13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (5032)

281. mál, landhelgi Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. — Það eru aðeins fáein orð í sambandi við þessar umræður. Í sambandi við brtt. mína var nokkuð að því vikið í umr., sem ég lagði mesta áherzlu á, hvort við ef til vill kynnum að viðurkenna gildi þessa samnings frá 1901 með því að segja honum upp. Taldi ég rétt að láta þessa hugsun koma fram í sambandi við breytta aðstöðu í alþjóðal. síðan 1901. Vil ég segja það í sambandi við ræðu hv. þm. Borgf., að það er vissulega allt annað að viðurkenna réttargildi slíks samnings en að hlíta honum í framkvæmd, og það kom fram í minni ræðu, að við hefðum orðið að hlíta þessum samning. Hitt er aðalatriðið, sem felst í brtt. minni, að ég álít ekki rétt, að Alþ. kveði nú á um það, hvaða skref á nú að taka í þessum efnum, og það meðal annars vegna þess, sem fram kom í ræðum hv. þm. Borgf. og hæstv. utanrrh., að jafnvel þó að þetta skref væri stigið, vitum við ekki, hvort við stöndum nær markinu. En aðalatriðið er þó það, að það sama vakir fyrir mönnum. Það greinir aðeins á um leiðir, og mun verða athugað í n., hvað muni teljast nauðsynlegt að gera nú.