06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (5010)

278. mál, tollur af tilbúnum húsum

Flm. (Hermann Jónasson):

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er gamall kunningi hér og mönnum kunnugt. Eins og vitað er, var samþ. heimild á síðasta þingi til þess að gefa eftir þessa tolla, sem hér er um að ræða. Þeir, sem flytja inn þessi hús, sem búizt er við, að tollar yrðu gefnir eftir á, gerðu sér áreiðanlega vonir um það og höfðu fyllstu ástæðu til að gera sér vonir um það, að tollurinn yrði gefinn eftir, eins og heimild var til gefin. Það, sem mælir með því að gefa eftir þennan toll, og þau rök, sem færð voru fram fyrir því, þegar heimildin var samþ., voru þau, að almennur húsnæðisskortur er hér í þessum bæ, en vitað mál, að þeir tollar, sem gilda um unnið efni, eru við það miðaðir að vernda íslenzkan iðnað. En þegar þess er gætt, að íslenzkir iðnaðarmenn geta ekki annað þeim störfum, sem þarf í þágu húsnæðisins, er ekki gengið á rétt þeirra með því, að þessi tollur sé lækkaður niður í það, sem er af óunnu efni. Þegar þess er gætt, að ekki er gengið á rétt íslenzkra iðnaðarmanna með því að færa tollinn niður í það, sem er af óunnu efni, þá er fyllsta ástæða til að nota þá heimild, sem hér var gefin, sérstaklega þegar þess er gætt, að þeir, sem byggðu þessi hús, hafa orðið fyrir tvenns konar óhöppum. Þeim var fyrirskipað að hafa dýra kjallara undir íbúðunum, sem þeir byggðu, og stafaði það frá ákvæði, sem er í byggingarsamþykktinni og Reykjavíkurbær taldi sér ekki heimilt að víkja frá, en kjallararnir hafa orðið sérstaklega dýrir og húsnæðið þar af leiðandi. Enn fremur hefur það komið til, sem var ókunnugt, þegar þessi samþykkt var gerð, að gengi sænsku krónunnar hækkaði um allt að 20% og sá kostnaður kom í ofanálag á húsbyggingarnar frá því, sem reiknað hafði verið með í upphafi. Okkur virðist þess vegna flm., að nú sé enn ríkari ástæða til þess en áður, þegar þessi samþykkt var gerð á síðasta þingi, að fella niður þennan toll, og því er till. flutt. Vænti ég þess, að ekki þurfi frekari grg. af minni hendi fyrir þessari till., og vona, að hún fái einróma samþykki hér á Alþ., því að það eitt væri í samræmi við þá heimild, sem samþ. var á síðasta þingi, eins og nú standa sakir.