13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (5031)

281. mál, landhelgi Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég vildi aðeins taka það fram, að ég tel geta komið til greina að segja upp þessum samningi, og það er vissulega eitt af því, sem hlýtur að verða höfuðefni þeirra athugana, sem fyrir liggja í málinu. Hins vegar hef ég ekki trú á því, að það sé rétt, sem hv. þm. Str. segir, að það væri nauðsynlegur undanfari þessa máls, að það yrði borið undir Sameinuðu þjóðirnar. Ég hef ekki trú á því, að það hafi þýðingu fyrir Íslendinga að bera þetta mál upp fyrir Sameinuðu þjóðunum sem sitt sérmál, heldur yrði að taka það upp á þeim grundvelli að reyna að opna hliðið hjá öllum þjóðum, sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta og Íslendingar í þessu efni. Yrði því þá slegið föstu í eitt skipti fyrir öll, sem nú er deilt um, hver alþjóðalög séu í þessum efnum. Þá yrðu settar ákveðnar reglur um alþjóðalög, sem yrðu þá bindandi fyrir alla, en ekki sérstaklega fyrir Íslendinga, heldur fyrir allar þjóðir, og ef slíkt næði fram að ganga, mundi þar af leiða, að allir samningar, sem væru þar á móti, féllu af sjálfu sér niður, um leið og slíkt samkomulag kæmi.