnings hjá þm. Barð. nú og oft hefur komið fram áður. Hann sagði, að hér væri um auglýsingu að ræða. Mér finnst nú sitja sízt á honum að vera með skæting eða tala um auglýsingastarfsemi. Og ég get fullvissað þennan hv. þm. um það, að þessi till., sem er flutt af mér, er eingöngu komin fram vegna þess, að ég tel hér um stórkostlega þörf að ræða. Það getur hver, sem vill, kallað það auglýsingu eða annað slíkt. Ég ætla ekki að ræða við þennan hv. þm. um það, hvaða flokkar tapa mestu fylgi, en það er varla hægt að vænta þess, að flokkur, sem á slíkan málssvara sem þennan hv. þm. vinni mikið á. Ég get fallizt á þau rök, sem hér hafa verið fram færð, að ekki hafi verið hægt að nota leitarljós á stríðsárunum, en það hefur nú ekki alltaf verið styrjöld, og svo er henni nú lokið, sem betur fer, og það á árinu 1945, og samt eru leitarljósin ekki komin ennþá.

Þm. Barð. ræddi um, að aflvélar skipanna væru ekki nógu stórar fyrir þessi tæki. Nú er þessum þm. kunnugt um, að í nýju skipunum eru mótorvélar og auðvelt að hafa stærri dynamó, svo að slíkt ætti ekki að vera til fyrirstöðu. Það, sem þessi þm. hafði eftir mér um slysið á Maí, er annaðhvort rangfært eða misskilið, en ég sagði aðeins það, sem ég hef eftir skipverjum sjálfum, að meiri möguleikar hefðu verið á björgun, ef leitarljós hefðu verið á skipinu.

Ég ræði þetta svo ekki frekar, nema tilefni gefist, en vænti þess, að till. verði samþ.